This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

mars 19, 2015, 10:53

Um 150 manns sóttu fund um EES-samning

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, í samstarfi við Evrópustofu, stóð fyrir opnum fundi um stöðu og horfur EES-samningsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 18. mars. Fundurinn var afar vel sóttur en um 150 manns sátu fundinn.


Sverrir Haukur Gunnlaugsson lögfræðingur, fyrrverandi ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, fyrrverandi sendiherra Íslands og fyrrum stjórnarmaður í Eftirlitsstofnun EFTA, hélt erindi um framkvæmd samningsins. Hann taldi að ekki væri nógu vel hlúð að honum. Skortur væri á pólitískum forgangi á málefnum tengdum EES-samningnum í ráðuneytum og á Alþingi. Nauðsynlegt væri að auka fjárveitingu til málaflokksins, fjölga starfsmönnum, bæta skipulag og síðast en ekki síst koma á góðum aga í vinnubrögðum.


Í erindi Sverris kom meðal annars fram að Íslandi hefði verið stefnt 22 sinnum fyrir Eftirlitsstofnun EFTA vegna reglugerða sem ekki hefðu verið innleiddar tímanlega. Í maí árið 2011 var innleiðingarhalli Íslands um 1% en í október árið 2013 var hann orðinn 3,2% og er það mesti halli meðal aðildarríkja samningsins. Hann sagði að grafið hafi verið undan sendiráði Íslands í Brussel sem gerði það að verkum að erfitt væri að gæta hagsmuna Íslands. Fjöldi sérfræðinga í sendiráðinu hefði farið úr 11 árið 2009 í 3 árið 2013 meðan um 40 störfuðu í sendiráði Noregs í Brussel. Þá nefndi Sverrir að mestur hluti þeirra reglugerða sem kæmi frá ESB fæli ekki í sér grunn að nýjum lagasetningum og þær væri því hægt að innleiða án sérstakrar efnislegrar umfjöllunar. Það væru ekki nema um 10% reglugerða sem þyrftu að fá nákvæma úttekt og yfirferð. Of seint væri að koma með beiðnir um sérlausnir eftir að gerð væri orðin hluti af reglugerð ESB og því væri þátttaka í mótunarferlinu lykilatriði. Í þessu samhengi kom Sverrir með þá hugmynd að koma mætti á rafrænu upplýsingakerfi þar sem hægt væri að fylgja málum betur eftir.


Að erindinu loknu fóru fram pallborðsumræður með fulltrúum stjórnmálaflokka þar sem þeim gafst færi á að bregðast við erindi Sverris og fjalla um eigin áherslur og hugmyndir varðandi EES-samninginn. Þar sátu Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.


Meðal fundagesta sem lögðu orð í belg var Skúli Magnússon, fyrrum ritari EFTA-dómstólsins, en hann kallaði á frekari umræðu um stöður og horfur samningsins sjálfs. Hann beindi sjónum sérstaklega að þremur þáttum: Noregi og viðhorfi þar í landi gagnvart samningnum, stofnunum EES-samningsins sem stæðu ekki nógu sterkum fæti og skorti á áhuga, skilningi og þekkingu ESB á samningnum, sem hefði óneitanlega áhrif á framtíð samningsins.


Fundarstjórn var í höndum Ólafs Þ. Harðarson, prófessors í stjórnmálafræði og stjórnarformanns Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.


Upptökur af fundinum verður hægt að nálgast innan tíðar á vef Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, www.ams.hi.is og vef Evrópustofu, www.evropustofa.is