This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Hvað viltu vita um Evrópusambandið?

Sendu okkur spurningar eða hringdu í okkur í síma 527 5700. Við munum svara eins fljótt og auðið er.

Spurningar og svör

On Q&A

Sýna öll svör
Fela öll svör
 • Hvað er Evrópudómstóllinn?

  Evrópudómstóllinn (e. The European Court of Justice) tryggir að löggjöf ESB sé túlkuð og beitt á sama hátt í öllum aðildarríkjunum, þ.e. að það sama gangi yfir alla óháð aðstæðum. Dómstóllinn rækir þessar skyldur sínar og túlkar löggjöf ESB að beiðni dómstóla í aðildarríkjunum.

  Dómstólinn hefur aðsetur í Lúxemborg og er skipaður einum dómara frá hverju aðildarríki. Við hann starfa níu aðallögmenn sem aðstoða dómara. Starfsemi dómstólsins er skipt í tvennt svo hann anni þeim tugum þúsunda mála sem berast til úrlausnar.  Þar fyrir utan er starfræktur sérstakur starfsmannadómstóll, skipaður 7 dómurum, sem tekur á ágreiningmálum milli ESB og starsfmanna þess.

  Dómstóllinn (e. Court of Justice) veitir dómstólum aðildarríkjanna ráðgefandi álit og annast ógildingar og áfrýjanir. Almenni dómstóllinn (e. General Court) fellir dóma í málum sem lögð eru fram af aðildarríkjum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum innan ESB.

  Sjá nánar.
 • Hvað er Framkvæmdarstjórnin?

  Framkvæmdarstjórnin er einn helsti drifkraftur ESB á mörgum sviðum. Hún er óháð ríkisstjórnum aðildarríkjanna og skal hafa heildarhagsmuni ESB að leiðarljósi. Meðal meginhlutverka hennar er að leggja fram tillögur að nýjum lögum, stefnumálum og aðgerðaráætlunum og er hún jafnframt ábyrg fyrir framkvæmd ákvarðana Evrópuþingsins og ráðherraráðsins.

  Framkvæmdastjórnin hefur aðsetur í Brussel (Belgíu) og í henni situr einn framkvæmdastjóri frá hverju aðildarríki. Þeir eru skipaðir af aðildarríkjunum og Evrópuþinginu til að stýra stofnuninni og taka ákvarðanir.

  Orðið „framkvæmdastjórn“ hefur tvíþætta merkingu. Annars vegar er orðið notað til að vísa til framkvæmdastjóranna sjálfra, en hins vegar vísar „framkvæmdastjórnin“ til stofnunarinnar sjálfrar og starfsfólks hennar. Framkvæmdastjórnin er fulltrúi ESB á alþjóðavettvangi í öllum málum nema utanríkis-og öryggismálum.

  Sjá nánar.
 • Hvað er Ráðherraráðið?

  Aðildarríkin hafa einn ráðherra hvert í ráðherraráðinu þar sem þeir ræða málefni ESB, eru lykilaðilar í ákvarðanatöku og setja lög. Ráðherrarnir hafa heimild til að skuldbinda ríkisstjórnir sínar til að fylgja ákvörðunum ráðsins.

  Samsetning ráðsins ræðst af umræðuefni hvers fundar. Ef til umræðu eru umhverfismál sækja umhverfisráðherrar aðildarríkjanna fund ráðsins sem þá er kallað ráð um umhverfismál (e. Environment Council). Sama gildir um ráðið um efnahags- og fjármál (e. Economic and Financial Affairs Council), ráðið um samkeppnismál (e. Competitiveness Council) o.s.frv.

  Ráðherraráðið hefur aðsetur í Brussel (Belgíu) og Lúxemborg og hefur fimm meginhlutverk:
  1.    Löggjafarvald, sem er oftast deilt með Evrópuþinginu.
  2.    Samræmingarhlutverk í stefnumálum aðildarríkjanna, t.d. í efnahagsmálum.
  3.    Mótun sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB, með vísan til stefnumótunar leiðtogaráðsins.
  4.    Undirritun alþjóðasamninga milli ESB og annarra ríkja eða alþjóðastofnana.
  5.    Samþykkt fjárlaga ESB, ásamt Evrópuþinginu.

  Sjá nánar.
 • Hvað er Leiðtogaráðið?

  Leiðtogaráðið er samstarfsvettvangur þjóðarleiðtoga (þ.e. forseta og/eða forsætisráðherra) aðildarríkja ESB, forseta leiðtogaráðsins og forseta framkvæmdarstjórnar ESB. Þetta er æðsti samstarfsvettvangur ESB og fundir þess eru kallaðir leiðtogafundir (e. summits).

  Leiðtogaráðið hefur aðsetur í Brussel (Belgíu) og er meginhlutverk þess að ákveða samhljóða heildarstefnumótun og forgangsmál ESB og tryggja að frekari þróun sambandsins eigi sér stað.

  Leiðtogaráðið hefur ekki lagasetningarvald en í lok hvers leiðtogaráðsfundar eru gefnar út niðurstöður fundarins (e. conclusions) þar sem fram koma helstu skilaboð, ákvarðanir og tilmæli um eftirfylgni.

  Sjá nánar.
 • Hvað er Evrópuþingið?

  Evrópuþingið er löggjafarsamkunda ESB og samanstendur af 751 þingmanni. Þingmennirnir eru kjörnir beint af borgurum ESB og skulu gæta hagsmuna þeirra. Sætum í Evrópuþinginu er úthlutað á milli aðildarríkjanna í hlutfalli við heildaríbúafjölda ESB.

