Við verðum að brúa bólusetningarbilið

10.06.2021

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, vekur athygli á að grípa þurfi til fjölþjóðlegra aðgerða til að auka bóluefnaframleiðslu og flýta bólusetningum um allan heim . Bólusetningar eru forsenda þess að hægt sé að aflétta hömlunum á hagkerfi okkar og frelsi. Þessar takmarkanir bitna á heimsbyggðinni allri en eru einkum íþyngjandi fyrir þróunarríki, sem geta síður reitt sig á félagsleg kerfi og efnahagsleg úrræði til að draga úr áhrifum heimsfaraldursins á íbúana.

Í maílok 2021 hafa aðeins 2,1% Afríkubúa fengið einn skammt eða fleiri af bóluefni við COVID-19. Við þurfum að brúa þetta bólusetningarbil milli þróaðra hagkerfa og þróunarríkja til að forðast það sem Tedros Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, hefur kallað „bólusetningar-apartheid“ eða aðskilnaðarstefna. Það er bæði siðferðislega rétt og allra hagur.

Því er þörf á fjölþjóðlegum aðgerðum til að auka bóluefnaframleiðslu og flýta bólusetningum um allan heim. Þetta hefur verið stefna ESB frá upphafi heimsfaraldursins og þetta er jafnframt stefnan sem leiðtogar G20-ríkjanna mörkuðu á leiðtogafundi um heilbrigðismál í Róm, 21. maí síðastliðinn.

Enn láta þúsundir lífið af völdum heimsfaraldursins á degi hverjum og ef svo fer fram sem horfir verður ekki búið að bólusetja heimsbyggðina alla fyrr en árið 2023. Samt er almenn bólusetning allra jarðarbúa eina leiðin til að binda enda á heimsfaraldurinn. Annars er hætta á að afbrigði veirunnar breiðist út og dragi úr virkni bóluefnanna sem nú eru í notkun.

Bólusetningar eru líka forsenda þess að hægt sé að aflétta hömlunum á hagkerfi okkar og frelsi. Þessar takmarkanir bitna á heimsbyggðinni allri en eru einkum íþyngjandi fyrir þróunarríki, sem geta síður reitt sig á félagsleg kerfi og efnahagsleg úrræði til að draga úr áhrifum heimsfaraldursins á íbúana.

Áframhaldandi bólusetningarbil gæti gert árangur síðustu áratuga í baráttunni gegn fátækt og misrétti í heiminum að engu. Slík afturför myndu hamla atvinnustarfsemi og magna upp landfræðipólitíska spennu. Það er ljóst að aðgerðaleysi væri mun dýrkeyptara fyrir þróuð hagkerfi en samanlagður kostnaður við framlag okkar til þess að bólusetja alla heimsbyggðina. Evrópusambandið fagnar því 50 milljarða dala áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um bólusetningu 40% jarðarbúa árið 2021 og 60% um mitt ár 2022.

Þetta er markmið sem útheimtir vandlega samhæfðar, fjölþjóðlegar aðgerðir. Við þurfum að forðast „bóluefnapóltík“, þar sem framboð á bóluefnum er tengt stjórnmálalegum markmiðum, sem og „bóluefnaþjóðernisstefnu“, þar sem ríki vilja halda bóluefnum út af fyrir sig. Ólíkt öðrum hefur ESB hafnað hvoru tveggja allt frá upphafi heimsfaraldursins. Til þessa höfum við verið eini aðilinn á alþjóðavettvangi sem flytur út mikið magn bóluefna og leggur töluvert af mörkum til bólusetninga í fátækari ríkjum samhliða bólusetningu eigin þegna. Evrópubúar mega vera stoltir af þessu.

Árið 2020 veitti Evrópusambandið umtalsverðan stuðning við rannsóknir og þróun bóluefna og átti stóran þátt í nýrri kynslóð mRNA-bóluefna. Í kjölfarið gerðist Sambandið stórtækur framleiðandi bóluefna við COVID-19, en að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar voru um 40% skammtanna, sem hafa verið notaðir til þessa, framleiddir innan ESB. Evrópusambandið hefur jafnframt flutt út 240 milljónir skammta til 90 landa, sem er um það bil sama magn og við höfum notað innan ESB. 

