Rómarsáttmálinn – Leiðarljós til framtíðar

 

Í dag, laugardaginn 25. mars, fagnar Evrópusambandið því að 60 ár eru liðin frá undirritun Rómarsáttmálans, sem var eitt fyrsta skrefið í átt að sameinaðri Evrópu. Frá árinu 1957 hafa borgarar aðildarríkja ESB notið friðar, velsældar og öryggis sem engin fordæmi eru fyrir. Samruni álfunnar hefur verið árangursríkasta friðarverkefnið í sögu okkar.

 

Ísland og EFTA

Ísland er einn af nánustu samstarfsaðilum Evrópusambandsins og tekur fullan þátt í innri markaðinum, sem er hornsteinn Evrópusamrunans. Samstarf ESB og Íslands nær ennfremur til fjölda annarra sviða. Þetta á við um Schengen-samstarfið, loftslagsmál, menningarstarf og rannsóknir, utanríkisstefnu og mannréttindi.

 

Sögulega séð hefur þróun Evrópusambandsins og þróun EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu – leiðin sem Ísland valdi – verið tvö einkar samþætt ferli Evrópusamrunans eftir stríð. Fjölmörg þeirra gilda og markmiða sem liggja til grundvallar Evrópuverkefninu eigum við sameiginleg með Íslandi.

Hins vegar upplifum við nú óvissutíma, þar sem meginstoðir alþjóðaréttar eru dregnar of oft í efa. Hlutverk Evrópusambandsins, við að viðhalda og styrkja stöðuga alþjóðaskipan heimsins, verður æ brýnna.

 

Traust og trúverðugleiki

ESB er stærsta markaðssvæði heims og leiðandi meðal erlendra fjárfesta í flestum heimshlutum. ESB hefur náð sterkri stöðu með samvinnu sinni og með því að tala einni röddu á alþjóðavettvangi, ryðja hindrunum úr vegi og gera tvíhliða samninga við fjölda mikilvægra samstarfsaðila um allan heim.

 

Evrópusambandið er og verður sem fyrr sterkt, samstarfsfúst og áreiðanlegt afl. Samstarfsaðilar okkar vita fyrir hvað við stöndum.

Við kjósum marghliða samstarf og við stöndum með mannréttindum og alþjóðlegri samvinnu. Við styðjum sjálfbæra þróun og uppbyggingu samfélaga sem hafa pláss fyrir alla. Við berjumst gegn allri mismunun – á vettvangi menntunar, lýðræðis og mannréttinda. Í okkar huga snýst þetta ekki um að gera góðverk, heldur er þetta skynsamleg fjárfesting í okkar eigin öryggi og velsæld.

 

Fjárfesting í stöðugleika

Evrópusambandið er stærsti veitandi fjárhagslegrar þróunaraðstoðar í heimi. Tilfellið er að við og aðildarríki okkar fjárfestum meira í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð en öll önnur lönd heims samanlagt. Þróunaraðstoð ESB fer til 150 landa heims og beinist í síauknum mæli að fátækustu stöðum veraldar. ESB er eini veitandi aðstoðar í heiminum sem veitir stuðning til allra veikburða og stríðshrjáðra landa.

 

Við leggjum einnig þeim lið sem hafa orðið fyrir hamförum af hendi náttúru eða manna. Á síðasta ári úthlutuðum við neyðaraðstoð að verðmæti yfir 180 milljarða króna í mat, húsaskjól, vernd og heilbrigðiþjónustu til 120 milljóna manna í 80 löndum.

 

Reglur verja almenning

Við berjumst fyrir betri reglum á alþjóðavettvangi, reglum sem verja fólk gegn misnotkun, reglum sem auka réttindi okkar og hækka almenn viðmið í þjóðfélaginu. Meðal þess sem hefur haft áhrif á Íslendinga í þessu samhengi eru til dæmis réttindi neytenda og reglur um umhverfismál, baráttan gegn ósanngjarnri einokun og rétturinn til að ferðast, starfa og sækja nám í öðrum löndum.

 

Þetta eru aðeins örfá svið þar sem samstarfið sem við hófum fyrir 60 árum hefur þegar bætt daglegt líf okkar. En nú horfum við fram á veginn, til viðmiða sem tryggja framtíð okkar allra, svo sem í gegnum Parísarsáttmálann um loftslagsbreytingar, og margt fleira.

 

Stöðug í gegnum storminn

Hvað sem verða vill í framtíðinni er eitt víst: Utanríkis- og öryggisstefna ESB mun enn sem fyrr leggja höfuðáherslu á eflingu friðar, öryggis og stöðugleika á alþjóðavettvangi, þróunarsamstarf, mannréttindi og skjót viðbrögð við hættuástandi, svo sem eftir náttúruhamfarir. Óstöðugra alþjóðaumhverfi krefst meiri þátttöku og hlutdeildar okkar allra, en ekki einangrunar.

 

Höfundur, Matthias Brinkmann, er sendiherra Evrópusambandsins.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 25. mars 2017.