This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

1. Hvernig starfar ESB?

Sáttmálar ESB

Evrópusambandið byggir á lögum og rétti. Það þýðir að hver einasta aðgerð ESB er grundvölluð á sáttmálum sem öll aðildarríki ESB hafa samþykkt sjálfviljug og á lýðræðislegan hátt. Samið er um sáttmálana og þeir samþykktir af öllum aðildarríkjunum áður en þeir eru fullgiltir af þjóðþingum ríkjanna eða kosið er um þá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í sáttmálunum eru sett fram markmið Evrópusambandsins, reglur um starfsemi stofnana þess, hvernig ákvarðanir eru teknar og skýrt hvert sambandið er á milli ESB og aðildarríkja þess. Sáttmálarnir eru aðlagaðir við inngöngu hvers nýs aðildarríkis og endrum og sinnum hefur þeim einnig verið breytt til að bæta stofnanir Evrópusambandsins og fjölga starfssviðum sambandsins.

Nýjustu sáttmálabreytingarnar – Lissabonsáttmálinn - voru undirritaðar í Lissabon 13. desember 2007 og tóku gildi 1. desember 2009. Fyrri sáttmálum hefur verið steypt saman í eina heildarútgáfu, sem samanstendur af Sáttmálanum um Evrópusambandið og Sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins.

Viltu vita meira um sögu sáttmálanna?
Hver tekur ákvarðanirnar?


Ýmsar stofnanir taka þátt í ákvarðanatökuferli ESB og skal þar sérstaklega nefna:
•    Evrópuþingið þar sem sitja fulltrúar sem eru kjörnir beint af borgurum Evrópusambandsins.
•    Leiðtogaráðið þar sem sitja forsetar og/eða forsætisráðherrar aðildarríkjanna.
•    Ráðherraráðið þar sem sitja fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkjanna.
•    Framkvæmdastjórnin sem er í forsvari fyrir hagsmuni Evrópusambandsins í heild.

Leiðtogaráðið leggur línurnar fyrir pólitíska stefnu sambandsins og forgangsmál ESB en gegnir ekki beinu hlutverki við lagasetningu. Almennt leggur framkvæmdastjórnin fram frumvarp að nýrri löggjöf sem er samþykkt af Evrópuþinginu og ráðherraráðinu. Lögunum er framfylgt af aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni.

Hvernig lög eru sett?


Til eru nokkrar ólíkar tegundir löggjafar:

Reglugerð (e. regulation) er löggjöf sem hefur bein og bindandi áhrif í öllum aðildarríkjunum. Reglugerðir þarf ekki að innleiða sérstaklega í landsrétt þó stundum þurfi að breyta innlendri löggjöf til að koma í veg fyrir ósamræmi.

Tilskipanir (e. directive) eru bindandi fyrir aðildarríkin, eða nokkur þeirra, til að ná fram ákveðnu markmiði. Tilskipanir þarf yfirleitt að innleiða í landsrétt til að þær öðlist gildi. Tilskipanirnar útlista ákveðin markmið sem á að ná en það er í höndum ríkjanna sjálfra að ákveða með hvaða hætti það er gert.

Ákvörðun (e. decision) gildir í einstökum málum og er bindandi fyrir þá sem hún nær til, hvort sem það er aðildarríki, hópar fólks eða einstaklingar. Ákvarðanir eru til dæmis notaðar til að úrskurða um fyrirhugaðan samruna milli fyrirtækja.

Tilmæli (e. recommendation) og álit (e. opinion) eru ekki bindandi.

Hvernig eru lögin sett?


Löggjöf ESB byggir ávallt á skýrum ákvæðum sáttmála ESB, sem er lagagrundvöllur löggjafarinnar og skilgreinir hvaða ferli skuli fylgja við setningu laganna. Sáttmálinn útskýrir ákvarðanatökuferlið, að meðtöldum lagafrumvörpum  framkvæmdastjórnarinnar, meðferð þeirra á Evrópuþingi og í ráðherraráði, og álitsgjöf eftirlitsstofnana. Þar er einnig útskýrt hvenær samhljóða samþykkis er krafist og hvenær fullnægjandi er að hafa aukinn meirihluta í ráðherraráðinu til að löggjöfin fáist samþykkt.

Yfirgnæfandi meirihluti laga ESB er settur samkvæmt almennri lagasetningarmeðferð (e. ordinary legislative procedure) þar sem Evrópuþingið og ráðherraráðið fara sameiginlega með löggjafarvaldið.

Hér er hægt að lesa meira um almennu lagasetningarmeðferðina.

------------------------------------------------------------------

Þátttaka borgaranna

Í krafti hins nýja Evrópska borgarafrumkvæðis (e. European Citizens' Initiative) getur ein milljón borgara frá a.m.k. fjórðungi aðildarríkja ESB beðið framkvæmdastjórnina um að leggja fram frumvarp til laga um ákveðið málefni. Umfjöllun um frumkvæðistillögur fara fram í Evrópuþinginu. Borgarafrumkvæði getur því haft áhrif á starfsemi stofnana ESB og opinbera umræðu.
-------------------------------------------------------------------


Eftirlit innan aðildarríkjanna

Þjóðþing aðildarríkjanna fá tillögur að nýjum lögum á sama tíma og Evrópuþingið og ráðherraráðið. Þingin geta veitt álit sitt til að tryggja að ákvarðanir séu teknar á því stjórnstigi sem best hæfir. Aðgerðir ESB eru háðar hinni svokölluðu dreifræðisreglu sem þýðir að einungis er gripið til aðgerða á vettvangi Evrópusambandsins þegar það er talið skilvirkara en á vettvangi aðildarríkjanna. Þetta á ekki við í þeim málum þar sem ESB fer með óskiptar valdheimildir. Þjóðþingin hafa því eftirlit með því að nálægðarreglunni sé rétt beitt í ákvarðanatöku ESB.

Hvaða ákvarðanir eru teknar?

Í sáttmálum ESB eru skilgreind þau málasvið sem ESB getur tekið ákvarðanir um. Á vissum sviðum fer ESB með óskiptar valdheimildir (e. exclusive competence) og þá eru ákvarðanir teknar á vettvangi ESB af aðildarríkjunum, á fundi ráðherraráðsins og í Evrópuþinginu. Þessi málasvið eru tollamál, samkeppnisreglur, peningamálastefna fyrir evrusvæðið, verndun fiskimiða og viðskipti.

Á öðrum sviðum deilir Evrópusambandið valdheimildum með aðildarríkjunum. Það þýðir að löggjöf sem sett er á vettvangi ESB hefur forgang en ef engin ESB lög eru sett þá geta aðildarríkin sett lög hvert um sig. Sameiginlegar valdheimildir (e. shared competence) eru á mörgum málasviðum, svo sem um innri markaðinn, landbúnað, umhverfismál, neytendavernd og samgöngumál.

Aðildarríkin ráða sér sjálf á öllum öðrum málasviðum. Af þessu leiðir að ef ekki er fjallað um ákveðinn málaflokk í sáttmálum ESB þá getur framkvæmdastjórnin ekki gert tillögu á því sviði. Engu að síður getur Evrópusambandið veitt aðildarríkjunum aðstoð í nokkrum málaflokkum, svo sem geimvísindum, menntunar-, menningar- og ferðaþjónustu. Á enn öðrum sviðum getur ESB rekið eigin verkefni samhliða aðildarríkjunum, til að mynda með þróunaraðstoð og stuðningi við vísindarannsóknir.

Samhæfð stefna í efnahagsmálum

Öll ríki Evrópusambandsins eru aðilar að efnahags- og myntbandalaginu. Ríkin samhæfa því stefnur sínar í efnahagsmálum og taka ákvarðanir um efnahagsmál á þeim grundvelli að þær snerti alla sameiginlega. Innan efnahags- og myntbandalagsins er engin ein stofnun ábyrg fyrir sameiginlegri stefnu í efnahagsmálum. Ábyrgð á efnahagsmálum er deilt milli aðildarríkjanna og stofnana ESB.

Peningamálastefna - um stöðugt verðlag og vexti - lýtur sjálfstæðri stjórn Seðlabanka Evrópu á evrusvæðinu, þ.e. í þeim 18 ríkjum sem nota evruna sem gjaldmiðil.

Ríkisfjármál - ákvarðanir um skatta, útgjöld og lán - er á ábyrgð ríkisstjórna aðildarríkjanna 28. Hið sama gildir um vinnumarkaðs- og velferðarmál. Ákvarðanir eins evruríkis um ríkisfjármál geta engu að síður haft áhrif á evrusvæðinu öllu og því verða slíkar ákvarðanir að vera í samræmi við reglur sem settar eru af ESB. Samhæfing og agi í ríkisfjármálum og hagstjórn eru þar af leiðandi nauðsynleg fyrir skilvirkni efnahags- og myntbandalagsins og til að tryggja stöðugleika og vöxt. Fjármálakreppan sem hófst árið 2008 undirstrikaði sérstaklega þörfina á öflugri stjórn efnahagsmála innan ESB og evrusvæðisins, meðal annars með samhæfðari stefnumótun og öflugra eftirliti.

Ráðherraráðið fylgist með ríkisfjármálum og efnahagsstefnum aðildarríkjanna og getur komið með tilmæli til einstakra ESB-ríkja á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni. Þar er hægt að leggja til aðlögunarúrræði og viðurlög gagnvart evruríkjum sem grípa ekki til úrbóta til að draga úr of háum fjárlagahalla og skuldasöfnun.

Hagstjórn á evrusvæðinu og stórtækar umbætur í efnahagsmálum eru jafnframt ræddar á leiðtogafundum evruríkjanna.

ESB og alþjóðasamskipti

Samskipti við ríki utan ESB eru á ábyrgð æðsta talsmanns stefnu sambandsins í  utanríkis- og öryggismálum og skipaður af leiðtogaráðinu. Hann er jafnframt varaforseti framkvæmdastjórnarinnar. Forseti leiðtogaráðsins er fulltrúi ESB á fundum þjóðarleiðtoga.

Utanríkisþjónusta ESB (e. European External  Action Service) sinnir hlutverki utanríkisráðuneytis hjá Evrópusambandinu  undir stjórn æðsta talsmanns stefnu sambandsins í  utanríkis- og öryggismálum. Starfsfólk utanríkisþjónustunnar eru sérfræðingar frá ráðherraráðinu, aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni.

Ráðherraráðið mótar og tekur ákvarðanir á sviði utanríkis- og öryggismála samkvæmt stefnumótun leiðtogaráðsins. Framkvæmdastjórnin annast aftur á móti samskipti við ríki utan ESB í málum sem varða viðskipti, þróunarmál og mannúðaraðstoð. Framkvæmdastjórnin er einnig í forsvari hjá Evrópusambandinu í öllum málaflokkum sem falla undir valdsvið ESB utan við utanríkis- og öryggismál.

Evrópuþingið: rödd fólksins