Sendinefnd ESB á Íslandi

Staðreyndir um ESB og neytendur

08/02/2018 - 12:47
News stories

Sem sendiherra ESB ætla ég að gera mitt besta til að koma í veg fyrir að Íslendingar verði blekktir eins og samlandar mínir.

evrópusambandið esb neytendur brexit

Það kom mér á óvart, þegar ég flutti til Íslands í fyrra, að sjá í umræðum hér margar sömu ranghugmyndirnar og grassera í upprunalandi mínu, Bretlandi. Þar í landi virðast sumir blaðamenn og jafnvel heilu dagblöðin staðráðin í að dreifa lygum um Evrópusambandið. Þeim virðist standa á sama um hvað er satt og hvað ekki. Því miður létu margir kjósendur í Bretlandi sannfærast af slíkum rangfærslum og hafa nú afráðið að yfirgefa sambandið. Áhrif bresku pressunnar virðast þónokkur á Íslandi en sem sendiherra ESB ætla ég að gera mitt besta til að koma í veg fyrir að Íslendingar verði blekktir eins og samlandar mínir. Í þessari grein langar mig að fjalla um neytendur: þig og mig. Evrópusambandið vinnur þrekvirki til að vernda neytendur, ekki aðeins íbúa hinna 28 aðildarlanda ESB heldur einnig landa utan sambandsins. Þeirra á meðal er Ísland, hvar neytendur og fyrirtæki njóta aðgangs að innri markaði ESB, sem telur um hálfan milljarð manna.

Frelsi til að flakka
Í júní á síðasta ári afnam ESB svonefnd reikigjöld farsímanotenda, og þvinguðu þar með voldug símafyrirtæki til að hætta að rukka fólk um fúlgur fyrir símtöl erlendis. Á innri markaði ESB var engin réttlæting fyrir reikigjöldum. Þau tilheyra nú fortíðinni, slæm minning frá bernskuárum farsímamarkaðarins. Að sama skapi muna allir sem komnir eru yfir fertugt hina gömlu, slæmu daga í flugsamgöngum, þegar atvinnugreinin var bundin ströngu regluverki undir yfirráðum þjóðbundinna flugfélaga og flugvalla í ríkiseigu, og flugmiðaverð gat orðið lamandi hátt. Sköpun innri markaðar fyrir flugsamgöngur, sem hófst á tíunda áratug síðustu aldar, hefur gjörbreytt faginu og rutt brautina fyrir flugfélög á við WOW Air, EasyJet og Vueling. Fyrir flugfélög sem starfa innan ESB hafa markaðshömlur verið afnumdar, sem og höft á borð við sérleyfi flugleiða og takmarkanir á ferðafjölda. Neytendur, flugfélög, flugvellir og starfsfólk hafa öll notið góðs af stefnumótun ESB, um leið og umbæturnar hafa aukið virkni á sviðinu, getið af sér nýjar flugleiðir og flugvelli, leitt til meira úrvals, lægra verðs og, á heildina litið, betri þjónustu.

Nógu stór til að stöðva misferli

Til að markaðssvæði dafni er ekki nóg að saman fari duglegir frumkvöðlar og sanngjörn lög. Beita þarf úrræðum til að tryggja að neytendur njóti góðs af markaðnum. Þar víkur sögunni að því lykilhlutverki sem ESB leikur í varðstöðu um heiðarlega samkeppni. Við höfum ekkert á móti stórum og árangursríkum fyrirtækjum. Þvert á móti gegna þau lykilhlutverki í að knýja fram nýsköpun og geta orðið öðrum innblástur. En þau þurfa að gæta sérstaklega að því að grafa ekki undan heiðarlegri samkeppni. Tökum til dæmis Google. ESB hefur aldrei gert athugasemdir við þá staðreynd að leitarvél Google nýtur yfirburðastöðu í sínu fagi. Hins vegar viljum við koma í veg fyrir að fyrirtækið beiti henni til að hindra samkeppni. Þess vegna sektaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins Google um 2,4 milljarða evra í júní í fyrra (um 300 milljarða króna) fyrir að veita annarri vöru frá Google, verðsamanburðarvél þeirra, forskot í leitarniðurstöðum. Sú iðja kom í veg fyrir að önnur fyrirtæki gætu keppt á grundvelli verðleika og stundað nýsköpun. Mestu máli skiptir þó að þannig var evrópskum neytendum neitað um raunverulega valkosti í þjónustu og þar með mögulega um lægra verð.

Jöfn tækifæri í almannaþágu
ESB vinnur einnig hörðum höndum að því að tryggja að yfirvöld einstakra ríkja veiti ekki ákveðnum fyrirtækjum sérstaka skattameðferð, sem geti grafið undan samkeppni. Á síðasta ári komst framkvæmdastjórnin að raun um að Írland hefði veitt Apple óverðskulduð skattafríðindi sem námu allt að 13 milljörðum evra (rúmlega 1600 milljarðar króna). Þetta gerði Apple kleift að greiða langtum lægri skatta en önnur fyrirtæki og veitti því samkeppnisforskot sem mögulega hindraði nýsköpun og getur hafa haft áhrif á valkosti neytenda og verðlag. Það sem sumir kalla „skrifræðið í Brussel“ í neikvæðum tón, eins og að öryggi byggt á lögum og vandvirk stjórnsýsla séu óvinir fólksins, nýtur sjálfsagt ekki hylli allra. En það kann sitt fag. Fag þess er starf í þágu almannahagsmuna, að verja einstaklinga og réttindi þeirra fyrir misbeitingu voldugra aðila. Þetta er fag sem við, starfsfólk ESB, erum stolt af og verk sem við ætlum að halda áfram að inna af hendi, í þágu okkar allra.

 

Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 31. janúar 2018

Ritstjórnargreinar: