ESB: áreiðanlegur samstarfsaðili í öryggismálum

Grein eftir sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi sem birt var á www.vardberg.is þann 28.05.2024 um öryggis- og varnarmál í tengslum við Schuman ráðstefnuna um öryggis og varnarmál 2024.

 

Evrópusambandið: áreiðanlegur samstarfsaðili í öryggismálum

eftir sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Lucie Samcová-Hall Allen, 28.05.2024

 

Dagana 28 og 29 maí 2024, stendur Evrópusambandið (ESB) fyrir Schuman ráðstefnunni um öryggis- og varnarmál (e. Schuman Security and Defence Forum) í annað sinn. Á Schuman ráðstefnunni munu ESB, aðildarríki þess, og hátt í 60 náin samstarfsríki koma saman auk alþjóðlegra- og svæðisbundinna samtaka, leiðandi fræðafólks og hugveita til þess að ræða sameiginlega hagsmuni og áskoranir. Markmið Schuman ráðstefnunnar er að varpa ljósi á það hvernig ESB og samstarfsaðilar þess geta, í sameiningu, stuðlað að auknum friði og öryggi í heiminum. Schuman ráðstefnan er helsti samstarfsvettvangur ESB fyrir stefnumótendur í varnar- og öryggismálum og við fögnum þátttöku íslenskra stjórnvalda í ráðstefnunni, en utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, verður þar fulltrúi Íslands.

Þegar Rússland hóf hrottalegu allsherjarinnrás sína í Úkraínu hlutum við, Evrópubúar, ótvíræða staðfestingu á endurkomu valdapólitíkur.  Heimurinn er í auknum mæli að verða margpóla og minna opinn fyrir marghliða alþjóðasamstarfi. Í samtengdum heimi okkar er staðbundin einangrun ekki lengur til. Krísur og átök geta breiðst út á ljóshraða. Ástand, sem í fyrstu virðist svæðisbundið, getur fljótt orðið alþjóðlegt með mun víðtækari og flóknari afleiðingar en nokkru sinni fyrr. Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því afhverju stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna, fjölþjóðastefna, og reglubundin alþjóðaskipan hafa verið og koma áfram til með að vera lykilstoðir utanríkisstefnu ESB sem og öryggis- og varnarmálastefnu okkar.

Á sama tíma og við verðum vitni að því að ófriðarríki eru að auka umsvif sín, líkt og Rússland sem nú reynir að eigna sér stóran hlut af landsvæði annars ríkis með grimmilegum hernaði, verðum við einnig vitni að og verðum fyrir blendingsvopnum líkt og netógnum, upplýsingaóreiðu og vopnavæðingu viðskipta og fólksflutninga.

Ísland er meðal nánustu samstarfsaðila og bandamanna ESB og gegnir lykilhlutverki á norðurslóðum og á Norður Atlantashafssvæðinu. Við deilum sameiginlegum grundvallarhagsmunum í því að tryggja að norðurslóðir verði áfram öruggt, friðsælt, stöðugt, farsælt og sjálfbært svæði sem er opið fyrir viðskiptum og nýtur óhindraðra samskiptaleiða.

Aukin árásarhneigð Rússlands, hernaðaruppbygging og umsvif á norðurslóðum fela í sér frekari öryggisáskoranir. Er það því mikilvægt að við, í sameiningu, gætum sameiginlegra hagsmuna okkar og störfum saman við að verja mikilvæga innviði, að vernda sæstrengi, að tryggja sjó- og flugöryggi, að efla netöryggi og gagnavernd, og að tryggja óhindraðan aðgang að matvælum, eldsneyti, iðnaðar- og almennum neytendavörum. Á sama tíma verðum við að halda áfram baráttu okkar gegn  umhverfis- og loftslagsbreytingum sem eru ein alvarlegasta ógn sem steðjar að norðurslóðum.

Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir ríki til þess að takast á við þessar fjölþættu öryggisógnir á eigin spýtur þar sem áhrif þeirra eru ekki bundin við landamæri eða efnahagslögsögur. ESB er þeirrar trúar að hægt sé að eiga við þessar áskoranir með skilvirkari hætti í gegnum margliða fjölþjóðasamstarf. ESB er staðfast í því að viðhalda öflugu samstarfi við Ísland og önnur ríki á norðurslóðum sem áreiðanlegur og verðmætur samstarfsaðili í öryggis- og varnarmálum. Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt til þess að standa vörð um alþjóðlegan frið og öryggi, og með samstarfi eru ESB, Ísland, og aðrir aðilar á svæðinu nú þegar að leggja sitt að mörkum til þess að stuðla að auknum friði og öryggi.

