This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Starfsemin

Evrópustofa er miðstöð kynningar og upplýsinga. Hlutverk hennar er að auka skilning og þekkingu á ESB og þangað er fólk velkomið, óháð afstöðu til ESB eða mögulegrar aðildar Íslands.

Hvað viltu vita?


Starfsmenn Evrópustofu leitast við að svara spurningum sem varða Evrópusambandið á einn eða annan hátt. Þeir aðstoða einnig fólk við að afla upplýsinga á eigin vegum, til dæmis um verkefni ESB og sjóði sambandsins. Í Evrópustofu er ýmiss konar lesefni um ESB og starfsemi þess. Gestum er velkomið að eiga þar lesstund, sér til gagns og ánægju.

Margvíslegan fróðleik er að finna á vefnum evropustofa.is og þar er hægt að tengjast fjölda vefja ESB og annarra.

Hægt er að senda tölvupóst eða hringja. Starfsmenn svara spurningum og athugasemdum eftir bestu getu, fljótt og vel!

Fjölbreyttir viðburðir


Evrópustofa efnir til kynningar- og umræðufunda um land allt. Boðið er til sérstakra fræðslufunda, námskeiða og menningarviðburða í húsi Evrópustofu eða annars staðar eftir atvikum.

Fjölmiðlar og almannatengsl


Evrópustofa leitast við að aðstoða blaða- og fréttamenn við að afla sér upplýsinga um Evrópusambandið og starfsemi ESB.
 
Ýmsar flökkusögur eru sagðar um ESB en fæstar þeirra eiga sér stoð í veruleikanum. Hafa skal það sem sannara reynist og Evrópustofu er einmitt ætlað að miðla staðreyndum.

Samstarf


Evrópustofa leitar eftir fjölbreyttu samstarfi við stofnanir, skóla, samtök og hagsmunaaðila sem geta haft ólíkar skoðanir á aðildarferli Íslands.