  Aðsetur Evrópuþingsins er í Strassborg (Frakklandi) en stofnunin starfar á tveimur stöðum til viðbótar; í Brussel (Belgíu) og Lúxemborg. Aðalfundir þingsins, svokallaðir allsherjarfundir (e. plenary sessions) eru haldnir 12 sinnum á ári í Strassborg en að auki fara fram auka allsherjarfundir og nefndarfundir í Brussel.

  Meginhlutverk Evrópuþingsins er að 1) setja lög ásamt ráðherraráðinu, 2) hafa lýræðislegt eftirlit með starfsemi allra stofnana ESB og 3) deila yfirráðum yfir fjárlögum ESB með ráðherraráðinu.

  Sjá nánar.
 • Hverjir starfa innan Evrópuþingsins og hvernig er því stjórnað?

  Forseti Evrópuþingsins, sem kosinn er úr hópi þingmanna til tveggja og hálfs árs í senn, er andlit þingsins út á við. Hann stýrir allsherjarfundum þingsins og hefur yfirumsjón með allri starfsemi þess. Fjórtán varaforsetar deila þeirri vinnu með honum.

  Formenn fagnefnda og sameiginlegra þingnefnda (e. committee or delegation chair) stýra vinnu viðkomandi nefnda og einn samræmingaraðili (e. coordinator) er í forsvari fyrir hvern stjórnmálahóp á þinginu. Þá eru framsögumenn (e. rapporteur) fengnir úr hópi þingmannanna til þess að fylgja eftir tilteknum reglugerðum eða lagasetningum í gegnum þingið.

  Ýmsir bera ábyrgð á innra starfi þingsins. Pólitískt ákvarðanatökuvald er í höndum forsætisnefndar þingsins (e. Conference of Presidents) sem skipuð er forseta þingsins og leiðtogum stjórnmálahópanna sem eiga fulltrúa á Evrópuþinginu. Málefni sem varða fjárhag, stjórnskipun og stjórnsýslu heyra undir skrifstofu þingsins (e. Bureau) sem skipuð er forseta þingsins og varaforsetum. Loks eru stjórnsýsluleg og fjárhagsleg málefni þingmanna á ábyrgð fagráðs kvestora (e. College of Quaestors) sem skipað er 5 þingmönnum kjörnum af þinginu.

  Frekari upplýsingar um skipulag og störf Evrópuþingsins er að finna hér.
 • Eru Evrópuþingkosningar 2014 öðruvísi en áður? Hvers vegna?

  Segja má að Evrópuþingskosningarnar 2014 séu þær mikilvægustu hingað til, nú þegar Evrópusambandið reynir að komast upp úr efnahagskreppunni og leiðtogar Evrópu velta fyrir sér bestu framtíðarstefnunni.

  Kosningarnar gefa kjósendum ekki einungis færi á að leggja dóm á úrræði leiðtoga Evrópu við evrukrísunni og tjá skoðanir sínar um áætlanir um nánara samstarf á sviði efnahagsmála og frekari pólitískan samruna. Þær eru að auki fyrstu kosningar eftir að Lissabon sáttmálinn tók gildi árið 2009 en með honum fékk þingið aukið vald í mörgum málum.

  Ein af megin breytingunum í kjölfar Lissabon sáttmálans er að í fyrsta sinn munu aðildarríkin þurfa að taka tillit til niðurstöðu Evrópuþingskosninganna við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB, sem mun taka við af José Manuel Barroso haustið 2014. Valið er háð samþykki þingsins. þ.e. Evrópuþingið mun „kjósa“ forseta framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt sáttmálanum en það felur í sér að kjósendur hafa nú mun ríkari áhrif á það hver er við stjórnvölinn.  

  Af þeim 13 stjórnmálaflokkum sem eru í framboði til Evrópuþingsins hafa fimm tilnefnt frambjóðanda í forsetaembættið. Evrópski þjóðarflokkurinn (EPP) hefur tilnefnt Jean-Claude Juncker, fyrrum forsætisráðherra Lúxemborgar og fyrrum forseta Evruhópsins, fulltrúi sósíalista og demókrata (PES) er Martin Schulz, sitjandi forseti Evrópuþingsins, Frjálslyndir demókratar (Liberals and Democrats) hafa tilnefnt Guy Verhofstadt, fyrrum forsætisráðherra Belgíu og núverandi formann Frjálslyndra á Evrópuþinginu, Græningjar (Greens) tilnefna tvíeykið José Bové frá Frakklandi og hina þýsku Ska Keller, á meðan Vinstrimenn (European Left) hafa tilnefnt Alexis Tsipras, formann gríska SYRIZA flokksins.

  Sá meirihluti sem myndast eftir kosningarnar mun móta Evrópulöggjöf næstu 5 árin á málasviðum sem spanna allt frá innri markaðnum til borgaralegra réttinda. Evrópuþingið - eina stofnun ESB sem valin er í beinum kosningum - er komin í þungamiðju ákvarðanatöku sambandsins og hefur áhrif til jafns við ríkisstjórnir aðildarríkjanna við setningu nær allrar löggjafar ESB.  

 • Í hverju felast dagleg störf þingmannanna og hvaða áhrif hafa þeir?

  Flestir Evrópuþingmannanna ganga til liðs við stjórnmálahópa með öðrum þingmönnum af sömu skoðun til að vinna að framgangi hagsmuna kjósenda sinna.

