This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

desember 10, 2014, 08:29

Yfirlýsing Federica Mogherini, æðsta talsmanns utanríkis- og öryggisstefnu ESB, fyrir hönd Evrópusambandsins á mannréttindadaginn 10. desember 2014

Í dag fögnum við mannréttindadeginum en nú eru 66 ár liðin frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Yfirskrift og þema mannréttindadagsins í ár er – mannréttindi 365 – sem endurspeglar þá von og markmið að við, hvert og eitt okkar, hvar sem er, njótum ávallt fullra og óskertra mannréttinda.


Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til að heiðra og verja þennan rétt. Fyrir tveimur árum samþykktum við stefnuramma og aðgerðaráætlun um mannréttindi og lýðræði og Evrópusambandið stofnaði embætti sérlegs fulltrúa ESB á sviði mannréttinda. Síðan þá höfum við, með fulltingi aðildarríkja Evrópusambandsins, komið að yfir 40 mannréttindamálum í ríkjum utan sambandsins og átt í samstarfi við svæðisbundnar og fjölþjóðlegar stofnanir og samtök, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar. 

Mannréttindafulltrúi Evrópusambandsins, Stavros Lambrindis, hefur átt frumkvæði að virkri og náinni samvinnu við marga lykilsamstarfsaðila og stuðningi við starfsemi frjálsra félagasamtaka um heim allan. Sendinefndir ESB hafa haft eftirlit með, tekið saman skýrslur og gripið til aðgerða í mannréttindamálum, stundum við afar erfiðar aðstæður. 

Við höfum náð góðum árangri en mikið verk er enn óunnið. Pyntingar eru þar á meðal. Alþjóðasamningur gegn pyntingum var samþykktur af Sameinuðu þjóðunum fyrir 30 árum síðan en pyntingar viðgangast eigi að síður enn víða um heim. Þetta þarfnast tafalausrar athygli okkar. 

Endurnýjun á aðgerðaáætlun okkar fyrir árið 2015 um mannréttindi og lýðræði mun gefa okkur tækifæri til að endurnýja skuldbindingar og takast á við nýjar áskoranir um algild og órjúfanleg mannréttindi.