This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

8. Aðrar stofnanir ESB

Endurskoðendadómstóllinn (European Court of Auditors)


Endurskoðendadómstóllinn er staðsettur í Lúxemborg. Hann var stofnsettur árið 1975 og hefur eftirlit með ráðstöfun fjárlaga ESB. Á hverju ári leggur dómstóllinn fram skýrslu um bókhald ársins á undan til Evrópuþingsins og ráðherraráðsins. Þessi ársskýrsla er mikilvæg fyrir þingið sem þarf að ákveða hvort það samþykkir ráðstöfun framkvæmdastjórnarinnar á fjármunum ESB.


Vefsíða: www.eca.europa.eu    


Umboðsmaðurinn (European Ombudsman)


ESB setti á fót embætti umboðsmanns með Maastricht-sáttmálanum árið 1992. Almenningur í löndum ESB getur leitað til umboðsmannsins ef hann telur á sér brotið af stofnunum ESB. Öllu stjórnkerfi ESB er skylt að veita umboðsmanninum þær upplýsingar sem hann fer fram á. Í niðurstöðu sinni getur umboðsmaðurinn komið með formleg tilmæli til stofnana ESB um úrbætur. Umboðsmaðurinn er valinn af Evrópuþinginu til fimm ára í senn, en getur verið endurvalinn.


Vefsíða: www.ombudsman.europa.eu  


Evrópska persónuverndarstofnunin (European Data Protection Supervisor) 


Stofnuninni var komið á fót árið 2001 og sér til þess að allar stofnanir og starfsemi ESB virði reglur um persónuvernd. Persónuverndarstofnunin getur krafist þess að stofnanir eyði upplýsingum ef þær hafa ekki verið vistaðar á viðeigandi hátt.


Vefsíða: www.edps.europa.eu 


Seðlabanki Evrópu (European Central Bank) 


Seðlabanki Evrópu var stofnsettur árið 1998 og er staðsettur í Frankfurt. Bankinn ber ábyrgð á peningamálastefnu ríkjanna sem taka þátt í evrusamstarfinu. Seðlabankanum er skylt að viðhafa peningamálastefnu sem leiðir til lágrar verðbólgu og hann getur breytt vaxtastiginu til að ná þessu markmiði. Jean-Claude Trichet hefur verið seðlabankastjóri síðan 2003.


Vefsíða: www.ecb.eu  


Fjárfestingarbanki Evrópu (European Investment Bank)


Fjárfestingarbanki Evrópu var stofnaður árið 1958 og hlutverk hans er að lána fé til fyrirtækja og aðila í einka og opinbera geiranum. Verkefni geta t.d. verið lagning vega, járnbrauta eða bygging flugvalla. Fjárfestingarbankinn lánar fyrst og fremst til fátækari svæða í Evrópu, verðandi aðildarríkja og þróunarlanda en einnig til lítilla fyrirtækja.


Vefsíða: www.eib.europa.eu  


Svæðanefnd (Committee of the Regions) 


Meðlimir hennar eru fulltrúar sveitarstjórna og svæðisbundinna yfirvalda og fjalla þeir m.a. um málefni þessara stjórnsýslustiga. Nefndin var sett á stofn árið 1994 og hefur það markmið að fá fulltrúa minni stjórnsýslueininga til að taka virkan þátt í mótun nýrrar ESB-löggjafar, enda koma u.þ.b. þrír fjórðu hlutar ESB-löggjafar til framkvæmdar hjá sveitarfélögum eða svæðisbundnum yfirvöldum.


Vefsíða: www.cor.europa.eu  


Efnahags- og félagsmálanefnd (Economic and Social Committee)


Nefndin var stofnsett árið 1957. Hún er ráðgefandi aðili sem er fulltrúi fyrir vinnuveitendur, stéttarfélög, bændur, neytendur og aðra hagsmunahópa. Nefndin kemur skoðunum þessara aðila á framfæri og ver hagsmuni þeirra í viðræðum við framkvæmdastjórnina, ráðherraráðið og Evrópuþingið. 


Vefsíða: www.eesc.europa.eu  

 

Samskipti Íslands og ESB