  Þingmennirnir sitja einnig í þingnefndum þar sem farið er í saumana á tilvonandi Evrópulöggjöf. 20 fagnefndir starfa á Evrópuþinginu, hver um sig sérhæfð fyrir visst málefnasvið. Þar fer mesta vinnan fram: samningaviðræður, heitar pólítískar umræður og mikilvægir samningar handsalaðir. Lokaákvörðun er þó alltaf tekin í þingsal, þar sem allir 751 þingmennirnir sitja.

  Að auki geta Evrópuþingmenn tekið þátt í sameiginlegum þingmannanefndum sem hlúa að samskiptum við þjóðþing ríkja utan ESB.
 • Hefur einn stjórnmálahópur náð meirihluta á Evrópuþinginu?

  Nei, í allri sögu Evrópuþingsins hefur einum stjórnmálahópi aldrei tekist að ná hreinum meirihluta þingsæta. Af þeim sökum þarf ávallt að ná meirihluta samkomulagi milli hópanna um ný lög og reglugerðir og fjárlög, svo ná megi í gegn setningu nýrra laga. Stjórnmálahóparnir þurfa því að semja sín á milli, gefa eftir í sumum málum og fá sínu framgengt í öðru, þó að stærri hóparnir hafi vissulega meiri vigt en hinir minni.

  Flokksagi innan Evrópuþingsins er ekki eins mikill og í mörgum þingum aðildarríkjanna. Meðlimir sama hóps kjósa stundum eftir öðrum línum, oft landfræðilegum, en líkt og í þjóðþingunum eru algengustu skilin milli hægri og vinstri aflanna. Á kjördag gefst kjósendum færi á að ákveða hvernig valdið dreifist á milli stjórnmálahópanna.

  Flestir stjórnmálahópanna sem nú sitja á Evrópuþinginu tengjast samevrópskum stjórnmálaflokkum sem bjóða fram fulltrúa í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar.
 • Starfa Evrópuþingmenn eftir þjóðerni eða flokkslínum?

  Þingmenn á Evrópuþinginu starfa eftir flokkslínum, ekki þjóðerni. Umræður, deilur og árekstrar eru órofa þáttur í starfi allra lýðræðislega kjörinna stofnana. Evrópuþingið er þar engin undantekning, samansett af stjórnmálamönnum og -konum sem deila afar ólíkum skoðunum.

  Til að beisla hið breiða litróf skoðana og þjóðerna og skapa skilvirkt starfsumhverfi hafa Evrópuþingmenn ávallt starfað innan fjölþjóðlegra stjórnmálahópa, þar sem meðlimir koma frá ólíkum löndum en deila sömu pólitísku sannfæringunni. Góð samvinna við þingmenn frá öðrum löndum sem deila að mestu leyti sömu skoðunum er markvissasta leið Evrópuþingmanna til að ná árangri.  

  Núna eru starfandi 7 stjórnmálahópar á þinginu sem ná þvert yfir hið breiða litróf pólítískra skoðana og eru hóparnir fulltrúar yfir 160 stjórnmálaflokka innan aðildarríkjanna.

  Stjórnmálahóparnir eru lykilþáttur í starfsemi þingsins. Þeir eru nauðsynlegir til að mynda meirihluta fyrir nýjum lagasetningum, samþykkt fjárlaga og öðrum málefnum. Flokkarnir móta stefnu þingsins og fara með úrslitavald við val á forseta þingsins og öðrum leiðtogum innan þess.
 • Um hversu mörg þingsæti er kosið?

  Frá því Króatía gekk í Evrópusambandið þann 1. júlí 2013 hafa 766 þingmenn setið á Evrópuþinginu. Með kosningunum í ár fækkar þingmönnum hins vegar í 751 og mun sá fjöldi haldast óbreyttur í nánustu framtíð. Þessir þingmenn eru fulltrúar ríflega 500 milljón íbúa þeirra 28 aðildarríkja sem mynda Evrópusambandið.

  Sætunum er úthlutað milli aðildarríkjanna eftir stiglækkandi hlutfalli (e. degressive proportionality). Það felur í sér að fjölmenn aðildarríki fá úthlutað fleiri sætum á þinginu en minni ríki, sem þó fá úthlutað fleiri þingsætum hlutfallslega séð en stóru ríkin. Ekkert ríki fær úthlutað færri en 6 þingsætum og er hámarksfjöldi þingsæta 96.
 • Hvenær verður kosið til Evrópuþingsins?

  Evrópuþingskosningarnar standa yfir dagana 22.-25. maí. Aðildarríkin eru öll með eigin kosningalög og það er á valdi hvers ríkis fyrir sig að ákveða hvaða dag boðað er til kosninga. Breskir kjósendur munu til að mynda kjósa um sína 73 þingmenn þann 22. maí og búlgarskir kjósendur ganga að kjörkössunum þann 25. maí. Niðurstöður frá öllum 28 aðildarríkjum sambandsins verða svo tilkynntar sunnudagskvöldið 25. maí næstkomandi. Frekari upplýsingar um kosningarnar í hverju aðildarríki er að finna hér.
 • Er það rétt að hugtakið samningaviðræður sé misvísandi?

  Samkvæmt bæklingnum Understanding Enlargement frá DG Enlargement segir "the term negotiations can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules." Er það rétt?

