Sendinefnd ESB á Íslandi

Héðan í frá - Verðlaunasagan í smásagnasamkeppninni

25/02/2019 - 17:10
News stories

Hér birtist smásagan sem dómnefnd valdi sem bestu söguna í samkeppni sendinefndar Evrópusambandsins, upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, Rithöfundasambands Íslands, Hugvísindastofnun HÍ og Hafnar - HÔTEL DU NORD. Samkeppnin var haldin í tilefni 70 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Sögurnar áttu að fjalla um mannréttindi á einhvern hátt og var þátttaka mjög góð (á áttunda tug sagna). Höfundur er Rúnar Snær Reynisson og hlýtur hann að launum dvöl í gestaíbúð fyrir listamenn í Marseille, Frakklandi. Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt, samstarfsaðilum okkar en einkum dómnefndinni, sem samanstóð af þeim Ástráði Eysteinssyni, Gauta Kristmannssyni og Halldóru K. Thoroddsen. Sérstakar þakkir fær Tinna Ásgeirsdóttir hjá Rithöfundasambandinu fyrir góða samvinnu.

Michael Mann, sendiherra ESB, Vilborg Davíðsdóttir, varaformaður RSÍ, og Rúnar Snær Reynisson

 

 

Héðan í frá

 

Hann vaknaði við að vindurinn lét illa fyrir utan gluggann. Trjágrein bankaði á glerið eins og til að minna hann á að dagurinn væri runninn upp. Og þegar hann leit út til að gá hversu slæmt þetta væri sá hann fólkið í borginni klifra um göturnar með grímur til að skýla andlitunum. Svona yrði síðasti dagurinn áður en hann yrði sóttur. Skýjaður sumardagur og svo hvass að það var illfært um göturnar. Ef hann ætlaði í göngutúr þyrfti hann að slaka sér út um dyrnar í kaðli. Einhvern tíma hefði fólk verið beðið að binda allt lauslegt en núna var ekkert svoleiðis lengur að finna í görðunum. Allt var fest kirfilega niður og ef það var laust var það líklega óþarfi og sóun. Vindurinn hafði tekið til í borginni og það eina sem fauk um voru trjágreinar sem krónurnar höfðu reytt af sér þegar þær köstuðust til yfir götunum.

Hann dró fyrir gluggann aftur og starði á hlutina í íbúðinni. Svona leit síðasti dagurinn hans í borginni út.

„Til hamingju með afmælið, gamli maður,“ sagði hann við sjálfan sig og undraðist að heyra ráma röddina. Fyrir mörgum árum höfðu afmælisdagarnir byrjað á því að Súsanna og stelpurnar brösuðu í eldhúsinu dágóða stund og hann þóttist sofa. Svo komu þær syngjandi og vöktu hann með ilmandi köku og létu hann blása á kerti. Hann sá fyrir sér eldhaf á afmælisköku með 70 kertum. Þetta leið of hratt. Þetta voru kannski 40 sumur eftir að hann hafði fullorðnast og náð áttum. Það voru 25 ár síðan eldri stelpan fæddist og sú yngri var 22 ára. Þau höfðu eignast stelpurnar seint og hann hafði bara verið pabbi í 25 sumur.

Óæskilegar hugsanir höfðu synt til hans síðustu mánuðina og orðið ágengari þegar nær dró. En hann hafði náð að standast þær með hjálp lítillar mottu sem lá í horninu. Hún var orðin snjáð þar sem hann settist með krosslagða fætur. Hann lagði hendurnar í kjöltuna og lófarnir snéru upp. Hann einbeitti sér að loftinu sem hann dró inn um nefið og blés hægt út um munninn. Hann sá fyrir sér blöðru og hugsanirnar fylltu hana. Vonin um að þeir myndu breyta þessu og að hann yrði ekki sóttur. Sorgin yfir því að stelpurnar hans væru langt í burtu og vildu halda sig fjarri meðan á þessu stóð. Þær höfðu ekkert haft samband þó hann væri að fara. Þarna var líka forvitnin um hvar Súsanna væri núna. Hann sleppti þessari blöðru og hún hvarf upp í myrkur. Það sem eftir sat var hann sjálfur og kennd sem hafði vaknað þegar hann var barn og logaði tær. Og hann trúði því að í djúpinu innra með honum byggi friðsöm vera. Og hann fann fyrir rýminu inni í sér og hann fann fyrir loftinu í kring og heyrði það streyma fram hjá húsinu gegnum göturnar í borginni.

