This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

6. Þjóðþingin: Nálægðarreglan í framkvæmd

Hlutverk:
Þátttaka í verkefnum Evrópusambandsins með öðrum stofnunum ESB
Meðlimir:Þingmenn á þjóðþingum aðildarríkjanna
Aðsetur:    Öll aðildarríkinStofnanir ESB hvetja þjóðþing aðildarríkjanna til að taka sífellt meiri þátt í verkefnum Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin hefur sent þjóðþingum öll frumvörp til nýrra laga frá árinu 2006 og hefur svarað ábendingum þinganna. Réttindi og skyldur þjóðþinga ESB eru settar skýrt fram í Lissabonsáttmálanum frá 2009. Þjóðþingin eru nú í betri stöðu til að koma á framfæri skoðunum sínum um lagafrumvörp og önnur mál sem skipta þau máli.

Helstu nýmælin felast í valdinu til að framfylgja nálægðarreglunni (e. subsidiarity principle), sem hefur áhrif á verkefni ESB. Samkvæmt þessari reglu grípur ESB einungis til aðgerða þegar sýnt þykir að framkvæmdin verði skilvirkari á vettvangi ESB en innan aðildarríkjanna. Þetta er reyndin í þeim málaflokkum þar sem ESB hefur óskiptar valdheimildir  samkvæmt sáttmálunum en að öðru leyti er um matsatriði að ræða við hverja nýja lagasetningu. Þjóðþingin hafa eftirlit með réttri beitingu nálægðarreglunnar í ákvarðanatöku Evrópusambandsins.

Til að auðvelda þeim eftirlitshlutverkið sendir framkvæmdastjórnin þjóðþingunum ný lagafrumvörp til umsagnar á sama tíma og þau eru send til ráðherraráðsins og Evrópuþingsins.  

Sérhvert þjóðþing hefur rétt til að senda rökstutt álit (e. reasoned opinion) ef það telur að með tillögunni sé nálægðarreglunni ekki fylgt. Það fer eftir fjölda álita hvort framkvæmdastjórnin þarf að endurskoða tillöguna og ákveða hvort á að halda henni óbreyttri, grípa til breytinga eða draga hana alfarið til baka. Þetta ferli er kallað gula og appelsínugula spjaldið. Ef meirihluti þjóðþinga sendir rökstutt álit þegar farið er eftir almennu lagasetningaraðferðinni og framkvæmdastjórnin ákveður að halda frumvarpinu til streitu, þarf hún að útskýra ástæður sínar fyrir því.  Evrópuþingið og ráðherraráðið ákveða því næst hvort halda eigi lagasetningarferlinu áfram.

Þjóðþingin taka einnig beinan þátt í framkvæmd löggjafar ESB. Tilskipunum ESB er beint til stjórnvalda aðildarríkjanna sem þurfa að innleiða þau í landslög. Í tilskipunum eru sett fram ákveðin markmið sem aðildarríkin þurfa að uppfylla innan ákveðinna tímamarka. Stjórnvöld aðildarríkjanna þurfa að sjá til þess að aðlaga landslög að þessum markmiðum en þeim er í sjálfsvald sett hvernig það er gert. Tilskipunum er beitt til að tryggja samræmingu ólíkrar lagasetningar í aðildarríkjunum og er það t.d. algengt í málum sem tengjast innri markaðinum (t.d. vegna staðla um vöruöryggi).

Evrópudómstóllinn: tryggir að farið sé að lögum