  Í stuttu máli má segja að þessi setning lýsi réttilega þeirri grunnkröfu Evrópusambandsins um að ríki sem sækja um aðild að sambandinu geri það á þeirri forsendu að þau hyggist taka yfir alla löggjöf Evrópusambandsins eins og hún er á þeim tíma sem sótt er um. Evrópusambandið er einstakt á heimsvísu þar sem aðildarríkin hafa framselt hluta af fullveldi sínu til yfirþjóðlegra stofnana þess. Af þeim sökum eru samningaviðræður um aðild að sambandinu að sama skapi einstakar. Um samningaviðræður er engu að síður að ræða. Ekkert ríki hefur getu til að taka upp allt regluverk ESB á einu bretti, bæði af stjórnsýslulegum og pólitískum ástæðum, og því þarf að semja. Þau ríki sem sótt hafa um aðild í gegnum tíðina hafa farið inn í samningaviðræðurnar á ólíkum forsendum, misjafnt hefur verið hvort þau hafi óskað eftir sérlausnum og þá á hvaða sviðum, og hafa samningaviðræðurnar því verið ólíkar eftir því.

  Í lengra máli má segja að Evrópusambandið er samstarfsvettvangur Evrópuríkja sem hafa í gegnum árin sammælst um að vinna saman að ákveðnum málum, á ákveðinn hátt, í þeirri trú að saman geti þau unnið betur að þessum málum en hvert í sínu lagi. Dæmi má nefna sameiginlegu fiskveiðistefnuna - því hver sem lítur á Norðursjó eða Eystrasaltið á korti sér að betri árangi má ná með sameiginlegri stjórn fiskveiða á þeim svæðum. Allar ákvarðanir um að starfa saman á nýju sviði eiga sér þó langan aðdraganda og er lokaniðurstaða einungis fengin þegar ríkisstjórnir allra aðildarríkjanna og Evrópuþingið eru ásátt. Slíkt ferli tekur marga mánuði, jafnvel mörg ár. Smám saman hrúgast þessar ákvarðanir (lög og reglugerðir) upp - stórar og smáar, auðveldar og erfiðar - og eru nú orðnar að 100.000 blaðsíðna lagabálki. Ekki er vilji til að hrófla við þessari sátt í hvert sinn sem ríki gengur inn og því eru þau skilyrði sett að ríki sem sækir um inngöngu sæki um að ganga inn í Evrópusambandið eins og það er á hverjum tíma.

  Er þá verið að semja og um hvað?

  Jú, það er nefnilega verið að semja því eins og áður sagði hefur ekkert ríki getu til að taka upp allt regluverkið á einu bretti og strandar þar bæði á stjórnsýslulegri getu og ekki hvað síður á pólitískt viðkvæmum málum. Rétt eins og aðildarríkin gengu í gegnum langt og oft erfitt samningaferli til að ná sátt um samstarf, t.d. á sviðum landbúnaðar, fískveiða,  tolla og geimvísinda, þá þurfa nýju ríkin tíma, sveigjanleika og jú, í undantekningartilfellum, sérlausnir til að ganga inn í sambandið.

  Eins og áður segir lýsir bæklingurinn sem vísað er í réttilega þeirri grunnkröfu sem útskýrð er hér fyrir ofan um að þau ríki sem sækja um aðild geri það á þeirri forsendu að þau hyggist taka yfir alla löggjöf Evrópusambandsins og svo semji þau við ESB um hvernig það verði framkvæmt. Eins og fyrr segir er það aftur á móti svo að ríkin sem sótt hafa um aðild í gegnum tíðina hafa gert það hvert á sínum forsendum og því misjafnt hvort óskað er eftir því að semja um sérlausnir og þá hverjar. Með hliðsjón af fyrri stækkunum ESB má segja að ekki sé hægt að semja um varanlegar undanþágur frá grunnmálum og grunngildum sambandsins (svo sem um sameiginlegan markað og virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu) en dæmi má finna um hugkvæmar smærri lausnir til að mæta þörfum og kröfum umsóknarríkisins, t.d. fiskveiðar við strendur Möltu. Loks má líta til þess að öll ríki sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu og lokið viðræðum um aðildarsamning hafa staðfest ánægju sína með niðurstöðu samningsins með því að staðfesta hann og ganga í sambandið - að undanskildum Noregi sem tvívegis hafnaði aðildarsamningi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

  Því má segja að þó svo að upplýsingabæklingur stækkunarskrifstofu ESB sé vissulega upplýsandi og leiðbeinandi, þá er hann hvorki lagalegur grundvöllur aðildarviðræðna né endurspeglar umræddur texti fyllilega framkvæmd og niðurstöðu aðildarviðræðna nýrra aðildarríkja sambandsins. Í 49. grein Lissabon sáttmála, sáttmálans um Evrópusambandið (en. The Treaty on European Union) er til að mynda kveðið á um að aðild nýs ríkis og tilheyrandi aðlögun á sáttmálum sambandsins grundvallist á samningi milli aðildarríkja þess og umsóknarríkisins: „Skilmálar aðildar og sú aðlögun á sáttmálunum, sem Sambandið byggir á, sem slík aðild felur í sér, skulu byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins.“ Sjá nánar.


  Frekari upplýsingar um samningaferlið má finna hér.

 • Hvað er Stöðugleikasáttmálinn?

  Sáttmáli um stöðugleika, samræmi og hagstjórn í efnahags- og gjaldeyrismálum ESB (e. Treaty on Stability, Coordination and Governance in the Economic and Monetary Union, TSCG) er milliríkjasamningur sem var undirritaður af öllum aðildarríkjum ESB, að Tékklandi og Bretlandi undanskildum, í mars 2012 og tók gildi 1. janúar 2013 í öllum aðildarríkjunum sem höfðu þá lokið við fullgildingu sáttmálans.

