This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Málefni hafsins og fiskveiðar

 

Nauðsynlegt efnahag og umhverfi


Fjöldi Evrópubúa á lífsviðurværi sitt undir sjónum og afurðum hans en þar ber fyrst að nefna fisk en einnig orku frá olíu- og gasborpöllum á hafi úti. Þá er verslunarskipafloti ESB háður heimshöfunum.

Ferðamannaiðnaðurinn er önnur stór starfsgrein sem tengist sjónum en strandsvæði laða að sér ferðafólk. Þegar svona mikið er undir verðum við að sýna ábyrgð í umgengni við sjávarauðlindina, koma í veg fyrir ofveiði og tryggja að komið sé í veg fyrir olíu- og gasmengun frá haf- og strandsvæðum.

Mikilvægi verndunar


Sjávariðnaður í Evrópu er sá fjórði stærsti í heimi en þar veiðast árlega um 6,4 milljónir tonna af fiski. Um 350.000 manns starfa við fiskveiðar og fiskvinnslu í álfunni.

Sjálfbærni í fiskveiðum er forgangsatriði í sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB, jafnt í efnahagslegum og umhverfislegum skilningi, og ávallt er tekið tillit til hagsmuna neytenda. Stórt skref í þá átt eru nýloknar umfangsmiklar endurbætur framkvæmdastjórnarinnar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins sem hafa það að markmiði að tryggja afkomu sjómanna um leið og bundinn er endi á ofveiði og ágangi á fiskveiðistofna.

Endurbæturnar kalla á stofnun Evópsks sjóðs um málefni hafsins og fiskveiðar (e. European Maritime and Fisheries Fund, EMFF) fyrir tímabilið 2014-2020. Sjóðnum er ætlað að aðstoða sjómenn við breytingar í átt að sjálfbærum fiskveiðum og hjalpa sjávarbyggðum að auka efnahagslega fjölbreytni með því að styðja við verkefni sem skapa ný störf og bæta lífsgæði á þessum svæðum


Hérna má nálgast bækling með staðreyndum og tölfræði um sjávarútveg ESB

Alþjóðlegt samstarf og aðstoð


Evrópusambandið hefur gert samstarfssamninga við ríki utan sambandsins og samið við svæðisbundnar og alþjóðlegar fiskveiðistofnanir til að tryggja að nýting heimshafanna fari fram innan regluverks sem tryggi gagnsæi, sjálfbærni og komi í veg fyrir ofveiði.

Þessir samningar veita evrópskum sjómönnum jafnframt aðgengi að fjarlægum hafsvæðum sem aftur tryggir að þörf evrópskra markaða sé fullnægt. Þetta aðgengi fæst gegn fjárframlagi sem felur í sér að ríki utan ESB, einnig þróunarríki, geta fjárfest í fiskiðnaði í ríkjunum og byggt upp fiskistofna.

Þróun fiskeldis


Sjávarútvegur Evrópusambandsins nær ekki að anna eftirspurn á sjávarafurðum, sem fer sívaxandi meðal íbúa álfunnar, en fiskeldi getur hjálpað til við að brúa bilið. Í dag er fjórðungur þeirra sjávarafurða sem framleiddar eru innan ESB upprunnar frá fiskeldisstöðvum og annars konar fiskeldisframleiðslu. Hvað magn varðar er kræklingur, regnbogasilungur og Atlantshafslax mikilvægustu fiskeldistegundirnar fyrir ESB. Þar á eftir koma ostrur, borri, karpi, skelfiskur og vartari.

Gerðar eru miklar kröfur til evrópsks fiskeldis um umhverfisvernd, dýravelferð og neytendavernd. Evrópskt fiskeldi hefur hins vegar verið í vissri stöðnun sem iðnaður undanfarin ár - en framkvæmastjórnin hyggst snúa þeirri þróun við með sérstökum tillögum að endurbótum á sameiginlegu fiskveiðistefnunni.

Hafið sem breyta


ESB ræður yfir stærsta hafsvæði og kaupskipaflota í heimi (1.200 hafnir). Þá fara 90% utanríkisviðskipta og 40% innanríkisviðskipta um höfin.

Sjávarútvegsstefna ESB hefur alltaf tekið umhverfissjónarmið til greina. Þar var þó ekki fyrr en nýlega sem sambandið tók að móta sér heildstæða og víðtækari stefnu í málefnum hafsins og alla okkar nýtingu á því. Markmiðið er að byggja á kostum og hefðum ESB á sviði hafrannsókna, tækni og nýsköpunar svo að sjávarútvegsstefnan geti lagt sitt af mörkum til markmiða ESB (Europe 2020) um snjallan, sjálfbæran og heildstæðan vöxt.

Stefna ESB í málefnum hafsins nær til sjóflutninga, samkeppnishæfni fyrirtækja tengdum sjó, atvinnumála, vísindarannsókna, fiskveiða og verndunar hafsins. Meginmarkmiðið er að tryggja sjálfbæra og umhverfisvæna efnahagsþróun.

Þann 20. maí ár hvert fagnar ESB „Evrópskum degi hafsins“ til að leggja áherslu á það hversu mikilvægt hlutverk hafið leikur í samfélagi okkar og hagkerfi.

 

Meira

 

 

* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu.
Til baka