Hann opnaði augun og íbúðin birtist aftur. Hann fór að sjóða sér graut, laga te og gleypa í sig fréttirnar. Á litlum skjá birtist eitt orð í einu og hvarf jafnharðan. Á þremur mínútum hafði hann leiftrað nokkrar fréttir um tölur úr sjálfbærnivísum sem höfðu verið valdar til birtingar. Það var hægt að mæla framför og fólkinu fækkaði með ásættanlegum hraða.

Hugsanir fóru aftur að detta inn. Það yrði allt í lagi að vera fluttur úr borginni. Þetta yrðu bara augnablik og hann yrði í líkamanum að upplifa snertingu, hljóð, lykt og bragð og hæfilega áreynslu. Hann myndi venjast því að vera úti að rækta umvafinn jurtum og orkan úr matnum sem eldra fólkið sendi frá sér myndi knýja lífið í borginni. Börnin sem stelpurnar hans myndu eignast fengju vonandi að borða grænmetið og kornið sem afi ræktaði.

Honum hafði verið ráðlagt að hugsa ekki um þá sem voru farnir en hann gat alveg séð þetta fyrir sér. Hann reyndi að hugsa ekki um daginn þegar Súsanna sleit þessu og lét sig hverfa. Það voru að verða tvö ár síðan hún varð sjötug einhvers staðar langt í burtu. Kannski yrði hún þarna.

Þetta hefði hann ekki átt að gera og nú þurfti hann að setjast aftur á mottuna og endurtaka möntru sem skar í gegnum hugsanirnar. „Fuglinn flýgur rétta leið,“ hugsaði hann og sá fyrir sér útbreidda vængi svífa hátt í storminum. „Fuglinn flýgur rétta leið,“ hugsaði hann og fuglinn hélst á flugi sama hvernig vindurinn lamdi. Hugsanirnar reyttust úr honum og þegar hann opnaði augun var hann aftur hljóður og heyrði sterka hviðu syngja í glugganum.

Hann opnaði gluggann og leyfði storminum að gnauða. Vindurinn blés gegnum borgina og hann sá lestina liðast hjá fulla af hausum. Unga fólkið sem ekki þurfti að bíða eftir uppgjöri. Unga fólkið sem fæddist í saklausan heim. Hafði alltaf kunnað að borða, kunnað að hugsa, kunnað að vera kyrrt. Árið 2051 var fólk ekki farið að fljúga um á geimskipum. En fólkið hafði gert heiminn sjálfbæran og réttlátan.

Það höfðu verið fyrirboðar um allt sem átti eftir að fylgja. Einn daginn komu stelpurnar heim úr skólanum með fréttir. Það var bannað að fara á bíl í skóla. Þetta höfðu verið litlar og sjálfsagðar breytingar. Hann gat aldrei gleymt því þegar hann rak augun í það á netinu fyrir mörgum árum að hitabylgja í Svíþjóð væri svo öflug að illa lagðir lestarteinar gætu bognað. Allt eldra fólkið átti svona minningu. Svo kom Gloría.

Gloría var fellibylur sem varð til á Kyrrahafi. Hún kom fyrst í veðurspánni og svo kom hún í alvörunni og færði borgir á kaf. Það liðu ekki nema átta mánuðir þangað til nýi sáttmáli og réttindi mannkyns voru lögfest. Þetta voru sársaukafull ár og fjöldi starfa var lagður niður. Hann hafði þegið borgaralaun síðan prentsmiðjunni var lokað og þau fengið að flytja til þessarar borgar. Fjórði áratugurinn var mjög erfiður fyrir marga en unga fólkið hafði ekki unnið neitt til saka og fór hamförum. Ný kynslóð stjórnmálamanna varð til.

Það var barið á dyrnar. Hann undraðist þetta, hverjum dytti í hug að heimsækja hann síðasta daginn? Vindurinn vildi taka í hurðina þegar hann opnaði og fyrir utan stóð hávaxin mannvera í síðum, ljósum frakka. Innan úr grímunni horfðu á hann brosandi blíð augu.

„Komdu sæll, má ég koma inn fyrir,“ sagði kvenrödd og stýrði sér inn úr storminum. Hún togaði af sér grímuna, stakk henni ofan í bakpoka og dustaði af sér rykið.

 „Ég hélt að þið kæmuð á morgun, þetta er afmælisdagurinn minn,“ sagði hann og studdi sig við vegginn.

„Nei, þú ert kannski búinn að gleyma því að þú fæddist snemma morguns. Það er bara komið að þessu,“ sagði hún og brosti.

Hann dáðist að því hvað unga fólkið var nákvæmt. Hann hafði séð þetta byrja að verða til í stelpunum eftir að þær fóru að hugleiða í skólanum. Þeim var líka uppálagt að mæla allt og telja. Og brátt voru þær byrjaðar að segja honum til og kenna honum sjálfsaga. Það merkilega var að þeim virtist líða svo vel þannig. Þær voru aldrei kvíðnar út af nokkrum hlut. Þær hættu að rífast og virtust kunna að vera til. Hann hafði aldrei séð þær gráta síðan þær voru litlar og fannst eins og krakkarnir sem komu heim með stelpunum ættu eftir að geta allt. Núna voru þær langt í burtu og höfðu vit á að hætta ekki neinu til að vera með uppistand út af einum karli þó að hann væri pabbi þeirra.

„Ertu í sæmilegu jafnvægi?“ spurði hún, og renndi höndunum í gegnum stutt ljóst hárið, ennþá móð eftir vindinn.

„Ég held það, ég fann ekki fyrir neinum kvíða í morgun,“ sagði hann.

„Þú heldur það, ert ekki alveg viss. Allt í lagi, við förum þá yfir ákveðna hluti hér heima hjá þér áður en við förum út,“ sagði hún og brosti niður til hans með augunum eins og áður.

Þegar hún var sest við eldhúsborðið setti hún ræðuna af stað.

„Skilur þú af hverju þetta er gert?“

„Já,“ sagði hann.

„Þetta er þannig núna að ég aðstoða dómarann. Við klárum uppgjörið saman. Svo ferð þú út úr borginni. Er það á hreinu?“ spurði hún.

„Já, að sjálfsögðu,“ sagði hann og andaði niður í magann.

„Þú fæddist árið 1981 sem þýðir að þú fékkst 45 ár áður en nýi sáttmáli var samþykktur. Það þýðir að þú berð ákveðna ábyrgð og til að markmiðið náist þarf að takmarka réttindi þín núna, því miður,“ sagði hún og svo fylgdi setning sem hljómaði eins og hún hefði verið sögð oft. „Það þarf að velja núna eins og fólkið valdi áður.“

Hann fann til með henni. Þetta var ábyggilega ekki auðvelt; að sækja fólk alla daga. Hann velti því fyrir sér hvað hann gæti sagt til að sannfæra hana um að þetta myndi ganga vel.

„Þú þarft ekki að kvíða því sem gerist. Þú ert í jafnvægi. Það er ekki líklegt að það verði neinir í salnum. Fólk er hætt að mæta til að fylgjast með. Reyndar kemur stundum námsfólk og horfir á. Viltu spyrja að einhverju?“

„Hvað með ættingja, eru þeir að koma og fylgjast með, getur það haft einhverjar afleiðingar ef börnin koma?“

Hún leit ákveðið í augun á honum. „Þetta er nokkuð sem þú skalt ekki hugsa um,“ sagði hún og brosti blíðlega. „Ég sé að dætur þínar eru mjög upplýstar.“

Honum fannst eins og hún hefði teygt sig inn í hann og snert veruna.

„Ég skal viðurkenna að hugsanirnar sem koma snúast um hvort maður verði niðurlægður. Ég hef fundið fyrir kvíða út af því,“ sagði hann.

„Flott. Gott hjá þér að segja það,“ sagði hún og klappaði saman lófunum. „Nú geturðu unnið með það. Látið þær líða hjá.“

Hún var skyndilega orðin sjálfsörugg og hann hugsaði að nú hlyti henni að finnast hún standa sig vel. Hann sökkti sér í þakklætishyl yfir því að hafa fengið svona góða stúlku til sín.

„Þetta verður reyndar ákveðinn fyrirlestur,“ hélt hún áfram. „Það verður önnur með mér í dag, hæstráðandi, það er einhver tilraun í gangi. Það verða tekin mjög svæsin dæmi eins og alltaf reyndar. Það er ekki víst að þér finnist það allt sanngjarnt. En ég er farin að ráðleggja fólki að hætta fljótlega að hlusta. Loka bara eyrunum og hugsa um einhverja góða minningu. Þú varst ekki einn um þetta,“ sagði hún og nú snerti hún veruna hans aftur með augunum.

---

Í dómshúsinu, á annarri hæð, í móttökunni fyrir skrifstofur dómara, var ritarinn að taka til á skrifborðinu sínu. Það hafði verið rifa á glugganum um nóttina og hann þurfti að byrja daginn á að þurrka fjalladuftið úr gluggakistunni. Þegar hann heyrði raddir nálgast ákvað hann að nýta síðustu sekúndurnar áður en þær birtust til að koma sér í réttar stellingar og anda niður í magann. Hann opnaði skjal í tölvunni og faldi sig þar. 

„Það er kannski ekki hægt að segja að þetta gangi betur en það gerði en við höfum náð að gera þetta auðveldara fyrir alla,“ sagði leiðbeinandi við hæstráðanda þegar þær gengu inn í móttökuna og fram hjá ritaranum sem var önnum kafinn. Þær voru ennþá móðar eftir slagsmálin við hviðurnar og óglatt af vindriðu. Það var eins og að standa uppi í turni sem sveiflaðist eins og hali.

„Við tökum einn í einu. Stundum hjón eða sambýlisfólk ef það hefur hangið saman,“ sagði leiðbeinandinn. „Það er á margan hátt auðveldara, fólk fær að fara saman og það er ákveðin huggun í því. Sætt er sameiginlegt skipbrot og allt það.“

„Svona nú,“ sagði hæstráðandi og var ekki skemmt.

Leiðbeinandinn hélt fræðslunni áfram á meðan þær gengu inn á skrifstofu dómara. „Þú færð upplýsingar um viðkomandi á skjáinn. Ef þú vilt næði gerirðu bara hlé.“ Hún benti á mottu og púða sem lágu í horninu.

„Get ég farið hingað upp aftur og hugleitt ef ég þarf?“ spurði hæstráðandi.

„Já. Þú þarft ekkert að útskýra af hverju þú vilt taka hlé,“ sagði leiðbeinandinn og brosti. „Nú skulum við koma niður í sal þar sem allt gerist.“

Þær fóru niður þröngan, glamrandi hringstiga og voru komnar í dómssalinn, á bak við dómaraborðið. Upp við vegg í salnum var stytta af brosandi konu með bundið fyrir augun. Hún hélt á sverði í annarri hendinni en teygði hina fram átakanlega tóma. Þarna er hún ennþá, hugsaði hæstráðandi.

 „Það eru aðstoðardómararnir sem færa þér fólkið og eru búnir að undirbúa það á leiðinni. Þú lest staðlaða texta inn á milli. Svo velur þú upplýsingar um fólkið til að fara yfir. Það er búið að taka til ákveðin dæmi.“

Þær beygðu sig yfir tölvuskjá.

„Reyndu samt að halda þig við uppröðun á málum. Fólkið á það til að nefna ástæður. Þá er það fyrirsjáanlegt og næsta dæmi á að strika yfir ástæðuna eða sýna fram á tvískinnunginn, skilurðu.“

„Já, þetta er sniðugt,“ sagði hæstráðandi. „Hjálp við að mynda tengingar.“

 „Þetta eru tengingar sem þú skalt nýta þér. Þetta flæðir mikið betur þannig heldur en með upptalningu. Þá þyrfti hún að vera lengri en tengingarnar sanna fljótt hvernig allt var,“ sagði leiðbeinandinn.

„Takk. Ég skil. Ég er reyndar ekki að fara að sinna mörgum málum. Við ætlum að  prófa þetta sjálf til að kanna möguleikana. Hvað gert verður héðan í frá,“ sagði hæstráðandi og gaf merki um að hún mætti fara út og skella í lás. Þegar dyrnar höfðu lokast stóð hún ein eftir á gólfinu og minningarnar um það sem gerst hafði í salnum ruddust fram.

Þetta var fyrir mörgum árum þegar hún var í námi og átti að fylgjast með uppgjöri. Þetta var þegar foreldrar hennar voru gerðir upp. Einn kennarinn hennar hafði tekið eftir þessu og hrósað henni mjög því fáir lögðu í svoleiðis. Þetta hafði orðið vegsauki.

Hún sótti púðann upp á skrifstofuna, lagði á dómarabekkinn í salnum og settist með krosslagða fætur. Hún lokaði augunum og þegar hún hafði andað niður í magann leyfði hún sér að heimsækja þennan dag sem hún hafði ekki þorað að vitja lengi.

Allt í einu voru mamma og pabbi komin. Mamma hennar logaði skært í sumarkjólnum sínum. Þau sátu róleg og biðu eftir því að þessu lyki. Hún hafði setið í nemendahópnum með steingrímu og reynt að fela hausinn á sér á bak við hausinn á einhverjum öðrum. Sumt af því sem tekið var fyrir snéri að krökkunum. Þau fóru yfir flugferðina þeirra á sólarströnd. Móðir hennar sagði við dómarana að þau hefðu bara viljað að fjölskyldan gerði eitthvað skemmtilegt saman. Viljað að krakkarnir eignuðust góðar minningar. Fólkið í salnum hnussaði og dómarinn reif þau í sig.