  Ekki er um eiginlegan ESB sáttmála að ræða heldur milliríkjasamning en til stendur að færa hann að endingu inn í löggjöf ESB. Markmið sáttmálans er að hvetja til aga í ríkisfjármálum, auka samræmda stefnumótun í efnahagsmálum og bæta stjórnunarhætti evrusvæðisins. Sem stendur eru 18 aðildarríki ESB með evruna sem gjaldmiðil sinn.
 • Hver er munurinn á ESB og EES?

  Evrópusambandið (ESB) er hvorki sambandsríki á borð við Bandaríkin né alþjóðastofnun líkt og Sameinuðu þjóðirnar. ESB er mjög náin stjórnmálaleg og efnahagsleg samvinna milli 28 sjálfstæðra og fullvalda ríkja sem hafa ákveðið að deila með sér fullveldi á afmörkuðum sviðum sem lýsir sér í því að í mikilvægum málum eru ákvarðanir teknar á grundvelli meirihluta atkvæða aðildarríkjanna, en ávallt er leitast eftir því að taka ákvarðanir í breiðri sátt. ESB ríkin hafa komið á fót innri markaði án ferða- og viðskiptahindrana og tekið upp sameiginlega mynt.

  EES-samningurinn er hins vegar samstarfssamningur milli aðildarríkja ESB og EFTA ríkjanna Noregs, Íslands og Liechtenstein en með honum urðu EFTA-ríkin hluti af innri markaði ESB. Samningurinn miðar að því að stuðla að og efla viðskipta- og efnahagstengsl með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Í reynd þýðir þetta frjálst flæði varnings, fólks, þjónustu og fjármagns á milli þessara ríkja. Samningurinn nær þó ekki til sjávarútvegs, landbúnaðar, utanríkis- og öryggismála, dómstólasamstarfs, samræmingar viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum og myntsamstarfs.

  Ólíkt aðildarríkjum ESB hafa EES löndin Ísland, Noregur og Liechtenstein ekki bein áhrif á mótun þeirra laga og reglna sem þeim ber að taka upp samkvæmt samningnum.
 • Af hverju var Evrópusambandið upprunalega stofnað?

  Evrópusambandið var upprunalega stofnað til að binda enda á ítrekuð og blóðug stríðsátök á milli evrópskra nágrannalanda sem náðu hámarki með síðari heimsstyrjöldinni. Schuman-yfirlýsingin, sem hvatti  til stofnunar Kola- og stálbandalags Evrópu, lagði grunninn að því Evrópusambandi sem við þekkjum í dag. Í yfirlýsingunni var lagt til að sameiginlegur markaður á kolum og stáli yrði stofnaður milli Evrópuríkja í því augnamiði að gera stríð á milli þeirra óhugsandi þar sem kol og stál voru nauðsynleg hráefni til þess að heyja stríð. Sameiginlegur markaður með þessi hráefni átti að gera ríkin efnhagslega og stjórnmálalega samtvinnuð og gera það að verkum að þau myndu vinna saman sem jafningjar og innan sameiginlegra stofnana. Þessi hugsjón náði fram að ganga og þann 18. apríl 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, og Þýskaland Kola- og stálbandalag Evrópu (e. European Coal and Steel Union) með Parísar-sáttmálanum.
  Með undirritun Rómar-sáttmálanans þann 25. mars 1957 ákváðu ríkin sex að ganga skrefinu lengra með stofnun Efnahagsbandalags Evrópu (EBE) (e. European Economic Community) og koma á fót sameiginlegum innri markaði. 

  Nafnið „Evrópusambandið” kom opinberlega í staðinn fyrir „Evrópubandalagið” árið 1992 með undirritun Maastricht-sáttmálans.


  Myndband um tilurð sambandsins

  Nánari upplýsingar hér


  Sjá einnig þríþætt svar á Evrópuvefnum:
  Af hverju var Evrópusambandið stofnað? -1. Jarðvegurinn 
  Af hverju var Evrópusambandið stofnað? - 2. Aðdragandinn
  Af hverju var Evrópusambandið stofnað? - 3. Fyrstu skrefin
 • Glata ríki fullveldi sínu og einkennum við inngöngu í ESB?

  Aðildarríki ESB eru sjálfstæð og fullvalda ríki sem hafa ákveðið að deila fullveldi sínu á tilteknum sviðum sem lýsir sér í því að á sumum sviðum eru ákvarðanir teknar í samráði við önnur aðildarríki. Með virkri þátttöku í ákvörðunum og samningum á vettvangi ESB getur aðildarríki aukið enn á hróður sinn á alþjóðavettvangi – og pólitísk völd um leið – sem í reynd styrkir fullveldi ríkisins fremur en að veikja það. Ekkert aðildarríki hefur tapað þjóðareinkennum, hefðum eða siðum við inngöngu í ESB. Í raun hefur aðild að ESB stuðlað að aukinni vernd og kynningu á þjóðareinkennum þeirra; hefðum, tungumálum, siðum, matarmenningu og menningarverðmætum, jafnt innan ESB sem utan.
 • Eykst eða minnkar atvinnuleysi þegar lönd ganga inn í Evrópusambandið?

  Spurningin er flókin, enda er atvinnuleysi hvorki beintengt stefnumálum aðildarríkis né stefnumálum ESB, heldur blanda af hvoru tveggja. Samanburðarrannsóknir í öllum aðildarríkjunum sem gengu inn árið 2004 benda á hinn bóginn til þess að aðild að ESB hafi aukið hagvöxt ríkjanna. Þá hafi aðild auk þess ýtt undir fjárfestingar sem aftur höfðu jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn og þar af leiðandi lífskjör íbúanna. Alþjóðlega fjármálakreppan hefur engu að síður haft áhrif á öll aðildarríki ESB að einhverju marki og atvinnuleysi hefur aukist í öllum ríkjum ESB.
 • Er Evrópusambandið með Evrópuher?

