This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Innri markaðurinn


Evrópa án landamæra 


Innri markaður ESB er eitt af merkustu afrekum Evrópusambandsins. Megineinkenni innri markaðarins er hið svokallaða fjórfrelsi sem felur í sér frjálst flæði fólks, vöru, fjármagns og þjónustu án þeirra hamlana sem landamæraeftirliti og viðskiptahindrunum fylgir.


Vegna þessa kerfis er Evrópubúum frjálst að ferðast innan landamæra ESB hvort sem er í viðskiptaskyni eða ánægjunnar vegna. Ef fólk kýs frekar að halda sig á heimaslóðum getur það notið fjölþjóðlegs vöruúrvals hjá kaupmanninum á horninu.


Engin landamæri


Hundruðir tæknilegra, lögfræðilegra og skrifræðislegra hindrana stóðu í vegi fyrir innri markaði ESB en markvisst umbreytingaferli, sem náði hámarki árið 1993, varð til þess að markmiðinu um aukið frelsi í viðskiptum og flæði á milli ríkja ESB náðist. 

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórninni skópu þessar breytingar 2,75 milljónir starfa og 1,85% vöxt á árabilinu 1992 til 2009.

Þá hafa fyrirtæki nýtt sér þetta aukna viðskiptafrelsi til þess að auka umsvif sín sem leitt hefur af sér aukna samkeppni sem dró niður verð og jók vöruúrval í verslunum. 

Í dag kosta símtöl innan Evrópu ekki nema brot af því sem þau kostuðu fyrir tíu árum. Þá hafa flugfargjöld í mörgum tilfellum lækkað umtalsvert og nýjar flugleiðir opnast. Eins geta heimili og fyrirtæki nú valið af hverjum þau kaupa gas og rafmagn.

Samhliða því nýtur Evrópusambandið stuðnings fjölmargra aðila hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum og öðrum evrópskum löggjöfum til að tryggja að fjórfrelsið grafi ekki undan neytendavernd, sanngirni eða sjálfbærni í umhverfismálum.


Evrópsk fyrirtæki efld


Innan ESB hafa fyrirtæki óheftan aðgang að u.þ.b. 500 milljónum neytenda - sem aftur veitir þeim góðan grundvöll fyrir alþjóðlegri samkeppnishæfni. Þá laðar svona stór innri markaður að sér erlenda fjárfestingu.

Líta má á efnahagssamruna af þessu tagi sem gagnlega vörn gegn tímabundnum samdrætti. Þannig geta aðildarríki Evrópusambandsins haldið uppi viðskiptum sín á milli í stað þess að grípa til takmarkandi verndaraðgerða sem væru síst til þess fallnar að bæta ástandið. 


Sumum hindrunum viðhaldið


Þrátt fyrir mikinn árangur, eru mörg svið þar sem samruna hefur ekki enn verið náð.

Í fyrsta lagi kemur sundurskipt skattakerfi í aðildarríkjunum niður á markaðssamruna og skilvirkni.

Þá hefur þjónustugeirinn, þrátt fyrir nýjar og víðtækar lagasetningar árið 2006, opnast hægar en markaðir fyrir vörur. Þessi lög gerðu fyrirtækjum kleift að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu yfir landamæri frá höfuðstöðvum í heimalandi þeirra.
Tafir hafa haft áhrif á fjármálaþjónustu og flutninga í þeim ríkjum þar sem markaðir eru enn aðskildir.


Hvað fjármálaþjónustu varðar gerir ESB sitt ítrasta til að koma í veg fyrir krísur, eins og þá sem upp kom árið 2009, með uppbyggingu öruggari og sterkari fjármálageira. Aðgerðir sambandsins fela í sér aukið eftirlit með fjármálastofnunum, reglusetningar fyrir flóknar fjármálaafurðir ásamt því sem bankar eru skilyrtir til að búa yfir hærra eiginfjárhlutfalli. 


Frjáls för, en ekki án eftirlits


Flest aðildarríki ESB hafa komið sér saman um að afnema landamæraeftirlit á landi sín á milli (flugfarþegar þurfa enn að sýna skílríki). 

Undantekningarnar eru fimm ríki sem enn eru með landamæraeftirlit en þau eru: Kýpur, Írland, Bretland, Búlgaría og Rúmenía. 

Mótvægið við þessum tilslökunum á eftirliti á landamærum aðildarríkjana er strangara eftirlit á ytri landamærum ESB sem er til þess gert að hindra glæpamenn í því að misnota kerfið. Eftirlitið felst í:Meira hér* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu

Til baka