Núna hafði minningin rifið sig lausa, yngri bræður hennar að leika sér við sundlaugina og maginn fór að snúast við. Þetta var engin hugleiðsla lengur heldur straumþung á og hún flaut stjórnlaust niður hana. Hún stakk hausnum upp úr ánni og opnaði augun. Fyrir framan hana stóð gyðjan með sverðið laust aftast í salnum.

Hún vissi af hættulegri hugsun sem núna gat tekið á sig mynd. Hún kunni að stöðva svona lagað en stundarkorn langaði hana að leyfa myndinni að birtast. Leyfa ímyndunaraflinu að gjósa og teikna upp hvar foreldrar hennar ... eftir uppgjörið. Það þurfti að passa sig að láta ákveðin orð ekki hljóma. Myndin sem gæti kviknað myndi hrífa hana með sér á hættulegar slóðir.

Hún snéri frá og fór að reisa vegg. Hún andaði niður í magann og sá fyrir sér ljós skína í krónunni yfir höfðinu. Fjólublátt ljós sem hún færði til um líkamann og skipti litum. Litrófið endaði í rauðum þar sem hún tengdist jörðinni. Hún fann gleðina rísa inni í sér og kallaði fram möntruna. Fyrst hvíslaði hún orðin fjögur: „Fuglinn flýgur rétta leið.“ Síðan lét hún þau bergmála í huganum: „Fuglinn flýgur rétta leið.“ Þá kviknaði myndin af vængjunum og fuglinn sveif kyrr og friðsamur á meðan vindur æddi yfir landið og hrinti til trjánum.

---

Lestin sem hún sat í liðaðist eftir sporinu og hnikaðist til. Fólkið ruggaði og tveir unglingsstrákar voru að dusta af sér sandinn og ræða saman. Hún komst ekki hjá því að heyra hvað þeir sögðu.

„Þetta var öflugt í morgun, ég var að prófa nýtt,“ sagði annar, sem var lægri loftinu.

Sá stærri gerði sér grein fyrir að vinur hans ætlaði að byrja samtal svo hann snéri sér í sætinu og horfði af fullri athygli í augu hans. „Já, gott hjá þér. Lát heyra.“

„Ætlun,“ sagði hann eins og heimurinn myndi gjörbreytast þegar hann sleppti orðinu. „Ég tók ætlun í morgun.“

„Vel gert,“ sagði vinur hans og brosti. „Þú ert kominn þangað.“

„ Já. Og ég ákvað að velja stolt. Eða það kom fyrst upp í hugann og ég greip það. Maður hefur sjaldan leyft sér að hugsa um það sem maður hefur gert vel. En síðan þegar tilfinningin breiddi úr sér varð þetta alveg magnað því ég fann hvernig tengingar urðu til.“

Félagi hans ókyrrðist og leit út fyrir augu vinar síns.

„Ég held að það sé reyndar ekki ráðlagt að velja endilega stolt í þessum tilgangi,“ sagði hann.

„Nei, þetta var ekki þannig. Ég var bara að fara yfir það sem hefur tekist vel hjá mér. Þetta kom ekki frá egóinu, eins og einhver væmin fyrirgefning,“ sagði hann og flissaði og fékk bros til baka frá vini sínum.

Vinur hans leit á hendurnar og fléttaði fingrunum saman. „Egóinu finnst reyndar mjög gaman að halda tengingaveislu,“ sagði hann og leit upp á vin sinn. „Ég held að þetta stolt sem þú ert að tala um sé frekar skylt þakklæti. Það er mjög öflugt. Ég enda alltaf á því að sökkva mér í þakklætishyl,“ sagði hann. „Það er alveg hægt að nota þakklæti í ætlun. Það verða til góðar tengingar yfir daginn en hann verður ekki mikið öðruvísi. Það hefur ekki mikil áhrif á hvernig þú velur. Það er meira svona tónn í hjartanu, skilurðu.“

Vinur hans var núna líka farinn að horfa niður á fingurna.

„Hvað notar þú?“ spurði hann.

„Ég hef verið að nota ást upp á síðkastið en líka bærni. Mér finnst það gera mjög mikið, hjálpar manni að velja rétt og svo getur þakklætið komið í kjölfarið.“

Þetta gerði útslagið. Hún gat ekki hlustað lengur á þessa menn. „Rugludallar,“ hugsaði hún. Sama byrgið og þessir drengir voru að reyna að hlaða upp hafði fallið saman yfir hana um morguninn. Hún hafði ætlað að láta þessa daga líða með því að hafa nóg fyrir stafni og sökkva sér í hugleiðsluna. Það hafði gengið þangað til í morgun. Í miðju kafi heimsótti hana minning um afmælin hans pabba. Þegar þær mæðgurnar rottuðu sig saman í eldhúsinu, mamma og systurnar, eldsnemma morguns og bökuðu ilmandi köku á náttfötunum.