  Nei. Aðildarríki ESB hafa engu að síður sett sér sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum og sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum (e. Common Security and Defense Policy, CSDP) fellur undir hana. Þar er hins vegar tekið tillit til stefnu einstakra ríkja, samanber hlutleysisstefnu nokkurra aðildarríkja.

  Samkvæmt hinni sameiginlegu utanríkis- og öryggismálastefnu geta aðildarríki ESB í sameiningu sent herafla, lögregluteymi og borgaralega sérfræðinga í verkefni til að tryggja frið og öryggi á átakasvæðum, svo sem í mannúðar- og björgunaraðgerðir, friðargæslu, stjórnun hættuástands og vopnahléseftirlit.

  Ákvarðanir um slíkar aðgerðir eru teknar með einróma samþykki allra aðildarríkja í leiðtogaráðinu en þátttaka ríkja í aðgerðunum er valkvæð.
 • Hafa smáríki áhrif á ákvarðanir innan ESB?

  Því er stundum haldið fram að smáríki þurfi að sætta sig við ákvarðanir og vald stóru ríkjanna innan ESB. Innan ráðherraráðsins, þar sem hagsmuna aðildarríkjanna er gætt, er því þannig háttað að öll ríkin hafa áhrif á lokaákvörðun um reglugerðir ESB. Nýtt kosningafyrirkomulag, grundvallað á Lissabon sáttmálanum, tók gildi árið 2014 sem felur í sér skilyrði um tvöfaldan meirihluta til að ákvörðun sé samþykkt:

  • Að lágmarki 55% aðildarríkja ESB þurfa að styðja ákvörðunina. Ef við miðum við núverandi fjölda aðilarríkja (28 ríki) myndu því 15 aðildarríki þurfa að sammælast. Þetta felur í sér að vægi Þýskalands er hið sama og Möltu.Að lágmarki 65% íbúafjölda aðildarríkja ESB skal standa að baki hverri ákvörðun.
  • Tvöfalda meirihlutakerfið er bæði lýðræðislegra og skilvirkara, það auðveldar myndun meirihluta og liðkar þannig fyrir ákvarðanatöku – sem er mjög mikilvægt í sambandi sem samanstendur af 28 aðildarríkjum, eða jafnvel fleiri.
  Ákvarðanir í þeim málaflokkum sem teljast viðkvæmir skulu áfram teknar á grundvelli
  einróma samþykkis. Á það sérstaklega við mál er varða skattlagningu, almannatryggingar og félagsleg réttindi, aðild nýrra ríkja að ESB, sameiginleg utanríkis- og varnarmál og lögreglusamvinnu. Í þessum málaflokkum þarf samþykki allra aðildarríkja, hvort sem þau teljast til smárra, meðalstórra eða stórra aðildarríkja.
 • Glata aðildarríki ESB fullveldisrétti yfir náttúruauðlindum sínum við aðild?

  Í stuttu máli er svarið nei. Lissabon-sáttmálinn felur í sér nokkur nýmæli varðandi orkumál, en þar er í fyrsta sinn sérstök grein sem fjallar um orkumál sambandsins. Hún rennir styrkari stoðum undir orkustefnu ESB og skilgreinir með formlegum hætti yfirráð aðildarríkja ESB hvað varðar orkuauðlindir.

  Aðild að ESB þýðir því ekki að aðildarríki missi fullveldisrétt yfir orkuauðlindum sínum, enda segir í sáttmálanum að „...ráðstafanir eru með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar [...].”

  Þannig hafa Bretar til að mynda haldið yfirráðum yfir olíuauðlindum sínum og Finnar yfir skóglendi sínu.
 • Hvað er norðlægur landbúnaður og hvaða landbúnaðarsvæði innan ESB falla undir þá skilgreiningu?

  Finnar og Svíar hafa samið sérstaklega við Evrópusambandið um svokallaðan norðlægan landbúnað (e. Nordic Aid Scheme) og á það við um strjálbýl landbúnaðarsvæði sem henta verr til ræktunar en svæði sunnar í álfunni. Með inngöngu í ESB gangast aðildarríki undir sameiginlegu landbúnaðarstefnuna sem fer með niðurgreiðslur og stuðning við landbúnað og bændur innan ESB. Með því að semja sérstaklega um skilgreiningar svæða sem norðlægra landbúnaðarsvæða við inngöngu 1995 fengu Svíar og Finnar rétt til þess að bæta við landbúnaðarstyrki ESB úr eigin sjóðum. Ríkin geta þannig aukið stuðning við landbúnað á svæðum sem erfið eru til ræktunar og tryggt að landbúnaður leggist ekki af á harðbýlum svæðum.
 • Styrkir ESB landbúnað í aðildarríkjum sambandsins?

  ESB drýgir laun bænda með beinum styrkjum til að sjá þeim fyrir skikkanlegum launum - á móti kemur hins vegar að þeir verða að uppfylla háa gæðastaðla um hreinlæti og matvælaöryggi á býlum sínum, dýravelferð og -heilbrigði,  líffræðilegan fjölbreytileika og landslagsvernd.

  Fjárhagsleg öryggisnet sem styðja við bændur eru enn til staðar en notkun þeirra er takmarkaðri en áður.

