Delegation of the European Union to Iceland

Við stöndum við Parísarsamkomulagið!

05/07/2017 - 19:11
News

Grein sem sýnir staðfestu Evrópusambandsins í loftslagsmálum, birtist í Morgunblaðinu 27. júní.

Parísarsamkomulagið parísarsáttmálinn loftslagsmál loftslagsaðgerðir

Með Parísarsamkomulaginu ákváðu lönd heims að taka ábyrgð á samtíð sinni og framtíð með skuldbindingu um að varðveita sjálfa uppsprettu lífsins: hnött okkar og umhverfi. Loftslagsbreytingasamkomulagið er fordæmalaust marghliða bandalag nærri 200 landa, sem nýtur stuðnings fyrirtækja og samfélaga um víða veröld, um að takast á við vanda sem við stöndum öll frammi fyrir. Við getum aðeins tekist á við þessa áskorun í sameiningu og frá upphafi hefur Evrópa verið í fremstu röð þeirrar sameiginlegu skuldbindingar. 

Æ fleiri viðurkenna að samvinna er hér eini valkosturinn. Evrópa styður þetta tímamótasamkomulag sem aldrei fyrr og ryður brautina við framkvæmd þess, með árangursríkri loftslagsstefnu og styrkingu samstarfs til að úr megi verða sterk bandalög. Ennfremur með viðvarandi stuðningi við hin fátækustu og berskjölduðustu: sívaxandi fjöldi fólks er landflótta, eða í sárri fátækt, vegna þurrka og flóða sem tengjast loftslagsbreytingum. Fyrir Evrópu er það takast á við loftslagsbreytingar spurning um pólitíska ábyrgð og marghliða framkvæmd, um leið og það er öryggismál, sem felur í sér átakaforvarnir og fyrirbyggir jafnvel róttæklingu. 

Þess vegna mun Evrópusambandið ekki endurskoða Parísarsamkomulagið. Við höfum varið tuttugu árum í samningaviðræður. Nú er tími aðgerða, heimurinn setur framkvæmdir í forgang. 

Um leið og við tökumst á við loftslagsbreytingar með framtíðina í huga, sköpum við ótal tækifæri hér og nú, með því að stofna til nýrra og betri hátta við framleiðslu og neyslu, við fjárfestingar og viðskipti. Viið verjum líf okkar, eignir og tækifæri, í þágu mannkyns alls og hnattarins í heild. 

Til að hraða hnattrænni umbreytingu til minni losunar og aukinnar loftslagsseiglu, höfum við tekið að styrkja núverandi bandalög og leita nýrra, allt frá stærstu hagkerfum heims til berskölduðustu eyríkja. Vegna þess að allt frá norðurheimskauti til Sahel-merkur eru loftslagsbreytingar þegar veruleiki, ekki fjarlægt hugtak um framtíðina. 

Við búumst við því af öllum löndum að þau standi við Parísarsamkomulagið, standi við orð sín með framkvæmd loftslagsáætlana sinna og efli framlag sitt eftir því sem tíminn líður. Áætlanir þurfa að verða að áþreifanlegum, framkvæmanlegum stefnumálum og aðgerðum – núna. 

Evrópusambandið er þegar í óða önn að ljúka við samningu þess lagaramma og regluverks sem þarf til að uppfylla markmiðið frá París, um að draga úr losun um að minnsta kosti 40% árið 2030, samanborið við árið 1990. Aðgerðir okkar á sviði lagasetningar ná til allra sviða hagkerfisins. Við veitum orkunýtni forgang og aukum við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á öllu svæðinu. 

Aðgerðir vegna loftslagsbreytinga haldast í hendur við hagvöxt. Tökum ESB sem dæmi: losun okkar hefur lækkað um 22% frá árinu 1990, á meðan verg landsframleiðsla innan sambandsins hefur aukist um 50%. Á sama tímabili höfum við skapað ný störf,ja viðskiptageira og nýja tækni. Við búum hagkerfi okkar undir framtíðina og fjárfestum, á sama tíma, í loftslagsseiglu samfélaga okkar, til að draga úr áhættu nú og síðar meir. 

Við búum að yfir tveggja áratuga reynslu af þróun og framkvæmd metnaðarfullrar loftslagsstefnu og við erum fús að deila reynslu okkar og fengnum lærdómum. Það er ekki hending að við höfum þegar komið á laggirnar viðamiklu samstarfi um stefnumótun í loftslagsmálum við lykilsamstarfsaðila um víða veröld. Við munum einnig halda áfram að veita verulega fjármuni til að styðja við loftslagsaðgerðir í samstarfslöndum okkar. Árið 2015, eitt og sér, nam stuðningur ESB alls um 17,6 milljörðum evra. 

Innan aðeins örfárra mánaða, í nóvember á þessu ári, munu lönd heims koma saman í Bonn til næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP23 – til að halda áfram að sníða starfsáætlun um framkvæmd Parísarsamkomulagsins. Á næsta ári verða haldnar liðkunarviðræður á samstarfsvettvangi SÞ um loftslagsmál, fyrsta tækifærið síðan í París til að líta sameiginlega yfir aðgerðir okkar til að takmarka hnatthlýnun og meta hverju við höfum áorkað, áþreifanlega, til að uppfylla þær skuldbindingar sem þegar eru til staðar. Þetta eru lykilskref til að gera pólitíska samkomulagið sem náðist í París að veruleika. 

Þetta er eftir sem áður áskorun sem við getum aðeins sigrast á með sem allra mestri aðkomu borgarlegs samfélags, fyrirtækja, sveitarfélaga, borga og svæða, samhliða. Við sjáum þegar fordæmalausa fjölbreytni og umfang í aðgerðum allra þessara aðila. Sem stofnanir getum við gert áætlanir og stutt við þau áform sem þarf til að bjarga umhverfi okkar, en það eru þessir aðilar sem gegna veigamestu hlutverki í að framkvæma stefnuna og ná sýnilegum árangri. Hið nýja samkomulag ESB um þróunarsamvinnu færir þetta hlutverk í forgrunn. Aukið samstarf og samþætting allra þeirra sem hlut eiga að máli eru lykilatriði – við gætum sagt lykilatriðið. Vegna þess að aðeins með því að taka höndum saman verður okkur kleift að standa undir þeim metnaðarfullu viðmiðum sem við höfum sett okkur sjálfum og uppskera hinn margvíslega ávinning af samstilltum aðgerðum: minni losun, meira orkuöryggi og betri orkunýtni, hagvöxt á grundvelli nýsköpunar, atvinnusköpun, sterkari samfélög og betra umhverfi. 

Í París var lagður grunnurinn að því að mæta þeirri hnattrænu áskorun að verja jörðina bæði fyrir núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma. ESB er staðráðið í að hrinda ekki aðeins Parísarsamkomulaginu í framkvæmd heldur einnig að bindast sterkum alþjóðlegum böndum til að tryggja að ríkjasamskipti og marghliða samstarf færi fólkinu okkar raunverulegar, áþreifanlegar niðurstöður. Heimurinn, hnötturinn, getur reitt sig á Evrópusambandið. 

 

Federica Mogherini 

æðsti fulltrúi Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum og varaforseti framkvæmdastjórnar ESB 

 

Miguel Arias Cañete 

framkvæmdastjóri ESB í loftslags- og orkumálum

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. júní 2017

Editorial Sections:

Author