This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

september 19, 2014, 13:14

„Forritum evrópska framtíð“

Evrópska forritunarvikan, EU CodeWeek, fer fram dagana 11. til 17. október næstkomandi.


Evrópska forritunarvikan er átak á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem hefur það að markmiði að vekja áhuga og auka skilning fólks á forritun. Þessa viku sækir fólk um alla Evrópu viðburði og námskeið í forritun en mörgum kemur á óvart hve skapandi, skemmtilegt og gríðarlega mikilvægt það er að kunna að forrita.

Skólar, stofnanir, stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar eru hvattir til að skipuleggja viðburði í tengslum við vikuna og taka þannig þátt í átakinu.

Flest störf í dag krefjast talsverðar tölvu- og tæknikunnáttu og mikil eftirspurn er eftir fólki með kunnáttu í forritun. Forritun er á bak við fjölmargt í lífi okkar hvort sem um er að ræða smáforrit í síma, þvottavél, GPS leiðsögutæki eða félagsleg samskipti á netinu. Hins vegar hefur ásókn í menntun í forritun ekki verið í takt við eftirspurn, jafnvel er hægt að tala um manneklu á þessu sviði. Því skiptir máli að byrja strax í grunnskóla að kenna börnum skapandi nálgun forritunar. Ekki er síður mikilvægt að þjálfa kennara í að kenna forritun á skemmtilegan og frjóan hátt. Þá gefur það foreldrum nýja sýn á tölvuleikjanotkun barna sinna og nýja leið til að nálgast börnin að læra grunnaðferðir forritunar.


Öllum er boðið að taka þátt í átakinu, til dæmis með því að skipuleggja viðburði, eða sækja námskeið og hrinda þannig hugmyndum í framkvæmd með forritun.

Nánari upplýsingar er að finna á vefslóðinni http://codeweek.eu/.

Fyrirtækið Skema er sérstakur tengiliður Evrópsku forritunarvikunnar hér á Íslandi og veitir upplýsingar og aðstoðar þá sem vilja taka virkan þátt í Evrópsku forritunarvikunni. Sjá http://www.skema.is/um-skema/frettir/nr/205

Hafa má samband við Árdísi Ármannsdóttur framkvæmdastjóra í síma 618-1001 eða hjá ardis@skema.is