Delegation of the European Union to Iceland

Mótmælum refsileysi glæpa gegn blaðamönnum

01/11/2017 - 10:43
News stories

Yfirlýsing frá æðsta talsmanni Evrópusambandsins í utanríkismálum, í tilefni af alþjóðadegi til að binda endi á refsileysi glæpa gegn blaðamönnum, 2. nóvember 2017

Á alþjóðadegi til að binda endi á refsileysi vegna glæpa gegn blaðamönnum, vegsamar Evrópusambandið starf blaðamanna sem afhjúpa misbeitingu valds, varpa ljósi á spillingu og mannréttindabrot og draga viðteknar skoðanir í efa, og stefna þar með sjálfum sjálfum sér iðulega í hættu á því að verða fyrir ógnunum, ofbeldisverkum og dauða. Sjálfstæðir og frjálsir fjölmiðlar eru grundvöllurinn að fjölhyggju- og þátttökulýðræði, og tæki til að gera stjórnvöld ábyrg athafna sinna.

Árás á blaðamenn felur í sér árás á lýðræðið og fjölhyggjusamfélög. Upplýsingar bera með sér kostnað: blaðamenn verða enn fyrir ofsóknum, eru teknir föngum eða jafnvel drepnir, ekki aðeins þar sem vopnuð átök geisa heldur einnig á friðartímum, þar með talið innan Evrópusambandsins, líkt og við urðum því miður vitni að fyrir örfáum vikum. Ofbeldi gegn blaðamönnum og þátttakendum í fjölmiðlum felur ekki aðeins í sér árás á fórnarlambið heldur takmarkar einnig getu almennings til að nálgast upplýsingar og hugmyndir af öllum toga, innan nets sem utan.

Evrópusambandið mun enn sem fyrr nota öll viðeigandi úrræði á sviði utanríkisstefnu og fjármála til að auka gæði blaðamennsku, aðgengi að opinberum upplýsingum og tjáningarfrelsi. ESB leikur lykilhlutverk í fjármögnun Evrópumiðstöðvar um fjölmiðla- og upplýsingafrelsi (ECPMF) og veitir markvissa vernd með áætlun til stuðnings mannréttindavörðum.

Við fordæmum af öllum krafti morð, hvers kyns ofbeldi, ógnanir og áreiti í garð blaðamanna og annarra þátttakenda í fjölmiðlum. Við ætlumst til þess að stjórnvöld ríkja ræki alþjóðlegar skuldbindingar sínar með því að verja blaðamenn gegn ógnunum, hótunum og ofbeldi, óháð því hvaðan þær berast, hvort sem er innan úr stjórnkerfinu eða frá dómstólum, eða eiga sér trúarlegar, efnahagslegar eða glæpsamlegar rætur. Í hvert sinn sem grunur leikur á um morð, misbeitingu, ógnanir gegn eða árásir á blaðamenn, hvort sem er af hálfu aðila á vegum ríkisvalds eða annarra, ber umsvifalaust að efna til skilvirkrar og óháðrar rannsóknar, með það að augnamiði að ákæra þá sem ábyrgir eru fyrir slíkum glæpum og færa þá fyrir dómstóla. Þegar refsileysi ríkir vegna slíkra glæpa eru lýðræðið og grundvallarréttindi á við tjáningarfrelsið fótum troðin.

Fyrir hönd Evrópusambandsins,

Federica Mogherini

Editorial Sections: