This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

janúar 21, 2012, 11:00

Upplýsingamiðstöð ESB tekur til starfa

Opið hús frá kl. 11-16 laugardaginn 21. janúar

 

Upplýsingamiðstöð ESB tekur til starfa

 
•    Opið hús frá kl. 11-16 laugardaginn 21. janúar

•    Ljósmyndasamkeppni Evrópustofu hefst – Ísland og Evrópa

•    Upplýsingavefurinn www.evropustofa.is opnaður

 

Evrópustofa – upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi hefur tekið til starfa að Suðurgötu 10 í Reykjavík. Af því tilefni verður opið hús á Suðurgötunni, laugardaginn 21. janúar, frá kl. 11-16 og eru allir velkomnir. Upplýsingamiðstöðin verður opin sex daga vikunnar en markmiðið með starfsemi hennar er að auka skilning og þekkingu á ESB og hvetja til virkrar umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands að sambandinu. 

 

„Opna húsið á laugardaginn byrjar með smá athöfn að viðstöddum Oddnýju G. Harðardóttur fjármálaráðherra og Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu. 

Boðið verður upp á léttar veitingar, „Evrópuköku“, belgískar vöfflur, frönsk horn, íslenskar kleinur, ásamt kaffi og kakó fyrir börnin og tónlist í flutningi Sigríðar Thorlacius og Guðmundar Óskars Guðmundssonar. Gestum gefst færi á að fræðast um Evrópusambandið og prófa þekkingu sína í Evrópumálum, leggja fram spurningar og tjá skoðanir sínar á „kassanum“ þar sem hægt verður að kveða sér hljóðs með örstutt erindi. Þá munu kynningarbæklingar liggja frammi.

 

Allir velkomnir til okkar

Markmið Evrópustofu er að stuðla að aukinni umræðu, þekkingu og skilningi á eðli og starfsemi Evrópusambandsins og verður hún opin kl. 10-18 á virkum dögum og kl. 10-14 á laugardögum.

„Það eru allir velkomnir til okkar, óháð afstöðu til ESB eða mögulegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu,“ segir Birna. „Við munum leitast við að svara spurningum sem varða Evrópusambandið og aðstoða fólk við að afla upplýsinga á eigin vegum, til dæmis um verkefni og sjóði sambandsins. Við höfum einnig sett upp vefinn www.evropustofa.is þar sem hægt er að leita upplýsinga og tengjast fjölda upplýsingavefja, bæði á vegum  ESB og annarra. Það verður tölvuaðgengi hjá okkur og gestum Evrópustofu stendur einnig til boða að fletta hér upp á gamla mátann í ýmis konar lesefni um ESB, því við ætlum að bjóða upp á aðgang að blaða- og bókakosti í upplýsingamiðstöðinni.“ 

 

Ljósmyndasamkeppni

Í tilefni af opnuninni efnir Evrópustofa til ljósmyndasamkeppni. Þemað er Ísland og Evrópa og eru þátttakendur hvattir til að fanga á mynd hvernig Evrópa og Evrópusambandið birtast í okkar daglega lífi og umhverfi. Þrjár myndir hljóta vegleg verðlaun og bestu myndirnar verða sýndar á ljósmyndasýningu að keppni lokinni, auk þess sem þær verða notaðar í kynningarefni Evrópustofu. Nánari upplýsingar eru á www.evropustofa.is og fésbókarsíðunni www.facebook.com/evropustofa.

Evrópusambandið fjármagnar starfsemi Evrópustofu en Athygli ehf. og þýska fyrirtækið Media Consulta annast reksturinn.

 

Nánari upplýsingar:

Bryndís Nielsen, upplýsingafulltrúi Evrópustofu, símar 527-5703/867 3752.