Delegation of the European Union to the Kyrgyz Republic

Lán til allt að 100 fyrirtækja á landsbyggðinni!

29/10/2020 - 18:03
News stories

Evrópski fjárfestingasjóðurinn hefur undirritað samning við Byggðastofnun um bakábyrgðir að upphæð allt að 3,26 milljörðum króna vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ábyrgðin er studd af „COSME“ áætlun Evrópusambandsins og mun gera Byggðastofnun kleift að auka enn frekar lánveitingar til viðkvæmra svæða. Byggðastofnun mun bæta skilmála tiltekinna lánaflokka, auk þess að útbúa nýja, þar sem sérstök áhersla verður á umhverfisvernd, nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi kvenna, unga bændur og sjávarútveg í viðkvæmum sjávarbyggðum.

FRÉTTATILKYNNING                                                                                Lúxemborg/Sauðárkrókur, 29.október 2020

Evrópusambandið styður Byggðastofnun í fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landsbyggðunum

  • Evrópski fjárfestingasjóðurinn hefur undirritað samning um bakábyrgðir við Byggðastofnun að upphæð allt að 3,26 milljörðum króna vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja á starfsvæði stofnunarinnar.
  • Ábyrgðin, sem er studd af „COSME“ áætlun Evrópusambandsins  mun gera Byggðastofnun kleift að auka enn frekar lánveitingar til viðkvæmra svæða.
  • Byggðastofnun mun bæta skilmála tiltekinna lánaflokka, auk þess að útbúa nýja, þar sem sérstök áhersla verður á umhverfisvernd, nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi kvenna, unga bændur og sjávarútveg í viðkvæmum sjávarbyggðum.

Evrópski fjárfestingasjóðurinn, með stuðningi COSME áætlunar Evrópusambandsins, hefur veitt Byggðastofnun, sem fjárhagslegum millilið, bakábyrgð að hluta á allt að 3,26 milljörðum króna (20 milljónir evra) til nýrra útlána til næstu þriggja ára, til að auðvelda stofnuninni að veita lán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landsbyggðunum. Ábyrgðin veitir stofnuninni tækifæri til að bjóða enn rýmri lánaskilmála en núverandi lánareglur hennar leyfa og þar með setja á laggirnar nýja lánaflokka með hagstæðari lánaskilmálum.

Með samkomulaginu getur stofnunin boðið rýmri lánaskilmála til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þar á meðal sérstök lán til umhverfisverndar, nýsköpunar, stuðnings við frumkvöðlastarfsemi kvenna, ungra bænda og sjávarútvegs í viðkvæmum sjávarbyggðum.  Áætlanir gera ráð fyrir að allt að 100 fyrirtæki geti notið góðs af þessu samstarfi.

Starfsvæði Byggðastofnunar er landið allt utan höfuðborgarsvæðisins og eitt af lykilverkefnum hennar er að styðja við fyrirtækin í landsbyggðunum, ekki síst þau sem eru sínu byggðalagi mikilvæg en einnig að styðja við nýsköpun og fjölbreytni og byggja þar með upp fjölþættari atvinnuvegi í einhæfu atvinnulífi og skapa ný störf.

Arnar Már Elíasson, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar:  „Það er einkar mikilvægt, sér í lagi í kjölfar þessa alheimsfaraldurs, að landsbyggðirnar hafi aðgengi að fjármögnun í þeirri endurreisn atvinnulífsins sem framundan er.  Þetta samkomulag mun auðvelda Byggðastofnun að sinna sínu hlutverki og styrkja allar dreifðari byggðir landsins“.

Alain Godard, framkvæmdastjóri Evrópska fjárfestingasjóðsins:  „Það er einkar ánægjulegt fyrir Evrópska fjárfestingasjóðinn að geta nú veitt litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi, einum af sínum nánustu samstarfsaðilum, sinn stuðning.  Samkomulagið mun gera Byggðastofnun kleift að auka útlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins og efla þar með atvinnulíf á viðkvæmum svæðum.  Stuðningur við frumkvöðla í dreifðum byggðum verður að teljast einkar mikilvægur í núverandi heimsfaraldri.”

Lucie Samcová - Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi: „Ísland og Evrópusambandið eru afar nánir samstarfsaðilar.  Það gleður mig að hægt sé að veita u.þ.b. 100 minni fyrirtækjum í landsbyggðunum aðstoð í gegnum Evrópska fjárfestingasjóðinn  – þ.á.m. í sjávarútvegi í viðkvæmum sjávarbyggðum, ungum bændum, aðilum í nýsköpun, frumkvöðlum úr röðum kvenna og til verkefna sem stuðla að umhverfisvernd.  Samstarf sem þetta hefur varanleg áhrif og mun skila traustum ávinningi til komandi ára.

Frekari upplýsingar um lánveitingar Byggðastofnunar má finna á heimasíðu hennar, byggdastofnun.is

Bakgrunnsupplýsingar:

Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) er hluti samstæðu Fjárfestingarbanka Evrópu (EIB). Markmið hans er að styðja lítil og meðalstór fyrirtæki með aðgengi að fjármagni.  EIF hannar og þróar fjármögnunarleiðir og ábyrgðir sem eru sérstaklega sniðin að þörfum þessara fyrirtækja.  Í þessu hlutverki sínu endurspeglar sjóðurinn markmið Evrópusambandsins um stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun, frumkvöðlastarfsemi, vöxt og sköpun starfa.  Síðan fyrsta verkefninu var hleypt af stokkunum í Noregi árið 1974 hefur samstæða EIB lagt um eitt þúsund milljarða króna til stuðnings verkefna á EFTA svæðinu, þar af um 828 milljarða króna í gegnum EIB og um 182 milljarða króna í gegnum Evrópska fjárfestingasjóðinn.  Samtals hefur samstæðan lagt fram um 199 milljarða króna á Íslandi í gegnum árin.

COSME er áætlun Evrópusambandsins og stendur fyrir „Competitiveness of Enterprises and SMEs“.  Áætlunin hefur verið í gildi frá  árinu 2014 með heildarfjármagn að fjárhæð yfir 380 milljarða króna. COSME aðstoðar lítil og meðalstór fyrirtæki með milligöngu um fjármögnun, styður við alþjóðavæðingu og aðgengi að mörkuðum, skapar gott samkeppnisumhverfi og hvetur til menningu nýsköpunar.

Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.  Í samræmi við hlutverk sitt undirbýr, skipuleggur og fjármagnar stofnunin verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi.

Tengiliðir fjölmiðla:

Samstæða Fjárfestingarbanka Evrópu: Tim Smit, t.smit@eib.org, +352 691 286 423

Byggðastofnun: Arnar Már Elíasson, arnar@byggdastofnun.is + 354 455 5400

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins: Flora Matthaes, flora.matthaes@ec.europa.eu, +32 460 755148

Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi: Klemens Þrastarson, klemens.thrastarson@eeas.europa.eu +354 694 4205

 

Editorial Sections:

Author