This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

júní 29, 2015, 10:19

Hver er stefna ESB í loftslagsmálum?

ESB er sterkur talsmaður alþjóðlegra aðgerða og samstarfs á sviði umhverfismála. Sambandið er aðili að fjölmörgum alþjóðlegum samningum um umhverfismál þar sem það leggur ríka áherslu á loftslagsmál.


Leiðtogar aðildarríkja ESB hafa samþykkt markmið fyrir árið 2020, svokölluð 20-20-20 markmiðin. Þau fela í sér að:

  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB svo losunin verði a.m.k. 20% minni en árið 1990.
  • auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa upp í 20% af heildar orkunotkun ESB.
  • draga úr – með aukinni orkunýtni – notkun frumorku um 20% miðað við spár.
  • ESB hefur einnig boðist til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda – um 30% ef önnur stór hagkerfi skuldbinda sig til þess að draga álíka mikið úr sinni losun eða gera viðlíka ráðstafanir. Samningaviðræður þar að lútandi standa nú yfir innan ramma Sameinuðu þjóðanna.

Í Vegvísi að samkeppnishæfu, kolefnislágu hagkerfi 2050 hefur framkvæmdastjórnin einnig leitað nýrra leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80-95% fyrir miðja þessa öld.

Stefna og framkvæmd
Árið 2002 samþykkti ESB Áætlun um samþættingu umhverfis- og utanríkisstefnu sambandsins. Markmið hennar var að skilgreina hvernig best væri að framfylgja alþjóðlegri umhverfisstefnu ESB í daglegum samskiptum við önnur ríki utan þess. Einn helsti árangur aukinnar vinnu á því sviði er tengslanet græns ríkiserindreksturs (e. Green Diplomacy Network).

Auk stefnumótandi skoðanaskipta og alþjóðlegra samningaviðræðna styrkir ESB verkefni sem styðja við alþjóðlega áætlun ESB um loftslagsbreytingar, svo sem rannsóknir á kolefni (e. low carbon) og aðlögunartækni (e. adaptation technologies).