This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

3. Leiðtogaráðið: Stefnan mótuð

Hlutverk:
Pólitísk stefnumótun og forgangsmál
Meðlimir:Þjóðarleiðtogar allra aðildarríkjanna, forseti leiðtogaráðsins og forseti framkvæmdastjórnarinnar
Aðsetur:    Brussel
- www.european-council.europa.eu


Helstu stjórnmálaleiðtogar ESB, þ.e. forsætisráðherrar og/eða forsetar aðildarríkjanna, forseti ráðsins og forseti framkvæmdastjórnarinnar sitja í leiðtogaráðinu (e. European Council). Þeir hittast a.m.k. fjórum sinnum á ári til að móta almenna pólitíska stefnu og forgangsmál ESB. Æðsti talsmaður utanríkis- og öryggismálastefnu ESB tekur einnig þátt í fundunum.

Hvað gerir leiðtogaráðið?

Leiðtogaráðið er æðsti samstarfsvettvangur aðildarríkja ESB. Þjóðarleiðtogarnir ákveða samhljóða heildarstefnumótun og forgangsmál ESB og tryggja að frekari þróun sambandsins eigi sér stað.

Leiðtogaráðið hefur ekki lagasetningarvald. Í lok hvers leiðtogaráðsfundar eru gefnar út niðurstöður fundarins (e. conclusions) þar sem fram koma helstu skilaboð, ákvarðanir og tilmæli um eftirfylgni. Í niðurstöðunum er fjallað um helstu mál sem ráðherraráðið þarf að sinna og einnig kann framkvæmdastjórnin að vera beðin um að leggja fram tillögur að löggjöf til að takast á við ákveðin úrlausnarmál sambandsins.

Leiðtogaráðið fundar að jafnaði eigi sjaldnar en tvisvar á sex mánaða tímabili. Hægt er að efna til aukafunda í ráðinu þegar áríðandi mál þarfnast ákvarðana æðstu leiðtoga, t.d. vegna efnahags- eða utanríkismála.

Forseti leiðtogaráðsins

Forseti leiðtogaráðsins kallar saman fundi og stýrir þeim, hefur umsjón með starfi ráðsins og veitir því forystu.

Forseti leiðtogaráðsins er jafnframt fulltrúi ESB  út á við. Forsetinn er fulltrúi ESB í utanríkis- og öryggismálum í samstarfi við æðsta talsmann utanríkis- og öryggismálastefnu ESB.

Forseti leiðtogaráðsins er kosinn af leiðtogaráðinu til tveggja og hálfs árs með möguleika á endurkjöri einu sinni. Um fullt starf er að ræða, þ.e. forseti leiðtogaráðsins getur ekki samtímis gegnt starfi í þágu sinnar þjóðar.

Hvernig tekur leiðtogaráðið ákvarðanir?

Flestar ákvarðanir leiðtogaráðsins eru teknar með samhljóða samþykki (e. consensus). Í sumum tilfellum er nóg að hafa aukinn meirihluta, t.d. í atkvæðagreiðslum um nýjan forseta ráðsins og í tilnefningum til framkvæmdastjórnarinnar og í stöðu yfirmanns utanríkis- og öryggismálastefnu ESB.

Einungis þjóðarleiðtogar geta kosið í atkvæðagreiðslum leiðtogaráðsins.

Aðalskrifstofa leiðtogaráðsins

Starfsemi leiðtogaráðsins er studd af aðalskrifstofu ráðherraráðsins (e. General Secretariat of the Council).

Leiðtogafundir evruríkja

Þjóðarleiðtogar þeirra ríkja sem hafa tekið upp evruna; evruhópsins, hittast a.m.k. tvisvar á ári til viðbótar við fundi leiðtogaráðsins. Forseti framkvæmdastjórnarinnar og forseti Seðlabanka Evrópu sitja einnig þá fundi og stundum einnig forseti Evrópuþingsins.

Stjórn evrusvæðisins og stórtækar umbætur í efnahagsmálum eru ræddar á fundum evruríkjanna (e. euro summit). Fundirnir voru settir á laggirnar með sáttmála um stöðugleika, samræmi og hagstjórn í efnahags- og gjaldeyrismálum ESB sem var undirritaður af 25 aðildarríkjum árið 2012 og gekk í gildi 2013. Forseti evruhópsins er tilnefndur af þjóðarleiðtogum evruríkjanna á sama tíma og forseti leiðtogaráðsins er kosinn. Embættistíminn er sá sami og getur sami einstaklingur gegnt báðum embættum samtímis.

Stundum taka leiðtogar ESB-ríkja sem standa utan evrusvæðisins en hafa undirritað stöðugleikasáttmálann þátt í fundum evruhópsins. Forseti evruhópsins veitir ríkjum utan hópsins upplýsingar um undirbúning og niðurstöður leiðtogafunda evruríkjanna.

---------------------------------------------------

Algengur misskilningur: hvaða ráð er hvað?

Það er auðvelt að ruglast á „ráðum“ á vettvangi Evrópu, sérstaklega þegar nöfn þeirra eru svo keimlík á ensku, eins og ráðin þrjú hér fyrir neðan.

Leiðtogaráðið (e. The European Council)
Samstarfsvettvangur leiðtoga (þ.e. forseta og/eða forsætisráðherra) aðildarríkja ESB, forseta leiðtogaráðsins og forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þetta er æðsti samstarfsvettvangur ESB og fundir þess kallaðir leiðtogafundir (e. summits).

Ráðherraráðið (e. The Council)
Ráðherraráðið samanstendur af ráðherrum úr ríkisstjórnum allra aðildarríkja ESB. Það hittist reglulega, tekur ákvarðanir um málefni ESB og setur lög.

Evrópuráðið (e. The Council of Europe)
Evrópuráðið er ekki stofnun á vegum ESB heldur alþjóðastofnun um mannréttindi, lýðræði og réttarfar. Evrópuráðið var stofnað árið 1949 og ein fyrsta framkvæmd þess var að semja mannréttindasáttmála Evrópu (e. European Convention on Human Rights). Í kjölfarið var settur á laggirnar Mannréttindadómstóll Evrópu (e. European Court of Human Rights) til að tryggja að fólk geti notið réttinda samkvæmt sáttmálanum. Aðildarríki Evrópuráðsins eru 47, að öllum ESB-ríkjunum meðtöldum. Aðsetur Evrópuráðsins er í Strassborg í Frakklandi.


---------------------------------------------------


Ráðherraráðið: rödd aðildarríkjanna