  Þau eru til dæmis notuð til að aðstoða bændur sem lenda í einstæðum neyðartilfellum eins og náttúruhamförum, dýrasjúkdómafaröldrum (t.d. gin- og klaufasjúkdómurinn) eða stórfelldum markaðsóstöðugleika sem ógnað gæti atvinnugreinum hinna dreifðu byggða í heild sinni.

  Landbúnaðarstefna ESB er samþættasti stefnumálaflokkur allra stefnumálaflokka Evrópusambandsins og tekur því til sín bróðurpart fjármuna sambandsins. Þessir peningar koma frá aðildarríkjunum sjálfum og yrði því hvort eð er varið tillandbúnaðarmála í ríkjunum sjálfum – nú er þeim bara ráðstafað af ESB frekar en ríkisstjórnum aðildarríkjanna.

  Lestu meira um sameiginlegu landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu ESB hérna
 • Hvernig hlúir ESB að dreifðum byggðum?

  Þótt þróun dreifðra byggða sé ekki beintengd landbúnaðarframleiðslu veitir Evrópusambandið styrki til hennar í gegnum sameiginlegu landbúnaðarstefnuna. Það skýrist af því að dreifbýlisþróun er eitt af forgangsverkefnum Evrópusambandsins, enda býr ríflega helmingur íbúa ESB í dreifbýli sem nær yfir 91 % flatarmáls aðildarríkjanna. Á tímabilinu 2007 og 2013 var 96,3 milljörðum evra (u.þ.b. 20 % af þeirri heildarupphæð sem veitt er til sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar) varið til þróunar dreifðra byggða gegnum Dreifbýlisþróunarsjóð evrópsks landbúnaðar.

  Þótt stuðningur við þróun dreifðra byggða sé að hluta til fjármagnaður af hverju aðildarríki fyrir sig, gætu mörg ríki ekki fjármagnað aukna samkeppnishæfni, umhverfisvernd, aukin lífsgæði og ný viðskiptatækifæri í dreifbýli á eigin spýtur.
 • Hvað felur byggðastefna ESB í sér?

  Byggðastefna ESB miðar að því að:
  • aðstoða svæði innan ESB til að nýta getu sína til fullnustu
  • bæta samkeppnishæfni og atvinnumál með fjárfestingum á svæðum með mikla vaxtagetu
  • bæta svo hratt sem auðið er lífskjör almennings innan þeirra ríkja sem gengið hafa inn í ESB síðan 2004 svo þau séu nær meðallaginu

   Þá er hugmyndin að byggðastefnan falli vel að markmiðum ESB um stuðning við vöxt og atvinnusköpun með því að:

  • gera ríki og svæði meira aðlaðandi fyrir fjárfesta með bættu aðgengi, bjóða upp á hágæða þjónustu (svo sem háhraða internet) og með því að varðveita umhverfislega möguleika
  • hvetja til nýsköpunar, frumkvöðlastarfsemi og örvunar þekkingarhagkerfisins með þróun samskipta- og upplýsingatækni
  • skapa fleiri og betri störf með því að laða fleira fólk til vinnu, bæta starfsskilyrði og auka fjárfestingu í mannauði


   Hérna má lesa nánar um byggðastefnu ESB (á íslensku), hvernig hún er fjármögnuð og hvernig þeim fjármununum er síðan varið
 • Hvernig geta íbúar ríkja Evrópusambandsins haft áhrif á löggjöf ESB?

  Íbúar Evrópusambandsins hafa þrjár leiðir til að hafa áhrif: Umsagnir til framkvæmda-stjórnarinnar, beiðnir til Evrópuþingsins og borgarafrumkvæði um nýja löggjöf.
  • Framkvæmdastjórnin tekur við umsögnum frá einstaklingum og lögaðilum þegar vinna hefst við gerð nýrra frumvarpa eða við endurbætur á löggjöf (e. public consultations). Þannig geta þau sem hafa áhuga á viðfangsefninu eða hafa sérþekkingu á því, veitt ráðgjöf við fyrstu drög áður en framkvæmdastjórnin sendir frumvarpið til leiðtogaráðsins og Evrópuþingsins til frekari umræðu og samþykktar.
  • Íbúar, fyrirtæki, samtök og félög með höfuðstöðvar innan ESB geta sent beiðnir til Evrópuþingsins um málefni sem varða þau beint. Sérstök beiðnanefnd (e. Petition board) fer yfir innsendar beiðnir í hverjum mánuði og ákveður hverjum skuli fylgja eftir og hvernig.
  • Borgarafrumkvæði Evrópu (e. European Citizens’ Initiative) er nýjung sem gefur íbúum ESB tækifæri til að hafa áhrif á stefnu sambandsins. Með því að hrinda af stað samstilltu verkefni og safna einni milljón undirskrifta því til stuðnings í sjö af 28 aðildarríkjum, má leggja fram beiðni til framkvæmdastjórnar ESB um frumvarp að nýrri löggjöf.
 • Koma stofnanir ESB í staðinn fyrir þjóðþing og ríkisstjórnir aðildarríkjanna?