„Mamma er farin líka.“ Þetta skall á henni, óraunverulegt og hrærði í maganum á henni. Hún reyndi að anda niður í magann, blása hægt út og finna áferðina á sætinu í lestinni. Finna hvernig hún þaut í gegnum borgina. En þetta sleppti henni ekki og fleira blossaði upp. Hún hafði alltaf skriðið upp í til pabba þegar mamma hennar var að vinna á kvöldin. Systir hennar hafði alltaf sofnað strax í sínu stórustelpuherbergi. En hún lá vakandi innan um leikföngin sín og gat ekki sofnað því hún var hrædd við eitthvað sem henni fannst vera fyrir aftan hana í rúminu. Þegar hún kom lagði pabbi alltaf frá sér bókina og lyfti upp sængurhorninu. Svo tók hann fram einhverja skemmtilega bók fyrir krakka. Þegar hún reyndi að tengjast honum um morguninn var búið að loka á hann. Þá hafði hún misst stjórnina og búið sig út í storminn.

Vond tilfinning bjó um sig þegar hún barði á hurðina hjá honum. Stór úrgangsbíll var að taka af stað frá húsalengjunni. Það kom enginn til dyra. Hún var of sein. Úrgangsbíllinn hætti við og bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna. Í glugganum birtist hvítpúðrað andlit manns sem hafði verið að síðan eldsnemma um morguninn. Hann var með grímuna girta niður að höku og hafði fengið innsýn í það sem var að gerast. „Það þýðir ekkert annað en að horfa fram á veginn,“ sagði hann.

Þetta vinarþel kom við hana eins og köld lúka. Hún hryllti sig og hugsaði að hún myndi aldrei gefa neinum ráð framar. Svo snéri hún andlitinu upp í vindinn og stýrði sér áfram eftir gangstéttinni sömu leið og hún kom. Vindurinn mokaði mold og sandi upp í munninn á henni og hún hrækti á götuna og tróð sér í gegnum loftstrauminn.

Þegar hún var farin að slást til í sætinu í lestinni lokaði hún augunum. Það voru engir í næstu sætum og hún setti í gang ætlun um reiði og sorg. Kökkur fór að hlaðast upp í hálsinum og augun byrjuðu að fljóta.

---

Þeim virtist mikið í mun að fólkið sem undirgekkst uppgjör yrði ekki vart hvert við annað. Hann hafði þurft að sitja einn í biðkompu áður en hann var leiddur inn.

„Þá erum við búin að áætla sótsporið en við eigum alveg eftir að fara yfir kostnaðarsiðferði og val,“ sagði hæstráðandi og aðstoðardómarinn kinkaði kolli og leit brosandi á hann. „Ertu tilbúinn í það?“

„Eigum við ekki að klára,“ sagði hann og fann með fingurgómunum hve tréarmarnir á stólnum voru sléttir og vel pússaðir. Hann hafði náð að varpa akkeri í núinu.

„Við sjáum hér að þú tjáðir hluttekningu þína á samfélagsmiðli þegar lítill flóttadrengur drukknaði árið 2015. Manstu hvað hann hét?“

„Nei, ég hef aldrei verið minnugur á nöfn,“ svaraði hann.

„Allt í lagi, við höfum ekki áhyggjur af því,“ sagði hæstráðandi og setti sig í stellingar. „En þú manst kannski að á þessum tíma var mikil neyð. Fólk svalt af því að það var ekki til matur. Maturinn var annars staðar en flugvélarnar og skipin upptekin. Svo var fólk á flótta en það var óvelkomið því rúmin voru frátekin fyrir ferðamenn. Minningasafnara.“ Hún fékk sting þegar hún sagði síðasta orðið.

„Já. Þetta var hræðilegt. Maður sá myndir af þessu í sjónvarpinu en gat lítið gert,“ sagði hann.

Aðstoðardómarinn gaf hæstráðanda merki og benti á skjáinn. Þær stungu saman nefjum og héldu stutta tengingaveislu, kinkandi kolli og brosandi. 

