This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Nýtur landbúnaður í Finnlandi og Svíþjóð sérstöðu innan ESB?


Já, landbúnaður í Svíþjóð og Finnlandi nýtur vissrar sérstöðu innan ESB þar sem Finnar og Svíar sömdu sérstaklega við Evrópusambandið um svokallaðan norðlægan landbúnað (e. Nordic Aid Scheme) og á það við um landbúnaðarsvæði sem liggja norðar 62. breiddargráðu og henta verr til ræktunar en svæði sunnar í álfunni.

Með inngöngu í ESB gangast aðildarríki undir sameiginlegu landbúnaðarstefnuna sem fer með niðurgreiðslur og stuðning við landbúnað og bændur innan ESB. Með því að semja sérstaklega um skilgreiningar svæða sem norðlægra landbúnaðarsvæða við inngöngu sína árið 1995 öðluðust Svíar og Finnar rétt á að bæta við landbúnaðarstyrki ESB úr eigin sjóðum. Ríkin geta þannig aukið stuðning við landbúnað á svæðum sem erfið eru til ræktunar og tryggt að landbúnaður leggist ekki af á harðbýlum svæðum.