Yfir þúsund manns mættu á Evrópudagsfögnuð í Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum

Fjölmennt var á sólríkum Evrópudagsfögnuði sem sendinefnd Evrópusambandsins stóð fyrir í Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum, laugardaginn 10. maí 2025.
Yfir 1,000 manns lögðu leið sína á Evrópudagsfögnuðinn sem hófst klukkan 14:00 með látum þegar Lúðrasveit Mosfellsbæjar gæddi listasafnið lífi með fjölbreyttum lögum.
Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, lögðu báðar áherslu á mikilvægi evrópusamstarfs í opnunarerindum sínum.
Fjölbreytileiki evrópskrar menningar var til sýnis á hátíðinni, en sendiráð Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Póllands, Svíþjóðar og Þýskalands, ásamt skrifstofu kjörræðismanns Rúmeníu, buðu upp á ýmsar ljúffengar kræsingar, sem og gjafir og leiki fyrir börn, og upplýsingar um löndin sín. Auk þeirra var einnig Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís) sem veitti upplýsingar um ýmsa Evrópustyrki í boði fyrir íslensk fyrirtæki, stofnanir, nemendur og listafólk, o.fl.
Íslenskri menningu og list var einnig fagnað á hátíðinni og bauðst öllum gestum ókeypis aðgangur að tveimur listasýningum safnsins, Kjarval og 20. öldin: þegar nútíminn lagði að, og ÓLGA - frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum.
Mörg hundruð íslenskar pönnukökur voru bakaðar í boði sendinefndar Evrópusambandsins.
Fjölbreytt tónlistaratriði með evrópsku ívafi voru á dagskrá, en fram komu nemendur Tónmenntaskóla Reykjavíkur, kór Hörðuvallaskóla, Bryndís Ásta Magnúsdóttir, söngkona, við undirleik Magnúsar Þórs Sveinssonar, píanóleikara, og Magdalena Urbanek, söngkona, við undirleik Márton Wirth, píanóleikara.
Börn voru í heiðurssæti á Evrópudagsfögnuðinum og boðið var upp á föndursmiðjur, leiki, blöðrur og laugardagsnammi. Börn fengu falleg evrópsk "vegabréf" og fengu stimpla og lítinn glaðning hjá hverju sendiráði.
------
Sendinefnd Evrópusambandsins hefur staðið fyrir Evrópudagsfögnuði frá árinu 2010. Evrópudagurinn er haldinn hátíðlegur árlega um alla Evrópu í kring um 9. maí, en á þeim degi árið 1950 var Schuman yfirlýsingin gefin út sem markaði nýtt upphaf evrópskrar samvinnu, samheldni og friði og lagði jafnframt grunninn að myndun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.
Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi er Clara Ganslandt.