This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Er rétt að ríki geti samið um sérstöðu í aðildarsamningum?


Í stuttu máli má segja að svarið sé já en hafa verður það í huga að þegar ríki leggur inn umsókn um aðild að ESB er það merki um vilja þess til að starfa innan Evrópusambandsins samkvæmt þeim lögum og reglum sem þar gilda á þeim tíma sem sótt er um.

Evrópusambandið byggir á lögum og rétti sem felur það í sér að hver einasta aðgerð ESB er grundvölluð á sáttmálum þess sem öll aðildarríkin hafa samþykkt að starfa eftir. Þegar ríki fær stöðu umsóknarríkis hefst svokölluð rýnivinna þar sem allt regluverk Evrópusambandsins, sem byggir á sáttmálum þess, er borið saman við regluverk (þ.e. lög og reglur) umsóknarríksins. Þannig er kortlagt hvernig umsóknarríkið þarf að breyta lögum sínum og reglum til að verða fullgildur meðlimur. Þetta er gert vegna þess að við aðild þarf ríkið að hafa tekið yfir reglur Evrópusambandsins og geta framfylgt þeim. Viðræðuferlið felur því yfirleitt í sér umbætur sem miða að því að umsóknarríkið taki yfir reglur Evrópusambandsins.

Á sviðum þar sem umsóknarríki eiga sérstakra hagsmuna að gæta er möguleiki á að skapa ríkinu sérstöðu í aðildarsamningnum, svo fremi sem öll aðildarríki ESB samþykki þá lausn. Enda segir í sáttmálanum um Evrópusambandið (en. The Treaty on European Union) (49. grein): „Skilmálar aðildar og sú aðlögun á sáttmálunum, sem Sambandið byggir á, sem slík aðild felur í sér, skulu byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins.“

Þegar samningsaðilar (þ.e. umsóknarríkið og ESB) hafa lokið samningaviðræðum og umbótum á þann veg að báðir aðilar séu sáttir getur ríkið orðið aðili að ESB. Formlega fær ríkið aðild þegar aðildarsamningurinn hefur verið samþykktur í umsóknarríkinu (oftast í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu) og þegar hvert aðildarríki hefur samþykkt inngöngu umsóknarríkisins. Sáttmálar ESB eru svo aðlagaðir við inngöngu nýja aðildarríkisins.