This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Fréttir

apríl 7, 2015, 13:31

Á fimmta tug sóttu fund um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir opnum fundi um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri í Evrópu, réttindi sjúklinga og áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi, þriðjudaginn 31. mars í samstarfi við Evrópustofu.


Fundurinn var vel sóttur en á fimmta tug sátu fundinn.

John Rowan, yfirmaður teymis hjá Evrópusambandinu sem vinnur að innleiðingu tilskipunarinnar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, hélt erindi um nýja tilskipun Evrópusambandsins um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri (e. Cross-border healthcare) og Þórunn Oddný Steinsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu heilbrigðisþjónustu í velferðarráðuneytinu, flutti erindi um innleiðingu tilskipunarinnar á Íslandi, réttindi sjúklinga og áhrif hennar á íslenska heilbrigðiskerfið.

Í erindi Rowan kom meðal annars fram að hugmyndin um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri væri ekki ný af nálinni, þrátt fyrir að um sé að ræða málefnasvið sem sé nánast alfarið á könnu aðildarríkjanna en ekki sambandsins sjálfs. Frá því 1970 hafa verið til staðar ákvæði um almannatryggingar í regluverki ESB og er evrópska sjúkratryggingaskírteinið gott dæmi um það. Hin nýja tilskipun ESB fæli hins vegar í sér aukna og dýpri samvinnu á þessu sviði. Samvinnan grundvallaðist á hinum sameiginlega markaði og því væru íbúar innan evrópska efnahagssvæðisins ekki lengur bundnir við opinbera heilbrigðisþjónustu heldur gætu sótt sér þjónustu einka- jafnt sem opinberra aðila, hvar sem er innan sambandsins. Hins vegar var það tekið fram að að rétturinn grundvallast á réttindum viðkomandi innan síns heimalands. Um útvíkkun á fyrri réttidnum er því að ræða en tilskipunin nær ekki til réttar einstaklinga til þess að sækja sér þjónustu út fyrir landsteinana sem ekki er í boði heimafyrir. Í tilfelli einstaklinga sem sjá fram á langa bið eftir aðgerð býður nýja tilskipunin því upp á fleiri valkosti og um leið styttri bið eftir þjónustu. Að mati Rowan er helsta áskorun nýju tilskipunarinnar að upplýsa almenning um eigin réttindi en hann taldi það forsendu þess að tilskipunin kæmi að gagni. Hér má nálgast glærur af fyrirlestri Rowan. 

Í erindi Þórunnar Oddnýjar kom fram að á íslandi væru í gildi lagaákvæði sem heimiluðu íslenskum sjúklingum að leita sér þjónustu út fyrir landsteinana ef sambærileg þjónusta væri ekki í boði hérlendis. Þau ákvæði einskorðuðust þó ekki við ESB heldur næðu til ríkja utan Evrópu. Tilskipun Evrópusambandsins væri því annars eðils þar sem hún fæli fyrst og fremst í sér aukið val fyrir skjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu sem þeir væru þegar sjúkratryggðir fyrir. Tilskipunin hefur ekki verið innleidd hér á landi en heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp til Alþingis sem gæti orðið að lögum frá og með 1. janúar 2016. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ef um flókna þjónustu er að ræða, þjónustu sem krefst innlagnar yfir nótt eða ef vafi leikur á öryggi sjúklings eða almennings þurfi að sækja um leyfi til sjúkratrygginga fyrir að sækja þjónustuna erlendis. Í þeim tilvikum þurfi því leyfi sjúkratrygginga til þess að sjúklingur fái endurgreitt fyrir þá þjónustu sem hann sækir erlendis en upphæðin miðast við kostnað við sambærilega þjónustu hérlendis. Hér má nálgast glærur frá fyrirlestri Þórunnar.  

Fundarstjórn var í höndum Gunnars Alexanders Ólafssonar, heilsuhagfræðings.

Hér má sjá fleiri myndir frá fundinum en upptöku af honum er að vænta á síðu Evrópustofu, www.evropustofa.is, og síðu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, www.ams.hi.is.