This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

febrúar 21, 2012, 14:44

Ljósmyndasamkeppni Evrópustofu: Skilafrestur framlengdur til 6. mars

Ljósmyndasamkeppni Evrópustofu stendur nú yfir en þema keppninnar er Ísland og Evrópa. Skilafrestur hefur nú verið framlengdur til 6. mars

Óskað er eftir myndum sem sýna hvernig Evrópa og Evrópusambandið birtast okkur í daglegu lífi og umhverfi.

 

„Við vildum hafa þemað nokkuð opið og gefa fólki færi á að beita ímyndunaraflinu. Er Ísland og Evrópa ef til vill íslenskur námsmaður erlendis, frönsk kvikmyndahátið í Reykjavík eða einfaldlega danskar pylsur í matvöruverslun?” segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu. Hún segir ljósmyndakeppnina hafa fallið svolítið í skuggann af opnun Evrópustofu sjálfrar og því hafi verið ákveðið að framlengja skilafrestinn.

„Ísland er hluti af Evrópu og við viljum hvetja fólk til að íhuga hvernig Evrópa birtist okkur í hvunndeginum, hvað sé íslenskt og hvað evrópskt og hvernig þessi tvö hugtök spila saman.“

 

Ferð fyrir tvo til Evrópu í fyrstu verðlaun

Verðlaun eru í boði fyrir þrjár efstu myndirnar en auk þess verða bestu myndirnar hluti af farandsýningu og notaðar í kynningarefni fyrir Evrópustofu. 

 

Verðlaun:

1.    sæti: Flugferð fyrir tvo til Evrópuborgar að eigin vali.*

2.    sæti: Glæsileg Canon IXUS 230 HS myndavél ásamt hulstri.

3.    sæti: Hentugur Camlink þrífótur og bakpoki fyrir ljósmyndabúnað frá KATA.

 

Með þátttöku í keppninni veitir ljósmyndari Evrópustofu rétt til að:


•    Nota myndir sem berast í keppnina endurgjaldslaust í kynningarefni í tvö ár eftir að keppni lýkur.
•    Prenta myndirnar og hafa til sýnis endurgjaldslaust í tvö ár eftir að keppni lýkur.


Evrópustofa mun semja um allar aðrar birtingar beint við viðkomandi ljósmyndara. Eftir að úrslit hafa verið tilkynnt munu ljósmyndarar hafa fullan rétt til að sýna og eða selja sínar myndir
  

 

Skil á mynd:

·      Myndinni skal skila á jpg-formi á netfangið evropustofa@evropustofa.is, en hún má ekki vera minni en 500 KB og ekki stærri en 2 MB.

·      Titill tölvupósts skal vera Ljósmyndasamkeppni en í meginmáli þarf að fylgja nafn höfundar og upplýsingar um heimilisfang, netfang og símanúmer.

·      Mynd skal skilað inn fyrir kl. 23:59 þann 6. mars. Myndir sem berast eftir þann tíma eru ekki gjaldgengar í keppninni.

 

Tilkynnt verður um úrslit tveimur vikum síðar, þann 20. mars, 2012. 

 

 

 

 

*Gjafabréf fyrir tvo til Evrópuborgar með Icelandair.