Í júní 2023 héldu Ísland og ESB sínar fyrstu viðræður um öryggis- og varnarmál í Reykjavík og stofnuðu þannig formlegan vettvang fyrir báða aðila til þess að ræða þróun mála sem varðar málaflokkinn og hugsanleg tækifæri til frekara samstarfs. Áætlað er að næstu viðræður munu eiga sér stað í sumar.

Evrópusambandið styður samstarfsaðila sína í norðrinu með margvíslegum aðgerðum. Með auknum efnahagslegum og hernaðarlegum umsvifum á svæðinu býður gervihnattamiðstöð ESB (e. EU Satellite Centre – SatCen) upp á örugga landrýmisgreiningu, sem styður við eftirliti og greiningu á öryggisástandi á norðurslóðum, tryggir aukinn stöðugleika með aðgerðum í þágu traustuppbyggingar (e. Confidence-building measures - CBM) sem og kemur í veg fyrir ófyrirsjáanleg atvik. Að sama skapi styður Galileo kerfi ESB nú þegar við leitar- og björgunaraðgerðir og tryggir samstarfsaðilum sínum í norðrinu ótakmarkaðan og óhindraðan aðgang að leiðsögu- og upplýsingakerfi sínu sem eflir öryggisstarf. Gervihnattakerfi okkar vakta einnig og greina umhverfis- og loftslagsbreytingar og stuðla þannig að gagnreyndri stefnumótun með því að veita yfirvöldum og rannsakendum nauðsynlegar upplýsingar og gögn. Ísland nýtur einnig aðgangs að fjölmörgum samstarfs- og styrktaráætlunum ESB sem skapa tækifæri til frekari rannsókna og verkefna sem varða t.a.m. netöryggismál, umhverfis- og loftslagsmál, endurnýjanleg orkugjafa, svo dæmi séu tekin. Almannavarnarkerfi ESB (e. EU Civil Protection Mechanism - EUCPM) er reiðubúið til þess að aðstoða Íslendinga í neyðartilvikum líkt og gerðist í október 2023 þegar almannavarnarkerfi ESB sendi, að beiðni íslenskra stjórnvalda, hóp sérfræðinga til þess að styðja yfirvöld í aðdraganda eldgosanna við Sundhnúkagíga. Samstarf í gegnum stofnanir eins og Frontex er sömuleiðis öflugt og eykst í sífellu.

Í áframhaldandi viðræðum og samskiptum okkar leitast ESB við að efla samskipti, að leggja enn betur við hlustir og læra af Íslandi og íslenskum sérfræðingum. Ísland er verðmæt bandalagsþjóð í NATO með umtalsverða sérfræðiþekkingu, einkum á sviði sjósiglinga og  leitar- og björgunaraðgerða. Fjölbreytt þekking Íslands er nýtt í áhrifaríkum verkefnum líkt og í Úkraínu þar sem íslensk yfirvöld stóðu fyrir verkefni á sviði þjálfunar á jarðsprengjuleit og sprengjueyðingu. Þetta á einnig við um sérþékkingu Íslendinga á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, en sérþekkingin gæti nýst öðrum Evrópuþjóðum enn frekar. Frá því að innrásarstríð Rússlands gegn Úkraínu hófst hafa hin 27 aðildarríki ESB dregið verulega úr notkun á rússnesku eldsneyti, tryggt sér meiri fjölbreytni í orkuöflun, og stóraukið uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa. Aðgerðir þessar hafa leitt til þess að rafmagnsframleiðsla vind- og sólarorkuvera er nú, í fyrsta skipti, meiri en rafmagnsframleiðsla með gasi. Með því að læra af reynslu og þekkingu Íslands í endurnýjanlegri orkuframleiðslu getum við aukið orkuöryggi okkar meir og, á sama tíma, náð markmiðum okkar um nettó núlllosun gróðurhúsalofttegunda. 

Í ár fögnum við 30 ára afmæli EES-samningsins. Tímamót þessi færa okkur tækifæri til þess veita dýrmætu samstarfi okkar viðurkenningu og um leið leggja áherslu á það að samstarf okkar er ekki einungis afar hagstætt viðskiptasamband heldur er það í grunninn samstarf sem byggir á ákveðnum grunngildum og sameiginlegri sýn. Líkt og kjörorð ESB segir “Sameinuð í fjölbreytileika”, þá erum við sterkari þegar við vinnum saman. 

Schuman ráðstefnan um öryggis- og varnarmál á sér stað í Brussel dagana 28 og 29 maí 2024. Frekari upplýsingar má finna á www.esb.is

Greinin var fyrst birt á www.vardberg.is