Þann 31. janúar 2020 yfirgaf Bretland Evrópusambandið. Við misstum þar með einn úr fjölskyldunni og þetta var sorgarstund fyrir okkur íbúa Evrópusambandsins – og svo sannarlega fyrir marga breska ríkisborgara. Samt sem áður höfum við ávallt borið virðingu fyrir þessari fullvalda ákvörðun 52 prósenta breskra kjósenda. Við hlökkum til að hefja nýjan kafla í samskiptum okkar.

Fyrsti febrúar var sögulegur dagur en um leið lítt dramatískur, þökk sé útgöngusamningnum sem við gerðum við Bretland en hann gerði okkur kleift að tryggja „snyrtilegt Brexit“. Þetta er lausn sem lágmarkar rask á högum borgara okkar, fyrirtækja, stjórnsýslu – sem og samstarfsaðila á heimsvísu. Enn, að minnsta kosti.

Bretland segir sig frá hundruðum alþjóðasamninga

Samkvæmt útgöngusamningnum tekur nú við aðlögunartímabil til ársloka hið minnsta. Á meðan tekur Bretland þátt í tollabandalagi og innri markaði ESB og framfylgir lögum okkar, þótt það sé ekki lengur hluti af ESB. Bretland mun einnig hlíta alþjóðasamningum Evrópusambandsins, eins og hefur verið tekið skýrt fram í opinberri orðsendingu okkar til alþjóðlegra samstarfsaðila, þar á meðal Íslands.

Með þessu aðlögunartímabili er komin ákveðin samfella í ferlið. Þetta var ekki auðsótt, í ljósi umfangs verkefnisins. Með því að kveðja sambandið er Bretland sjálfkrafa að kveðja hundruð alþjóðasamninga sambandsins sem hafa verið gerðir til hagsbóta fyrir aðildarríki þess. Þetta eru samningar um jafn fjölbreytileg málefni og fríverslun, loftferðir, sjávarútveg og borgaralegt samstarf um kjarnorkumál.

Nýtt samband við gamlan vin

Nú þurfum við að endurskilgreina tengsl okkar við Bretland. Sú vinna hefst eftir að ESB-löndin samþykkja samningsumboð framkvæmdastjórnarinnar. Í því eru sett fram markmið okkar og metnaður til að vera í því nánasta sambandi sem mögulegt er, við land sem verður áfram bandamaður okkar, félagi og vinur.

Evrópusambandið og Bretland eru tengd í gegnum sameiginlega sögu, staðsetningu, menningu, sameiginleg gildi og grunnreglur og trú á reglufast fjölþjóðasamstarf. Samband okkar mun endurspegla þessar tengingar og sameiginleg gildi. Við viljum mun meira en bara verslunar- eða viðskiptasamband. Við viljum til að mynda starfa saman að öryggis- og varnarmálum, sem er málaflokkur þar sem Bretland hefur reynslu og innviði er koma að mestu gagni sem hluti af stærri heild. Í brigðulum heimi áskorana og umbreytinga verðum við að ráðgast hvert við annað og vinna saman, bæði tvíhliða og í alþjóðasamstarfi eins og hjá Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, NATO eða G20.

Kannski er það klisja en sannleikurinn er sá að við þurfum að bregðast við alþjóðlegum áskorunum samtímans – loftslagsbreytingum, tölvuglæpum, hryðjuverkum og ójöfnuði – í sameiningu. Því meira sem Bretland getur unnið í takt við ESB og í takt við aðila um allan heim, því fleiri möguleika eigum við til að takast á við þessa hluti með skilvirkum hætti.

Sterkari saman

Kjarni Evrópusambandsins er hugmyndin um að við séum sterkari þegar við stöndum saman. Að besta leiðin til að ná sameiginlegum markmiðum sé sú að samnýta úrræði okkar og framtakssemi. Brexit breytir þessu í engu og við munum hér eftir sem hingað til starfa eftir þessari hugsjón, sem 27 ríki. Í sameiningu munu aðildarríkin enn mynda innri markað með 450 milljónir borgara og meira en 20 milljónir fyrirtækja. Í sameiningu höldum við áfram að vera stærsta viðskiptaeining í heimi. Í sameiningu verðum við enn sem fyrr stærsti veitandi þróunaraðstoðar í heimi.

Félagar okkar geta verið þess fullvissir að við svíkjumst ekki undan skuldbindingum okkar. Við störfum áfram eftir samningunum sem tengja okkur við alþjóðlega bandamenn. Þar á meðal er EES-samningurinn, sem við höfum unnið eftir í aldarfjórðung með okkar nánustu samstarfsríkjum: Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Við munum enn sem fyrr stuðla að og þróa marghliða rammasamstarf um heim allan.

Við erum staðfastur málsvari reglufasts fjölþjóðsamstarfs og vinnum með vinum okkar að því að búa til öruggari og sanngjarnari heim. Það má stóla á Evrópusambandið sem endranær. Við skorumst ekki undan.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 3. febrúar 2020