Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, heimsækir Ísland

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, heimsækir Ísland í vikunni og mun funda með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra um stöðu alþjóðamála, öryggis- og varnarmál, viðskiptamál, almannavarnir, umhverfis- og loftslagsmál, og EES-samstarfið.
Forseti framkvæmdastjórnarinnar mun m.a. heimsækja öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og hitta fulltrúa Almannavarna, en Almannavarnir Evrópusambandsins (EUCPM) eiga í nánu samstarfi við íslensk yfirvöld og komu til Íslands til að aðstoða yfirvöld með krísustjórnun og undirbúning vegna eldgosanna í Sundhnúkagígaröð.
Þetta er í annað sinn sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sækir Ísland heim, en hún tók þátt í leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í maí 2023.