This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

desember 10, 2014, 11:48

Evrópujól í tónum!

Jólatónleikar í Evrópustofu, fimmtudaginn 11. desember kl. 17.00. Allir velkomnir, ókeypis aðgangur. Evrópskar og jólalegar veitingar í boði.


Jólahefðir í Evrópu eru margvíslegar en sameiginlegt er öllum löndum álfunnar að tónlist skipar veigamikinn sess í jólahaldi.

Fimmtudaginn 11. desember kl. 17.00 ætla fjórir evrópskir tónlistarmenn, sem allir eru búsettir hér á landi, að flytja jólalög frá sínum heimalöndum og segja gestum stuttlega frá tilurð laganna og jólasiðum að heiman. 

Flytjendur sem koma frá fjórum Evrópulöndum er allt þekkt tónlistarfólk, rómað fyrir hæfileika og vandaðan flutning. 


Fulltrúi Frakklands er Martial Nardeau sem galdrar fram franska jólatóna úr þverflautu, Peter Tompkins mun spila jólalög frá Bretlandi á óbó, Antonia Hevesi píanóleikari spilar jólatóna frá Ungverjalandi og frá Ítalíu kemur Annamaria Lopa gítarleikari. 

Tónleikarnir verða haldnir í Evrópustofu, Suðurgötu 10, fimmtudaginn 11. desember  kl. 17.00 og eru aðgangur öllum opinn og að kostnaðarlausu.

Einng er hægt er að fræðast nánar um jólahald og jólasiði af ýmsu tagi í Evrópu, telja niður til jóla og taka þátt í skemmtilegum jólaleik inn á vefslóðinni www.evropujol.is. Þátttakendur í jóladagatali Evrópustofu, Evrópujólum, eiga möguleika á því að fá evrópskan jólaglaðning sem sækja má að Suðurgötu 10.

Um listamennina

Martial Nardeau, flauta.
Martial hóf að læra á flautu níu ára gamall í Tónlistarskólanum í Boulogne sur Mer í Frakklandi. Á árunum 1979 til 1982 var hann fastráðinn við Lamoureux-sinfóníuhljómsveitina í París ásamt því að vera flautukennari við Ríkistónlistarskólana í Limoges og Amiens. Árið 1982 settist Martial að á Íslandi. Hann hefur æ síðan starfað í Kammersveit Reykjavíkur og Hljómsveit Íslensku Óperunnar og leikið með fjölmörgum tónlistarhópum. Hann er fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfar sem kennari við Listaháskóla Íslands

Peter Tompkins, óbó.
Peter hefur leikið á óbó og píanó frá unga aldri. Hann lauk einleikaraprófi frá Royal College of Music og tónlistarkennaraprófi frá Royal Academy of Music í Lundúnum. Peter fæddist á Englandi en hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1988. Peter er fastráðinn óbóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, stofnfélagi íslenska saxófónkvartettsins, meðlimur í Bachsveitinni í Skálholti og kennir í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Peter hefur komið fram á tónleikum víða utan Íslands, m.a. á Norðurlöndunum, víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. 

Antonía Hevesi, píanó.
Antonía er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F. Liszt -tónlistarakademíunni í Búdapest með M.A.-gráðu í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Einnig stundaði hún orgelnám við Hochschule für Musik un darstellende Kunst in Graz í Austurríki. Antonía hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar um Evrópu og Kanada. Á undanförnum árum hefur hún tekið þátt í uppfærslum á hátt í þrjátíu óperum, með Norðurópi, Óp-hópnum og hjá Íslenski óperunni.

Annamaria Lopa, gítarleikari frá Ítalíu. 
Annamaria Lopa er ítalskur gítarmeistari og kennari. Hún lærði í Conservatory of Music „Lorenzo Perosi“ í Campobasso á Ítalíu, og í „Accademia Chigiana“ í Siena. Árið 1998 lauk hún meistarprófi með hæstu einkunn. Annamaria tók þátt í, og vann margar tónlistarkeppnir, á árunum 1994 til 2000. Síðar lauk hún BA gráðu í jass. Á árunum 2003 – 2008 lauk hún BA og MA prófi í tónlistar- og gítarkennslu. Á sama tíma kenndi hún á gítar í tónlistarskólanum í Molise, á Ítalíu og spilaði með ýmsum hljómsveitum. Annamaria flutti til Íslands í júlí 2009,  kennir tónmennt í Breiðagerðisskóla og á gítar og er í samvinnu við tónskóla í Reykjavík með verkefni fyrir grunnskóla.