Auk þess hafa aðildarríki og fjármálastofnanir Evrópusambandsins, „Evróputeymið“ svokallaða, gefið bóluefni til nágrannaríkja sem á þurfa að halda, einkum á vestanverðum Balkanskaga, og á síðasta fundi leiðtogaráðsins var samþykkt að gefa minnst 100 milljónir skammta til viðbótar til lág- og millitekjulanda fyrir árslok 2021. Með 2,8 milljarða evra framlagi sínu er Evróputeymið líka helsti bakhjarl COVAX-samstarfsins, sem veitir fátækari ríkjum aðgang að bóluefnum. Evrópusambandið hefur fjármagnað um þriðjung allra COVAX-skammta sem hafa verið afhentir til þessa. Þessar aðgerðir eru þó langt frá því að nægja til þess að koma í veg fyrir að bóluefnabilið breikki enn frekar. 

Til þess að brúa þetta bil þurfa ríki sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og úrræðum að auka framleiðslugetu sína svo þau geti bæði bólusett eigin þegna og flutt út meira af bóluefni, líkt og ESB gerir. Nú vinnum við með bóluefnaframleiðendum að því að auka framleiðslugetu ESB á bóluefni í rúmlega þrjá milljarða skammta á ári í árslok 2021. Evrópsku framleiðendurnir sem við störfum með hafa skuldbundið sig til að afhenda 1,3 milljarða bóluefnaskammta til lágtekjulanda á kostnaðarverði og til millitekjulanda á lágu verði fyrir árslok 2021. Þeir hafa enn fremur skuldbundið sig til að afhenda 1,3 milljarða skammta til viðbótar árið 2022, stóran hluta þeirra í gegnum COVAX-samstarfið.

Öll ríki verða að forðast að beita takmarkandi ráðstöfunum sem hafa áhrif á aðfangakeðjur bóluefna. Við þurfum líka að greiða fyrir miðlun þekkingar og tækni svo fleiri ríki geti framleitt bóluefni. Við hvetjum evrópska framleiðendur eindregið til þess, ekki síst í Afríku. Ég sótti fundinn um fjárhagsaðstoð við Afríku í París 18. maí síðastliðinn, þar sem leiðtogar Afríku minntu á að 99% allra bóluefna sem notuð eru í álfunni séu innflutt. Þetta verður að breytast. Í ljósi þess ætlar Evróputeymið að hrinda af stað átaki, með 1 milljarða evra framlagi af fjárlögum ESB og frá evrópskum þróunarbönkum og í samvinnu við afríska samstarfsaðila, um að auka framleiðslugetu á bóluefnum, lyfjum og heilbrigðistækni í Afríku.

Ákjósanlegt er að leyfi séu látin af hendi af frjálsum vilja til að miðla slíkri tækni og þekkingu en dugi það ekki til er þegar gert ráð fyrir mögulegum nauðungarleyfum í TRIPS-samningnum (samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum) og Doha-yfirlýsingunni frá 2001. Sum ríki telja þó þessi úrræði vera of erfið og seinvirk. Evrópusambandið hyggst því leggja fram nýja tillögu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til þess að flýta fyrir þessari miðlun tækniþekkingar.

Heimsfaraldur COVID-19 hefur minnt okkur á að heilbrigði er alþjóðleg almannagæði. Sameiginlegar aðgerðir okkar til að brúa bilið í bólusetningu heimsbyggðarinnar við COVID-19 verða að vera fyrsta skrefið í átt að raunverulegu alþjóðasamstarfi í heilbrigðismálum, líkt og mælt var fyrir um í Rómaryfirlýsingunni sem samþykkt var á leiðtogafundinum um heilbrigðismál.

Josep Borrell – Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. maí 2021