This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Vissir þú að IPA-styrkir eru ekki háðir aðild að ESB?

IPA-aðstoð (e. Instrument for Pre-Accession) miðar að því að veita umsóknarríkjum og mögulegum umsóknarríkjum aðstoð við að uppfylla þau skilyrði sem ríki þurfa að standast til að gerast aðilar að ESB, svokölluð Kaupmannahafnarviðmið. IPA stuðningur stendur þeim ríkjum til boða sem eiga í samningaviðræðum við sambandið um aðild eða eru að undirbúa slíkar samningaviðræður. Stuðningurinn er veittur óháð því hvort ríki ákveði að loknum viðræðum að ganga í sambandið eða ekki.
 
IPA-aðstoð er sérstaklega ætlað að styrkja lýðræðislegar stofnanir og réttarríkið, umbæta opinbera stjórnsýslu, stuðla að efnahagslegum breytingum og virðingu fyrir mannréttindum, styðja þróun borgaralegs samfélags, svæðisbundinnar samvinnu, stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr fátækt. Samkvæmt fjölærri rammaáætlun (e. Multi-Annual Indicative Financial Framework) er áætlað að 10 milljónum evra verði árlega úthlutað til Íslands á tímabilinu 2011-2013. Sökum stærðar landsins og þess ágæta ástands sem hér ríkir er upphæðin umtalsvert lægri en er úthlutað til annarra umsóknarríkja.

Sömu reglur og viðmið gilda gangvart IPA-styrkjum og öðrum alþjóðlegum samningum. Alþjóðastofnanir, á borð við ESB og Sameinuðu þjóðirnar, gera samninga við yfirvöld þeirra ríkja (gistiríkja) sem þær eru staðsettar í. Þessir samningar kveða á um friðhelgisréttindi, t.d. um friðhelgi skrifstofuhúsnæðis, útsendra starfsmanna og undanþágur frá tollum, sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Þetta er grundvallarregla í milliríkjasamskiptum sem byggist á gagnkvæmni. Hún gerir starfsemi sendiskrifstofa, alþjóðastofnana og ýmiss konar alþjóðlega aðstoð, þ.m.t. þróunaraðstoð, greiðari og ódýrari. IPA-styrkir byggjast á þessum sömu grundvallarsjónarmiðum. 

Nánar má lesa um IPA styrki á vef Alþingis og á vef framkvæmdastjórnar ESB.