This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

febrúar 1, 2012, 12:23

Gestagangur í Evrópustofu

Nokkur gestagangur hefur verið í Evrópustofu frá opnun 21. janúar sl.

Fyrstu gestirnir voru 10. bekkingar úr Landakotsskóla sem komu snemma í morgunsárið á mánudeginum eftir opnun. Nemendurnir, sem voru í vettvangsferð í dönskutíma, ákváðu að nýta tækifærið og sækja sér upplýsingar um ESB enda þátttakendur í verkefni á vegum Menntaáætlunar ESB. Þá hafa lagt leið sína til okkar áhugamenn um Evrópusambandið, fylgjendur jafnt sem andstæðingar Evrópusamruna sem og óákveðnir. Gestum er jafnan boðið að setjast niður yfir kaffibolla, til að spjalla eða til að kíkja í safnkost Evrópustofu. 

Frá því nokkru fyrir opnun hefur starfsfólk Evrópustofu verið að taka á móti og flokka kynningarefni, bæklingum, bókum og myndupptökum um Evrópusambandið. Stefnt er að því að flokka efnið niður eftir málaflokkum og setja upp heildstæðan lista yfir það efni sem miðstöðin hefur upp á að bjóða. Listinn verður síðan aðgengilegur á vefsíðunni okkar. Þannig geta þeir sem eiga þess ekki kost að koma til okkar á Suðurgötuna hringt til okkar og fengið sent heim að dyrum sér að kostnaðarlausu það efni sem þeir hafa áhuga á að kynna sér betur.