 „Talandi um myndir af hörmungum í sjónvarpi. Samkvæmt okkar gögnum pantaðir þú þér nýtt sjónvarp á þessum tíma. Og hér er líka auglýsing frá þér á síðu fyrir notaðar vörur þar sem þú auglýsir gamla sjónvarpið og ferð um það fögrum orðum. Sáust hörmungarnar ekki nógu vel í gamla sjónvarpinu?“

Hann vissi ekki hvernig hann átti að svara og hikið varð til þess að hún hélt áfram og virtist lesa af skjánum. „Á þessum tíma var hægt að láta ákveðna upphæð renna til Rauða krossins og UNICEF, til dæmis. Ákveðna upphæð í hverjum mánuði. Samkvæmt okkar gögnum tókst þú ekki þátt í neinu slíku. En þú varst tilbúinn að láta háa upphæð renna til raftækjaverslunar til að eignast nýja sjónvarpið og hluti af því voru vextir. Þér lá á að sjá betur á sjónvarpið.“

„Sjónvörpin voru að breytast á þessum árum. Það var að koma ný skjátækni sem hét OLED...“ sagði hann.

„Þú ert minnugur á nöfn á skjátækni,“ sagði hæstráðandi.

Meðdómarinn hafði haft rétt fyrir sér. Það var lítið mál að brynja sig fyrir þessu. Hann kinkaði kolli og heyrði á tóninum að þessu væri að ljúka. Tími hans í dómssalnum var búinn. Þær luku sér af og sögðu brosandi að nú þyrfti hann að fara úr borginni. Því miður væru ekki efni til annars en að velja og hann væri búinn að fá 70 ár.

Meðan á þessu stóð hafði hann verið að fylla á blöðru með sektarkennd yfir því hvernig hann hafði verið. Hann sleppti henni upp í myrkrið og andaði niður í magann. Svo fór hann að einbeita sér að kuldanum í loftinu sem snerti húðina. Gyðjan með sverðið og útréttan lófann var það síðasta sem hann sá í salnum.

Bílstjórinn ók af stað inn í sandbylinn sem æddi eftir auðum götunum. Á leiðinni leyfði hann ímyndunaraflinu að teikna mynd af því sem biði fyrir utan borgina. 

„Settu á þig grímuna núna,“ sagði bílstjórinn um leið og þeir sáu smábátabryggjuna við flóann.

„Erum við að fara að sigla,“ spurði hann.

„Já. Grímuna á.“

---

Réttlætisgyðjan stóð enn í sömu stellingum í tómum dómssalnum. Hæstráðandi var komin upp á skrifstofu og sat á púðanum á gólfinu með lokuð augun. Hún hlustaði og beið. Það var sérstakt verkefni að þagga niður í eftirvæntingunni sem bjó í biðinni og að halda aftur af ímyndun sem vildi ryðjast fram með tilgátur og uppástungur. En hún kunni að kalla fram algjöra þögn og upp úr þeirri þögn átti eitthvað nýtt að koma. Ráðið hafði sent hana til að hlusta. Þau þekktu hana og völdu hana til að þreifa og losa enda fyrir nýjum tengingum. Hún átti að sitja um það sem kynni að fæðast í þögninni eftir uppgjörið. Ekkert átti að koma á óvart.

Hún sat á mottunni og beið en þögnin var algjör og þurr eins og eyðimörk.

Allt í einu var barið að dyrum. Hún opnaði augun og heimurinn var enn þar sem hún skildi við hann. Aftur var lamið á hurðina og kallað. Þetta var karlmannsrödd og það hlaut að vera dómvörðurinn.  

„Komdu strax! Þú verður að sjá þetta.“

Þegar þau komu niður og opnuðu inn í dómsalinn blasti við þeim ung kona sem hafði dregist grímulaus inn í dómshúsið og alla leið inn í sal. Hún hafði ekki hirt um að dusta af sér og ljósgrátt rykið af götunum þakti fötin og andlitið. Vatn rann úr rauðum augunum og taumar lágu niður kinnarnar.

Dómvörðurinn var búinn að grípa í hana þegar hæstráðandi teygði út höndina og honum varð ljóst að hann ætti að láta þetta afskiptalaust. Hæstráðandi leit örsnöggt niður á skjáinn eins og hún væri að fletta einhverju upp í flýti.

„Faðir þinn er farinn,“ sagði hún.

Unga konan sagði ekkert en lágt hljóð barst frá henni. Þetta var eins og söngur. Einn langur tónn sem hún rauf til að kippa lofti ofan í lungun. En svo hélt tónninn áfram í takti við það hvernig konan féll saman. Hún var að gráta.

Dómvörðurinn var með myndavél í búningnum og kom sér fyrir til að ná góðri upptöku.

„Þetta hef ég ekki séð síðan krakkarnir mínir voru óvitar. Ég ætla að sýna þeim þetta í kvöld.“

„Hafðu hljótt,“ hvíslaði hæstráðandi og hlustaði á tóninn og ekkann sem skall á henni. Hún lokaði augunum og fann tóninn snerta veruna. Og hún opnaði augun og sá konuna fela rykugt andlitið í höndum sér og hristast.

