This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

júní 5, 2015, 13:18

Fundur fólksins: Námskeið um ESB

Evrópustofa stendur fyrir hnitmiðuðu og aðgengilegu námskeiði um ESB á Fundi fólksins, líflegri þriggja daga hátíð um samfélagsmál sem fram fer í í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess dagana 11. til 13. júní nk. Námskeiðið fer fram föstudaginn 12. júní milli kl. 14:00 og 17:00. Allir velkomnir.


Námskeiðinu verður skipt upp í tvo hluta þar sem annars vegar verður fjallað um sögu og uppbyggingu sambandsins og hins vegar um stefnu og hlutverk þess. Fræðslan er í höndum Evrópufræðinganna Eiríks Bergmanns, prófessors, og Magnúsar Árna Magnússonar, dósents, en þeir bjóða upp á skemmtilega og fræðandi kynningu á ESB og helstu þáttum Evrópusamvinnunnar. Eins og nafn námskeiðsins gefur til kynna - Allt sem þú vildir vita um ESB en þorðir ekki að spyrja - verður gott svigrúm fyrir spurningar og umræður.


Fundur Fólksins er fyrsta hátíð sinnar tegundar á Ísland en sambærilegar hátíðir eru orðnar ómissandi hluti af hverju sumri á öllum hinum Norðurlöndunum. Slegið verður upp tjaldbúðum og skemmtilegir kofar setja svip á hátíðarsvæðið. Þar munu hin ýmsu félagasamtök vera með starfsemi alla hátíðina. Í bland við líflegar umræður verða tónlistaratriði og hægt verður að kaupa bæði mat og drykk á svæðinu.

Að hátíðinni standa Norræna húsið, Norðurlönd í fókus, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Almannaheill, Reykjavíkurborg og samstarfsráðherra Norðurlanda.

Nánar um námskeiðið
Frekari upplýsingar um hátíðina