Delegación de la Unión Europea en El Salvador

Framtíð frjálsrar verslunar

08/01/2018 - 11:03
Voices and views

Grein um fríverslunarstefnu- og árangur ESB, t.d. um nýlegan samning við Japan. Einnig er fjallað um Ísland og EFTA.

fríverslunarviðræður EFTA ESB fríverslunarsamningar fríverslun alþjóðavæðing

Þann 8. desember rituðu forsætisráðherra Japans og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nöfn sín undir risavaxinn tvíhliða samning um verslunarfrelsi. Þetta er ekki bara hefðbundinn fríverslunarsamningur heldur metnaðarfull skuldbinding um efnahagslega samvinnu, sem skapar 600 milljóna manna efnahagssvæði með um 25-30% af heimsframleiðslu.

Þetta er mikilvægasti tvíhliða viðskiptasamningur sem ESB hefur gert og veitir ekki bara greiðan aðgang fyrir fyrirtæki okkar inn á Japansmarkað heldur festir í sessi það forskot sem við höfum á heimsvísu um opin viðskipti og alþjóðlega staðla, sem auðvelda þau. Við reiknum með að útflutningur til Japans aukist um allt að fjórðung, og útflutningur landbúnaðarafurða um allt að 180%. Við höfum reynslu af samkomulaginu við Suður-Kóreu, frá árinu 2011, þar sem útflutningur okkar jókst um 55% á aðeins fjórum árum, um leið og vöruskiptajöfnuðurinn snerist úr neikvæðum í jákvæðan.

Í heimspressunni er nú fjallað um ESB sem kyndilbera verslunarfrelsis í heiminum, enda erum við nýbúin að semja við Kanada (þar voru felldir niður tollar af yfir 99% af útflutningi okkar) og Víetnam líka. Næst verða líklega Suður-Ameríka, Mexíkó og Ástralía. Hratt og bítandi samþykkja æ fleiri þjóðir lágmarksviðmið okkar um öryggi og gæði varningsins, um rétt launafólks og umhverfisvernd, að ekki sé minnst á upprunareglur. Um leið og þetta eykur öryggi okkar sem kaupum innfluttar vörur, þýðir þetta fyrir fyrirtæki okkar að samkeppnisaðilar í þessum löndum þurfa að undirgangast svipaðar, og helst sömu, lágmarkskröfur og við.

Styrkur fjöldans – öryggi stefnufestunnar

Við höfum gert 39 tvíhliða og svæðisbundna viðskiptasamninga sem ná til 68 aðila. Við höfum þegar lokið við samninga við 23 lönd að auki, sem bíða nú staðfestingar. Við höfum gert áætlanir um að semja við fleiri en 50 lönd til viðbótar. Það er ekki hægt að líta framhjá árangri okkar og metnaði á sviði fríverslunar.

Ástæðan fyrir þessum góða árangri ESB í fríverslunarviðræðum er sú að aðildarríki sambandsins starfa náið saman og njóta góðs af sameiginlegum efnahagslegum og pólitískum styrk sínum, t.a.m. í tollabandalagi. Sambandið hefur fyrir vikið samningsstöðu sem ekkert eitt Evrópuríki gæti vonast eftir að ná.

Fríverslunarsamningar okkar eru heildstæðari en flestir aðrir fríverslunarsamningar. Þeir opna til dæmis þjónustumarkaði, veita gagnkvæman aðgang að opinberum samningum, ryðja tæknilegum hindrunum viðskipta úr vegi og bæta samstarf við smíði reglugerða. Því fer fjarri að öll fríverslunarbandalög eða ríki setji svo há viðmið.

Markaðir ESB eru afar opnir og opnast enn. Nær allir samstarfsaðilar okkar heyra undir að minnsta kosti eitt svið fríðindaviðskipta (preferential trade regimes). Á árinu 2016 voru 70% af innflutningi til sambandsins tollfrjáls. Við erum stærsti innflytjandi heims á varningi frá þróunarlöndum. Öll minnst þróuðu ríki heims njóta ótakmarkaðs aðgangs að mörkuðum ESB fyrir allar vörur sínar, að vopnum undanskildum. Önnur þróunarlönd njóta góðs af örlátum aðgangsfríðindum okkar.

Ísland, EFTA og ESB

Í krafti aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið nýtur landið einnig aðgangs að innri markaði ESB og hálfum milljarði viðskiptavina þar, eins þó að tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur og fiskafurðir séu þar ekki innifalin. Engu að síður mun yfir helmingur íslenskra landbúnaðarafurða frá og með 1. maí á næsta ári vera tollfrjáls innan ESB.

Ísland er aðili að fríverslunarsamtökum EFTA en nærri 70% af þeim vörum sem EFTA-ríkin flytja inn koma frá ESB. Eins og fram kemur í nýlegri skýrslu íslenska utanríkisráðuneytisins er eitt af helstu leiðarstefjum EFTA á sviði fríverslunar að gera fríverslunarsamninga við lönd sem ESB hefur þegar samið við. Þetta gerir EFTA til að atvinnulíf ríkjanna sé samkeppnishæft við atvinnulíf í ESB.

Í skýrslunni kemur einnig fram að það sé erfitt fyrir EFTA að halda í við þá þróun sem orðið hefur í fríverslunarsamningum á síðustu árum. Við óskum EFTA alls hins besta í þessu tilliti og vonum í einlægni að bandalagið haldi áfram að sinna fríverslunarsamningum af sama metnaði og við gerum. Því við erum sannfærð um að evrópska módelið felur í sér bestu leiðina til að tryggja sanngjörn, frjáls viðskipti um allan heim, öllum löndum til hagsbóta. Þetta er leiðin áfram.

Höfundur er sendiherra Evrópusambandsins - greinin birtist í Viðskiptablaðinu 22. desember 2017.

http://www.vb.is/skodun/framtid-frjalsrar-verslunar/143885/

Secciones editoriales: