This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

7. Evrópudómstóllinn: Lögum ESB fylgt eftir

Hlutverk:Að kveða upp dóma í málum sem lögð eru fyrir hann
Dómstóllinn:Einn dómari frá hverju aðildarríki; átta aðallögmenn
Almenni dómstóllinn:Einn dómari frá hverju aðildarríki
Starfsmannadómstóll: Sjö dómarar
Aðsetur:   
Lúxemborg

•    www.curia.europa.eu

 

Evrópudómstóllinn (e. The Court of Justice of the European Union) tryggir að löggjöf ESB séu túlkuð og beitt á sama hátt í öllum aðildarríkjunum, þ.e. að sama gangi yfir alla óháð aðstæðum. Dómstóllinn rækir þessar skyldur með því að fylgjast með lögmæti aðgerða stofnana ESB, tryggja að aðildarríkin uppfylli skyldur sínar og túlka löggjöf ESB að beiðni dómstóla í aðildarríkjunum.

Dómstóllinn getur úrskurðað í ágreiningsmálum milli aðildarríkja, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga innan ESB. Starfsemi dómstólsins er skipt í tvennt til að hann anni þeim tugum þúsunda mála sem berast til úrlausnar. Annars vegar er það dómstóllinn (e. Court of Justice) sem veitir dómstólum aðildarríkjanna ráðgefandi álit og  annast ógildingar og áfrýjanir. Hins vegar er það almenni dómstóllinn (e. General Court) sem fellir dóma í málum sem lögð eru fram af einstaklingum, fyrirtækjum og stundum einnig af aðildarríkjunum.

Starfsmannadómstóllinn (e. Civil Service Tribunal) er sérstakur dómstóll sem fellir dóma í ágreiningsmálum milli stofnana ESB og starfsmanna þeirra.

Hvað gerir dómstóllinn?

Dómstóllinn fellir dóma í málum sem lögð eru fyrir hann. Fjórar algengustu tegundir málanna eru útlistaðar hér fyrir neðan.

1. RÁÐGEFANDI ÁLIT

Dómstólar hvers aðildarríkis eiga að sjá til þess að lögum ESB sé framfylgt í viðkomandi ríki. Þegar innlendur dómstóll er í vafa um hvernig túlka beri tiltekin lög ESB getur hann spurt Evrópudómstólinn álits og verður í sumum tilfellum að gera það.  Þeirri fyrirspurn er svarað með áliti (e. preliminary ruling) sem er bindandi. Þannig geta borgarar aðildarríkjanna fengið úrskurðað um áhrif löggjafar ESB fyrir eigin dómstólum.

2. KÆRUR VEGNA BROTA Á ESB LÖGUM

Framkvæmdastjórnin getur höfðað mál ef hún telur að aðildarríki uppfylli ekki skyldur sínar með tilliti til laga ESB. Í einstaka tilfellum geta aðildarríki einnig lagt fram slíka kæru. Í slíkum tilvikum rannsakar Evrópudómstóllinn allar aðstæður og kveður síðan upp úrskurð. Ef sekt er sönnuð verður aðildarríkið að hlýta úrskurðinum tafarlaust, annars getur Evrópudómstóllinn krafist sekta.

3. ÓGILDINGARKÆRUR

Ef eitt aðildarríkjanna, ráðherraráðið, framkvæmdastjórnin eða (með vissum skilyrðum) Evrópuþingið telur að tiltekin ESB lög séu ekki lengur í gildi geta þau farið fram á það við dómstólinn að hann ógildi viðkomandi lög. Einstaklingar geta einnig lagt fram slíkar ógildingarkærur (e. proceedings for annulment) ef þeir óska þess að dómstóllinn ógildi tiltekin lög sem varða þá beint.

4. VANRÆKSLUKÆRUR

Við ákveðnar aðstæður er Evrópuþinginu, ráðherraráðinu og framkvæmdastjórninni skylt, samkvæmt sáttmálum ESB, að úrskurða í vissum málum. Ef þau gera það ekki geta aðildarríkin, aðrar stofnanir ESB, og (með vissum skilyrðum) einstaklingar eða fyrirtæki lagt kæru fyrir dómstólinn til að fá viðkomandi vanrækslu staðfesta opinberlega.

Hvernig starfar Evrópudómstóllinn?


Dómstóllinn (e. Court of Justice) er skipaður 28 dómurum, einum frá hverju aðildarríki, svo réttarkerfi allra aðildarríkjanna á fulltrúa í réttinum. Dómstólnum til aðstoðar eru átta aðallögmenn (e. Advocates General) sem leggja fram rökstudd álit í þeim málum sem koma fyrir dómstólinn. Það skal gert opinberlega og á hlutlausan hátt. Hlutlægni dómara og aðallögmanna er óumdeild. Þeir þurfa að uppfylla skilyrði sem sett eru fyrir æðstu dómaraembætti í heimalöndum sínum. Þeir eru skipaðir af stjórnvöldum í aðildarríkjunum til sex ára. Dómararnir velja sér forseta til þriggja ára. Samsetning dómstólsins getur verið breytileg, allt frá fullskipuðum dómi; 13 dómurum (e. Grand Chamber), fimm eða þremur dómurum, allt eftir eðli og mikilvægi málsins sem um ræðir. Dómstóll skipaður fimm dómurum hlýðir á nær 60% allra mála og um 25% málanna fara fyrir þrjá dómara. 

Almenni dómstóllinn (e. General Court) er einnig skipaður 28 dómurum sem skipaðir eru af aðildarríkjunum til sex ára. Dómarar almenna dómstólsins velja sér einnig forseta til þriggja ára. Fimm eða þrír dómarar (og í sumum tilfellum aðeins einn dómari) hlýða á mál sem flutt eru fyrir réttinum. Um 80% allra mála eru flutt fyrir þremur dómurum. Ef mál eru mjög flókin eða mikilvæg getur rétturinn verið skipaður 13 eða 27 dómurum.

Mál eru fyrst send skráningarstofu dómstólsins þar sem skipaðir eru  dómari og aðallögmaður. Málsmeðferðin skiptist í tvo hluta, skriflega og munnlega. Á fyrra stiginu senda allir hlutaðeigandi aðilar inn skriflegar greinargerðir. Dómarinn undirbýr skýrslu þar sem dregnar eru saman allar greinargerðir og lagalegur bakgrunnur málsins kynntur. Ákvörðun er þvínæst tekin um hvort málið krefjist munnlegs málflutnings og hversu margir dómarar skipi dóminn. Þá er komið að seinna stiginu, hinum opinberu réttarhöldum, þar sem lögmenn aðilanna leggja mál sín fyrir dómara og aðallögmann og svara spurningum þeirra. Aðallögmaður málsins veitir síðan sitt álit og á því byggir dómarinn drög að úrskurði sem ræddur er meðal allra dómaranna. Ákvarðanir dómstólsins grundvallast á vilja meirihluta dómaranna og eru þær tilkynntar á opnum fundum. Hugsanlegur ágreiningur milli dómara er ekki gerður opinber þannig að dómstóllinn stendur ávallt einróma að endanlegri niðurstöðu. Dómarnir eru oftast birtir opinberlega á öllum opinberum tungumálum ESB sama dag og þeir eru kveðnir upp.

Ekki fá öll mál þessa  málsmeðferð. Ef málið er mjög brýnt er hægt að einfalda og hraða málaferlum og gera dómstólnum kleift að skera úr um málið á um þremur mánuðum.

Aðrar stofnanir ESB