This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

október 27, 2014, 15:08

Efst á heimskautsbaugi – alþjóðleg ráðstefna 28. og 29. október í Reykjavík

Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands stendur fyrir stórri alþjóðlegri ráðstefnu um málefni norðurslóða dagana 28. og 29. október á Center Hotel Plaza í Reykjavík.


Ráðstefnan heitir Efst á heimskautsbaugi: Sjálfbærni, samstarf og stjórnarhættir eða The Trans-Arctic Agenda: Challenges of Sustainability, Cooperation and Governance. Hún er nú haldin í annað sinn en fór fyrst fram við stofnun rannsóknaseturs um málefni norðurslóða í mars 2013. Kastljósinu verður sérstaklega beint að stjórnarháttum á norðurslóðum síðustu misserin.


Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, opna ráðstefnuna.

Mörg brýn málefni verða í forgrunni og þá sértaklega þær breytingar sem eiga sér óðfluga stað í kjölfar loftslagsbreytinga og aukins alþjóðlegs áhuga á norðurslóðum. Í þessum breytingum felast nýir möguleikar á nýtingu auðlinda, landsvæðis og í ferðaþjónustu en þær ógna einnig öryggi og lífvænlegu umhverfi allra íbúa í norðri. Skynsamleg, sjálfbær og samhent viðbrögð við þessum áskorunum skipta sköpum ef njóta skal ávinnings af breytingunum og lágmarka mögulegan skaða.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin. Áhugasamir geta skráð sig með því að senda tölvupóst á caps@hi.is með upplýsingum um nafn og starfsheiti.


Frekari upplýsingar er að finna á vef Rannsóknarseturs um norðurslóðir.