This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

5. Framkvæmdastjórnin: í þágu sameiginlegra hagsmuna

Hlutverk:
Framkvæmdavald Evrópusambandsins og leggur fram frumvörp til nýrra laga, hefur eftirlit með samþykktum og er fulltrúi ESB á alþjóðavettvangi
Meðlimir:Einn framkvæmdastjóri frá hverju aðildarríki
Aðsetur:    Brussel

•        www.ec.europa.eu

Framkvæmdastjórnin (e. European Commission) er óháð ríkisstjórnum aðildarríkjanna og skal hafa heildarhagsmuni ESB að leiðarljósi. Á mörgum sviðum er hún helsti drifkraftur Evrópusambandsins. Hún leggur fram tillögur að nýjum lögum, stefnumálum og aðgerðaáætlunum og er jafnframt ábyrg fyrir framkvæmd ákvarðana Evrópuþingsins og ráðherraráðsins. Framkvæmdastjórnin er fulltrúi Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi í öllum málum nema utanríkis- og öryggismálum.

Hvað er framkvæmdastjórnin?

Orðið „framkvæmdastjórn“ hefur tvíþætta merkingu. Annars vegar er orðið notað til að vísa til framkvæmdastjóranna sjálfra, sem skipaðir eru af aðildarríkjunum og Evrópuþinginu til að stýra stofnuninni og taka ákvarðanir. Hins vegar vísar „framkvæmdastjórnin“ til stofnunarinnar sjálfrar og starfsfólks hennar.

Framkvæmdastjórarnir eru allir með reynslu af stjórnmálum og margir hafa jafnvel verið ráðherrar í ríkisstjórn. Þegar þeir taka sæti í framkvæmdastjórninni eru þeir hins vegar skuldbundnir til að starfa í þágu heildarhagsmuna Evrópusambandsins og mega ekki taka við fyrirmælum frá ríkisstjórnum aðildarríkjanna.

Í framkvæmdastjórninni eru nokkrir varaforsetar. Einn þeirra er æðsti talsmaður utanríkis- og öryggismálastefnunnar og hefur hann fyrir vikið ítök í bæði framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu.

Framkvæmdastjórnin ber pólitíska ábyrgð gagnvart Evrópuþinginu sem með vantrauststillögu getur krafist afsagnar framkvæmdastjórnarinnar. Framkvæmdastjórnin er viðstödd fundi Evrópuþingsins þar sem hún skýrir og rökstyður tillögur sínar. Framkvæmdastjórnin svarar einnig með reglulegum hætti skriflegum og munnlegum fyrirspurnum frá þingmönnum.

----------------------------------------------------

Skipun framkvæmdastjórnarinnar

Ný framkvæmdastjórn er tilnefnd fimmta hvert ár, í síðasta lagi sex mánuðum eftir kosningar til Evrópuþingsins. Tilnefningin fer fram á eftirfarandi hátt:
•    Ríkisstjórnir aðildarríkjanna leggja fram tillögu um nýjan forseta framkvæmdastjórnarinnar og verður viðkomandi að hljóta kosningu á Evrópuþinginu.
•    Sá eða sú sem tilnefnd er í stöðu forseta framkvæmdastjórnarinnar velur aðra framkvæmdastjóra í samráði vð ríkisstjórnir aðildarríkjanna.
•    Hið nýja þing tekur því næst viðtöl við alla tilnefnda framkvæmdastjóra og veitir umsögn um framkvæmdastjórnina í heild sinni. Ef þingið samþykkir framkvæmdastjórnina getur hún hafið störf í byrjun næsta árs.

----------------------------------------------------

Dagleg starfsemi framkvæmdastjórnarinnar er í höndum yfirmanna, sérfræðinga, þýðenda, túlka og ritara. Starfsfólk framkvæmdastjórnarinnar - og annarra stofnana ESB - er ráðið í gegnum Ráðningaskrifstofu Evrópusambandsins (e. European Personnel Selection Office, EPSO, europa.eu/epso). Starfsfólkið kemur frá öllum aðildarríkjum ESB og er það valið á grundvelli hæfnisprófa. Um 33 þúsund manns starfa hjá framkvæmdastjórninni. Þetta kann að virðast mikill fjöldi en í raun er þetta færra starfsfólk en hjá meðalstóru evrópsku sveitarfélagi.

Hvað gerir framkvæmdastjórnin?

Framkvæmdastjórnin hefur fjögur meginhlutverk:
1.    Hún leggur fram frumvörp (e. proposal) til laga til Evrópuþingsins og ráðherraráðsins.
2.    Hún hefur umsjón með og framkvæmir stefnu ESB ásamt því að hafa umsjón með fjárlögum sambandsins.
3.    Hún fylgir eftir löggjöf ESB (ásamt Evrópudómstólnum).
4.    Hún er fulltrúi ESB á alþjóðavettvangi.

Hér er að finna nánari lýsingu á hlutverkum framkvæmdastjórnarinnar.

-------------------------------------------

Hjálparhönd til fólks í neyð
Skrifstofa framkvæmdastjórnarinnar um mannúðaraðstoð og almannavarnir (e. Humanitarian Aid and Civil Protection, ECHO) var sett á laggirnar árið 1992. Mannúðarmál eru nú grundvallarþáttur í utanríkisstarfi Evrópusambandsins enda stendur ESB fremst allra í þessum málum á alþjóðavettvangi.
Um 150 milljónir manna njóta mannúðaraðstoðar ESB á hverju ári. Aðstoðinni er hrint í framkvæmd með aðstoð 200 samstarfsaðila, s.s. líknarfélaga og stofnana Sameinuðu þjóðanna. Mannúðaraðstoðin er veitt á grundvelli reglna um óhlutdrægni og aðstoð án mismununar.

-------------------------------------------

Hvernig starfar framkvæmdastjórnin?

Forseti framkvæmdastjórnarinnar ákveður hvaða málaflokka hver framkvæmdastjóri fær til umsýslu og getur forsetinn hliðrað verkefnum til ef nauðsyn þykir á starfstímabili framkvæmdastjórnarinnar. Forsetinn getur jafnframt krafist afsagnar framkvæmdastjóra. Allir framkvæmdastjórarnir 28 (hópur sem kallast the College á ensku) hittast vikulega á fundi í Brussel, yfirleitt á miðvikudögum. Framkvæmdastjórarnir kynna þau mál sem þeir hafa sett á dagskrá fundarins og eru þau afgreidd með sameiginlegri ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar.

Starfsfólk framkvæmdastjórnarinnar starfar í deildum sem nefnast stjórnarskrifstofur (e. Directorate General, DG) og þjónustudeildir, t.d. lögfræðiþjónusta (e. Legal Service). Hver stjórnarskrifstofa ber ábyrgð á tilteknum málaflokki og er stjórnað af yfirmanni (e. Director General) sem ber ábyrgð gagnvart sínum framkvæmdastjóra.

Stjórnarskrifstofurnar undirbúa og semja lagafrumvörp framkvæmdastjórnarinnar. Frumvarp öðlast ekki formlegt gildi fyrr en framkvæmdastjórnin samþykkir það á vikulegum fundi sínum. Tökum eftirfarandi dæmi til skýringar.

Gerum ráð fyrir að framkvæmdastjórnin telji vera þörf  fyrir nýja löggjöf til að koma í veg fyrir mengun fljóta. Stjórnarskrifstofan fyrir umhverfismál undirbýr þá lagafrumvarp sem byggir á athugunum þar sem haft er víðtækt samráð við evrópskan iðnað og bændur, umhverfisráðuneyti aðildarríkjanna og umhverfissamtök. Oft er almenningi einnig boðið að segja álit sitt á tillögunum og geta einstaklingar þá komið skoðunum sínum á framfæri, í eigin nafni eða fyrir hönd félagasamtaka.

Samráð er haft við aðrar stjórnarskrifstofur, breytingar gerðar eftir þörfum og farið er yfir drögin af lögfræðiþjónustu framkvæmdastjórnarinnar.

Þegar lagafrumvarpið er tilbúið er það sett á dagskrá næsta fundar framkvæmdastjórnarinnar. Á þeim fundi mun framkvæmdastjóri umhverfismála útskýra tillöguna og tildrög hennar og þvínæst er hún tekin til umræðu. Ef samkomulag næst eru frumvarpsdrögin samþykkt af framkvæmdastjórninni sem sendir ráðherraráðinu og Evrópuþinginu frumvarpið til umfjöllunar.

Ef ósætti er innan framkvæmdastjórnarinnar um tillöguna getur forsetinn farið fram á atkvæðagreiðslu. Ef einfaldur meirihluti framkvæmdastjórnarinnar styður frumvarpið er það samþykkt í nafni framkvæmdastjórnarinnar sem heildar.

-------------------------------

Hagstofa Evrópusambandsins: safnar hagtölum Evrópu
Hagstofa ESB (e. Eurostat) er hluti af framkvæmdastjórninni. Hlutverk hennar er að gera evrópskar hagtölur aðgengilegar svo hægt sé að gera samanburð á milli ríkja og svæða. Þetta er mikilvægt hlutverk enda eru áreiðanlegar og hlutlægar hagtölur grunnstoð allra lýðræðisríkja.

Hagtölur Hagstofu ESB veita svör við mörgum spurningum: Eykst atvinnuleysi eða minnkar það? Hefur útblástur CO2 aukist á síðustu 10 árum? Hversu margar konur eru á vinnumarkaði? Hver er staða efnahagslífs eins aðildarríkis í samanburði við hin ríkin?
•    epp.eurostat.ec.europa.eu

 -------------------------------

Þjóðþingin: Nálægðarreglan í framkvæmd