This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

júlí 2, 2013, 15:48

Yfir 130 manns fögnuðu aðild Króatíu að ESB

Yfir 130 manns mættu í veislu Evrópustofu sem haldin var í Iðnó í gær í tilefni af inngöngu Króatíu í Evrópusambandið. Hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans lék ljúfa tóna í króatískum anda og KGB þeytti skífum meðan gestir gæddu sér á gómsætum smáréttum.


Bryndís Nielsen, framkvæmdastýra Evrópustofu, bauð gesti velkomna og Birna Þórarinsdóttir, sem starfað hefur sem framkvæmdastýra Evrópustofu en er sem stendur í barneignarleyfi, sagði nokkur orð í tilefni dagsins, m.a. á króatísku en hún hefur búið og starfað á vestanverðum Balkanskaga.

Aðild Króatíu að ESB hefur í för með sér aukinn stöðugleika og öryggi fyrir landið og opnar þess utan aðgang að stærsta markaði heims. Króatar munu geta ferðast, stundað nám og starfað innan ESB eins og aðrir íbúar aðildarríkja ESB. Aðild Króatíu hefur einnig ýmsa kosti í för með sér fyrir Evrópusambandið þar sem innri markaðurinn stækkar og um leið skapast ný tækifæri fyrir fyrirtæki og neytendur, menningarleg fjölbreytni verður meiri og aðildarríkin mun njóta góðs af þeim möguleikum sem mannauður Króatíu býður uppá.

Evrópustofa býður Króatíu velkomna í Evrópusambandið og þakkar öllum sem samfögnuðu aðild Króatíu í gær!