„Þú mátt fara með hana núna,“ sagði hún og hraðaði sér aftur upp stigann þar sem mottan og þögnin biðu hennar. Hún slökkti ljósin í herberginu, lokaði augunum og skildi við daufa birtu heimsins.

---

Skrúfublöðin hvæstu og opinn slöngubáturinn barðist nær hafnarhliðinu. Inni í höfninni náði vindurinn rétt svo að reita upp sjóinn en fyrir utan mokuðust háar öldur.

Þeir höfðu bundið sig niður í bátinn.

„Ef þú losar þessa smellu flýgur þú af bátnum,“ heyrðist í hátalara framan á grímu ferjumannsins.

Hann var ekki í björgunarvesti en hagræddi grímunni sem var reyndar bara rykgríma og þegar hliðið opnaðist skaut ferjumaðurinn bátnum undir lokuna. Um leið og þeir voru sloppnir undir byrjaði hún að falla niður aftur með þungum dyn og lokaði hann úti.

Hann lokaði augunum. Fyrsta aldan ruddist undir bátinn, svipti þeim upp og þeir voru rétt fallnir aftur þegar næsta alda tók þá. Nú var hann ekki í jafnvægi þegar hann kýldist upp og hann féll niður í bátsbotninn. Önnur alda reis upp við hliðina á bátnum og sýndi þeim inn í djúpið þar sem mannvera lá fljótandi á grúfu.

Hann klemmdi augun aftur og hugsaði um fallegu, fallegu sveitina þar sem maturinn var ræktaður, öll gróðurhúsin og blómin sem koma á plönturnar áður en þær bera ávöxt. Um öll þörfu verkin sem voru óunnin og hann fengi að sinna í rólegheitum. Skrúfublöðin blésu frekjulega þegar mótorinn kom upp úr sjónum og hvæstu þegar blöðin náðu aftur spyrnu í vatninu. Nú fékk báturinn frið til að troðast um þéttan vindinn og öldurnar út í flóann. Hann hafði augun lokuð og fann fyrir verunni inni í sér. Hún ætlaði að standa þetta af sér þó líkaminn lenti í vatninu. Hann hafði heyrt að það væri ekkert vont að drukkna. Þá er ég farinn, hugsaði hann. Sömu leið og Súsanna. Ég skil stelpurnar eftir. Hann sleppti blöðrunni með stelpunum og hún sveif upp í grá skýin.

Kannski myndi hann vakna við að móðir hans kyssti hann á ennið.

---

Veran var ekki eins og hún átti að sér. Hún var vön að vera eins og klettur sem haggaðist ekki heldur vakti kyrrlát inni í henni. En nú vék hún sér undan og hæstráðandi fann hvernig hugsanirnar náðu yfirhöndinni. Hún hugsaði um mömmu og pabba. Hún hugsaði um hvernig hafði farið fyrir þeim. Hún sá þau fyrir sér á bátnum og rósótta sumarkjólinn lenda í sjónum. Og skyndilega réð hún ekki lengur við andlitið á sér. Húðin undir augunum byrjaði að kiprast og hún leyfði því að gerast. Tárin fengu að renna og dropa niður á hendurnar. Hún missti alla stjórn og féll niður á ókunnugan stað. Hún skalf og hristist til en þegar því lauk og sviðinn vék úr vöngunum gat hún andað svo djúpt. Og þegar kökkurinn í hálsinum losnaði fann hún fyrir tilhlökkun að ljúka deginum og sækja litlu stúlkuna sína. En svo skildi hún að eitthvað hafði opnast. Núna voru óteljandi lausir endar og hún tók á sig rögg, andaði djúpt og lét sig sökkva. Á leiðinni niður fann hún hvernig hún vaknaði. Veran var aftur orðin kyrr en líka eins og ný. Og úr djúpinu reis hugmyndin björt. Nú myndu þau hætta að tengja því fyrirgefningin væri að leggja að. Nú myndu þau hætta að tengja. Þetta hreyfði svo við henni að hún gat ekki annað en opnað augun og séð að eitthvað hafði breyst í herberginu. Ljós ferningur glóði á veggnum andspænis glugganum og hún stóð upp og svipti gluggatjöldunum til hliðar. Hún þurfti að píra augun mót allri birtunni. Það sá upp í bláan himin yfir borginni í gegnum skýin sem hrærðust og viku sér undan hvítum geislum sólarinnar.

Rúnar Snær Reynisson

Ritstjórnargreinar: