This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

4. Ráðherraráðið: Rödd aðildarríkjanna

Hlutverk:
Stefnumótun og lagasetning
Meðlimir:Einn ráðherra frá hverju aðildarríki
Aðsetur:    Brussel og Lúxemborg

•        www.consilium.europa.eu


Ráðherrar aðildarríkjanna hittast í ráðherraráðinu til að ræða málefni ESB, taka ákvarðanir og setja lög. Ráðherrarnir hafa heimild til að skuldbinda ríkisstjórnir sínar til að fylgja eftir ákvörðunum ráðsins.

Hvað gerir ráðherraráðið?

Ráðherraráðið er lykilaðili í ákvarðanatöku ESB. Vinna þess fer fram á fundum sem einn ráðherra úr ríkisstjórnum allra aðildarríkja ESB sækir. Tilgangur fundanna er að ræða, breyta og samþykkja löggjöf, samhæfa stefnumótun aðildarríkjanna eða skilgreina utanríkisstefnu ESB.

Umræðuefni hvers fundar ræður því hvaða ráðherra sækir fund ráðsins, og þar með samsetningu ráðsins hverju sinni. Ef t.d. umhverfismál eru til umræðu sækja umhverfisráðherrar aðildarríkjanna fund ráðsins sem þá er kallað ráð um umhverfismál (e. Environment Council). Sama gildir um ráðið um efnahags- og fjármál (e. Economic and Financial Affairs Council), ráðið um samkeppnismál (e. Competitiveness Council) o.s.frv.

Formennska í ráðherraráðinu færist á milli aðildarríkja á sex mánaða fresti og skal henni ekki ruglað saman við forseta leiðtogaráðsins. Sú ríkisstjórn sem fer með formennsku í ráðherraráðinu á hverjum tíma skipuleggur og stýrir öllum fundum ráðherraráðsins. Fundir ráðsins um utanríkismál eru undantekning á þessari reglu, en þeim er stýrt af æðsta talsmanni utanríkis- og öryggismálastefnu ESB (e. High Representative for Foreign Affairs and Security Policy), sem hefur umsjón með framkvæmd utanríkisstefnu fyrir hönd ráðsins.

Til að tryggja samfellu í starfsemi ráðherraráðsins býr starfshópur þriggja formennskuríkja (e. trio) til sameiginlega vinnuáætlun til 18 mánaða.


FORMENNSKA Í RÁÐHERRARÁÐINU

Árjanúar-júníjúlí-desember
2014GrikklandÍtalía
2015LettlandLúxemborg
2016HollandSlóvakía
2017

Malta

Bretland
2018EistlandBúlgaría
2019AusturríkiRúmenía
2020Finnland


Ráðherrar í ráðherraráðinu hafa heimild til að skuldbinda ríkisstjórn sína. Ráðherrarnir eru ennfremur ábyrgir gagnvart þjóðkjörnum stjórnvöldum sínum sem tryggir lýðræðislegt lögmæti ákvarðana ráðherraráðsins.

Ráðherraráðið hefur fimm meginhlutverk:

1.    Löggjafarvald sem er oftast deilt með Evrópuþinginu.
2.    Samræmingarhlutverk ístefnumálum aðildarríkjanna, t.d. í efnahagsmálum.
3.    Mótun sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB, með vísan til stefnumótunar leiðtogaráðsins.
4.    Undirritun alþjóðasamninga milli ESB og annarra ríkja eða alþjóðastofnana.
5.    Samþykkt fjárlaga ESB, ásamt Evrópuþinginu.

Hér er hægt að fá nánari lýsingu á starfi ráðherraráðsins.

---------------------------------------------------------
Til eru 10 mismunandi samsetningar á ráðherraráðinu
Formennska í höndum æðsta talsmanns utanríkis- og öryggismálastefnu ESB:
•    utanríkismál

Formennska í höndum formennskuríkis ráðherraráðsins:
•    almenn málefni
•    efnahags- og fjármál
•    dóms- og innanríkismál
•    atvinnu-, félags-, heilbrigðis- og neytendamál
•    samkeppnismál (innri markaðurinn, iðnaður, rannsóknir og geimvísindi)
•    samgöngu-, fjarskipta- og orkumál
•    landbúnaðar- og sjávarútvegsmál
•    umhverfismál
•    menntunar-, æskulýðs- og menningarmál

Hvernig starfar ráðherraráðið?

Allar umræður og atkvæðagreiðslur ráðherraráðsins fara fram fyrir opnum tjöldum. Hægt er að fylgjast beint með fundum ráðsins á vefsíðu þess.Ráðið um almenn málefni (e. General Affairs Council) tryggir samræmi í starfsemi ráðherraráðsins eftir mismunandi samsetningu þess og hefur eftirlit með því að ákvörðunum leiðtogaráðsins sé fylgt eftir. Ráðið um almenn málefni nýtur stuðnings sérstakrar nefndar fastafulltrúa (almennt kölluð Coreper vegna franska heitis hennar: Comité des Représentants Permanents). Í Coreper-nefndinni sitja sendiherrar aðildarríkja ESB en öll aðildarríkin eru með fastanefndir í Brussel sem eru í forsvari fyrir sitt ríki og standa vörð um hagsmuni þess. Yfirmaður hverrar fastanefndar er þannig sendiherra síns ríkis gagnvart Evrópusambandinu. Sendiherrarnir hittast vikulega á fundum nefndar fastafulltrúanna. Hlutverk Coreper-nefndarinnar er að undirbúa fundi ráðherraráðsins. Eina undantekningin er landbúnaðarmál sem eru í höndum sérstakrar nefndar (e. Special Committee on Agriculture). Coreper-nefndin nýtur aðstoðar fjölda vinnuhópa sem skipaðir eru embættismönnum frá aðildarríkjunum.

Hvernig tekur ráðið ákvarðanir?


Ákvarðanir í ráðherraráðinu eru teknar með atkvæðagreiðslu. Í flestum tilfellum þurfa ákvarðanir að vera teknar með auknum meirihluta en í tilteknum málum kveða sáttmálar sambandsins um annars konar meðferð. Má þar nefna skattamál en þau þarf að samþykkja með samhljóða samþykki. Samþykktir með auknum meirihluta taka bæði tillit til íbúafjölda sem og fjölda ríkja. Til þess að tillaga sé samþykkt þarf:

55% af fjölda aðildarríkja að styðja tillögu, þ.e. 16 af 28 ríkjum;
Aðildarríkin þurfa að vera fulltrúar fyrir 65% af íbúafjölda ESB – um það bil 329 milljónir af 506 milljónum íbúa sambandsins.

Að auki geta fjögur ríki hið minnsta, sem saman eru með a.m.k. 35% af íbúafjölda sambandsins, staðið í vegi fyrir ákvörðun. Þessi regla hefur það í för með sér að allar ákvarðanir teknar af ráðinu hafa víðtækan stuðning innan Evrópu, en einnig það að minnihlutar geta komið í veg fyrir það að ákvarðanir eru teknar. Fyrir nóvember 2014 var fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í ráðinu með örðum hætti þar sem sérhvert ríki hafði tiltekinn fjölda atkvæða.Aðildarríki Fólksfjöldi (× 1 000)Hlutfall af heildar fólskfjölda ESB (í prósentum)
Þýskaland 80.523,7 15,93
Frakkland 65.633,212,98
Bretland 63.730,1 12,61
Ítalía 59.685,2

11,81

Spánn 46.704,39,24
Póland 38.533,3

7,62

Rúmenía 20.057,53,7
Holland 16.779,63,32
Belgía 11.161,62,21
Grikkland 11.062,52,9
Tékkland 10.516,12,08
Portúgal 10.487,32,07
Ungverjaland 9.908,81,96
Svíþjóð 9.555,91,89
Austurríki 8.451,91,67
Búlgaría 7.284,61,44
Danmörk 5.602,61,11
Finnland 5.426,71,07
Slóvakía 5.410,81,07
Írland 4.591,10,91
Króatía 4.262,10,84
Litháen 2.971,90,59
Slóvenía 2.058,80,41
Lettland 2.023,80,40
Eistland 1.324,80,26
Kýpur865,90,17
Lúxemborg537,00,11
Malta 421,40,08
Samtals505 572.5 100

Mörk fyrir aukinn meirihluta  328 622.165


Hér má nálgast reiknivel sem reiknar út niðurstöður atkvæðagreilsna eftir mismunandi fyrirkomulagi atkvæðagreiðslna í ráðinu

Aðalskrifstofa ráðherraráðsins

Aðalskrifstofa ráðherraráðsins (e. The General Secretariat of the Council) aðstoðar leiðtogaráðið og forseta þess sem og ráðherraráðið og formennskuríkin. Framkvæmdastjóri skrifstofunnar (e. Secretary-General) er skipaður af ráðherraráðinu. 

------------------------------------

Hvað er „aukin samvinna“?
Ef nokkur aðildarríki vilja starfa náið saman á sviðum sem falla ekki undir óskiptar valdheimildir ESB og ekki tekst að fá samþykki allra hinna aðildarríkjanna fyrir samstarfinu, þá geta þau starfað undir hatti svokallaðrar aukinnar samvinnu (e. enhanced cooperation). Þar með geta níu ríki hið minnsta notað stofnanir sambandsins til að vinna nánar saman. Þetta er þó háðvissum skilyrðum. Samstarfið verður að vinna að framgangi markmiða ESB og öðrum ríkjum verður að gefast kostur á því að bætast í hópinn ef þau vilja.

Nokkur ríki hafa nýtt þessa leið til að finna sameiginlega lausn vegna skilnaða hjóna frá ólíkum aðildarríkjum ESB. Þessi leið hefur einnig verið notuð til að koma á samræmdu einkaleyfakerfi sem tekur til flestra - en ekki allra - aðildarríkja ESB.
 
------------------------------------

Evruhópurinn

Öll aðildarríki ESB taka þátt í efnahags- og myntbandalaginu. Það þýðir að þau samhæfa stefnumótun sína í efnahagsmálum og fara með ákvarðanir í þeim málum sem sameiginlegt hagsmunamál allra. Það hafa þó ekki öll ríkin gengið til liðs við hóp evruríkja með upptöku hins sameiginlega gjaldmiðils - evrunnar. Sum ríki hafa kosið að taka ekki upp evruna að svo stöddu á meðan enn önnur undirbúa hagkerfi sín til að mæta skilyrðum aðildar að evrusvæðinu. Evruríkin þurfa að starfa mjög náið saman og þau eiga öll að fylgja peningamálastefnu sem sett er af Seðlabanka Evrópu. Evruríkin þurfa því að hafa vettvang þar sem þau geta rætt saman og ákveðið stefnumál evrusvæðisins. Ráðið um efnahags- og fjármál getur ekki verið sá vettvangur því þar sitja öll aðildarríki ESB.

Lausnin er fólgin í evruhópnum (e. Eurogroup) sem í sitja efnahags- og fjármálaráðherrar evrusvæðisins. Hér má lesa nánar um evruhópinn.
 

Sameiginleg utanríkis- og öryggismálastefna

Evrópusambandið vinnur ötullega að mótun sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu (e. Common Foreign and Security Policy, CFSP) sem lýtur öðrum lögmálum en flest stefnumál sambandsins. Stefnan er mótuð og framkvæmd af leiðtogaráðinu og ráðherraráðinu sameiginlega. Markmið ESB á alþjóðavettvangi er að vinna að framgangi lýðræðis, réttarríkisins, mannréttinda og frelsis og auka virðingu fyrir mannlegri reisn, jafnrétti og samstöðu. Til að ná þessum markmiðum á Evrópusambandið í samstarfi við ríki og alþjóðastofnanir um allan heim.

Ábyrgð á sameiginlegu utanríkis- og öryggismálastefnunni er deilt þannig:
•    Leiðtogaráðið, undir forystu forseta þess, mótar heildarstefnuna að gefnum öryggishagsmunum ESB, varnarmálum meðtöldum.
•    Ráðherraráðið, sérstaklega ráðið um utanríkismál, tekur því næst ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að móta nánar og framkvæma utanríkis- og öryggismálastefnuna, með vísan í stefnumótun leiðtogaráðsins. Æðsti talsmaður utanríkis- og öryggismálastefnunnar stýrir fundum ráðsins um utanríkismál.
•    Stefnunni er svo komið í framkvæmd af æðsta talsmanni utanríkis- og öryggismálastefnunnar og aðildarríkjunum í sameiningu. Þess er gætt að framkvæmdin sé samræmd og skilvirk og getur æðsti talsmaðurinn notið til þess stuðnings frá ESB og aðildarríkjunum.

Utanríkisþjónusta ESB (e. European External Action Service, EEAS) starfar sem utanríkisráðuneyti Evrópusambandsins undir stjórn æðsta talsmanns utanríkis- og öryggismálastefnunnar. Þar starfa sérfræðingar frá ráðherraráðinu, aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni. Evrópusambandið rekur sendinefndir undir stjórn utanríkisþjónustunnar í flestum ríkjum heimsins. Sendinefndirnar starfa að utanríkis- og öryggismálum í samstarfi við sendiráð aðildarríkja ESB.

Mikilvæg mál sem snerta utanríkis- og öryggismálastefnuna eru sett á dagskrá ráðherraráðsins af aðildarríkjunum eða æðsta talsmanni utanríkis- og öryggismála, jafnvel í samstarfi við framkvæmdastjórnina. Hægt er að taka ákvarðanir með stuttum fyrirvara þar sem stundum er um mjög brýn mál að ræða. Almennt eru ákvarðanir um utanríkis- og öryggismál teknar með samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB

Framkvæmdastjórnin: í þágu sameiginlegra hagsmuna