  Nei. Ríkisstjórnir aðildarríkja fara áfram með framkvæmdavald og þjóðþing viðkomandi ríkis með löggjafarvald. Ríkisstjórnir aðildarríkjanna leiða þjóðir sínar gagnvart Evrópusambandinu og skilgreina þau forgangsatriði og hagsmunamál sem þarf að þrýsta á og semja um í Brussel. Þjóðþing aðildarríkjanna hafa jafnframt bein áhrif á ákvarðanir um löggjöf ESB þannig að allar tillögur til breytinga á löggjöf ESB verður að senda til þjóðþinganna sem síðan hafa átta vikur til að koma fram með rökstutt álit á tillögunum. Ef ákveðinn fjöldi þjóðþinga andmælir tillögunni má breyta henni eða draga hana til baka. Þetta gefur þjóðþingum færi á að stýra Evrópusambandinu í málum sem betra er að leysa á vettvangi ríkjanna sjálfra, í gegnum svæðisbundið samstarf eða á sveitarstjórnastigi.
 • Hverjir gera hvað í neytendamálum ESB?

  • Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur fram tillögu að nýjum lögum
  • Sérfræðingar og yfirvöld aðildarríkjanna fjalla um tillögurnar
  • Evrópuþingið og ráðherraráð ESB fjalla um, leggja til breytingar og samþykkja lögin
  • Aðildarríki ESB innleiða löggjöfina og gæta þess að yfirvöld, framleiðendur og fyrirtæki virði hana
  • Neytendasamtök tala máli neytenda á vettvangi ESB og innan ríkjanna
  • Iðnaður og fyrirtæki verða að hlíta reglum ESB við framleiðslu og dreifingu
  • Sjálfstæðir aðilar veita vísindalega ráðgjöf varðandi áhættu í tengslum við matvæli, fóður, dýraheilbrigði, lyf og heilsufarsógnir
  • Vísindanefndir veita sjálfstæðar ráðleggingar um neytendaöryggi, lýðheilsu og umhverfið vegna vara sem eru ekki matvæli
 • Hvert get ég leitað ef brotið er á rétti mínum sem neytanda?

  Evrópskir neytendur geta leitað eftir leiðbeiningum og ráðum hjá Evrópsku neytendaaðstoðinni (ENA), sem rekin er af Neytendasamtökunum á Íslandi. Að minnsta kosti ein miðstöð Evrópsku neytendaaðstoðarinnar á að starfa í hverju aðildarríki ESB auk Noregs og Íslands. Hlutverk hennar er að aðstoða neytendur með því að veita þeim upplýsingar um rétt þeirra innan aðildarríkja EES og vinna að úrlausn deilumála. ENA á Íslandi sinnir fjölbreyttum verkefnum og annast til dæmis milligöngu milli neytenda og seljenda frá öðru landi innan EES á fyrsta stigi ágreinings. Ef ekki næst að leysa úr ágreiningi er veitt leiðsögn um viðeigandi úrskurðaraðila og áframhaldandi aðstoð.

  Auk þessa geta einstaklingar eða fyrirtæki fengið aðstoð við að leysa vandamál sem koma upp vegna þess að reglum um innri markaðinn er ekki beitt á réttan hátt innan EES svæðisins hjá Solvit. Sjá nánar hér.

 • Hvernig tengist Ísland neytendastefnu ESB?

  Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem er opinn sameiginlegur markaður 31 ríkis í Evrópu. Samningurinn um EES veitir Íslandi aðgang að fjölbreyttu vöruúrvali og þjónustu og mikla möguleika á að kaupa vörur á samkeppnishæfu verði.

  Neytendamál og samræming reglna um viðskiptahætti skipa stóran sess í EES­samningnum, enda snerta þessi mál með beinum hætti lífsgæði almennings og samkeppnishæfni aðildarríkjanna. Í gegnum EES­samninginn skuldbinda samningsaðilar sig til að fara eftir lögum og reglum sem tryggja lágmarksréttindi og öryggi í viðskiptum beggja megin borðsins þegar kaup og sala á vörum og þjónustu fer fram.

 • Hvernig tryggir ESB öryggi matvæla?

  Löggjöf ESB um matvælaöryggi tryggir neytendum öfluga vernd þegar kemur að öllum matvælum sem seld eru innan ESB og tekur hún til allra stiga í framleiðslu og dreifingu. Löggjöfin hefur áhrif á hreinlæti, dýravernd, plöntuheilbrigði og fyrirbyggingu mengunar í matvælum. Markmiðið er fyrst og fremst að tryggja að allir neytendur hafi aðgang að öruggum, hágæða matvælum á viðráðanlegu verði. ESB löggjöf tryggir líka að áreiðanlegar upplýsingar um innihald og næringarinnihald séu neytendum aðgengilegar.

 • Hvernig tryggir ESB réttindi farþega og ferðamanna?

  Ferðafrelsi er grundavallarréttur íbúa ESB. Margt getur þó farið úrskeiðis þegar ferðast er og neytendur þurfa að vera tryggðir komi upp erfiðleikar. Allir farþegar sem ferðast innan Evrópu njóta lágmarksréttinda, hver sem ferðamátinn er. Í því felst að allir eiga rétt á upplýsingum, aðstoð og skaðabótum verði langar tafir eða ferðir falla niður. Fatlaðir og þeir sem hafa skerta ferðagetu njóta einnig réttinda samkvæmt löggjöf ESB um farþegaréttindi.

 • Hvernig tryggir ESB réttindi neytanda?

  Bannað er innan ESB að beita villandi auglýsingum og ósanngjörnum viðskiptaháttum sem þýðir að enginn kostnaður má vera dulinn, ekki má beita brellum, koma með óréttmætar kröfur, veita misvísandi upplýsingar eða beina auglýsingum að börnum.

  Þegar verslað er á netinu hafa neytendur 7 virka daga til að rifta kaupsamningi án eftirmála og breytist sá lágmarks umþóttunartími í 14 daga árið 2014. Reglur ESB veita lagalega vernd fyrir neytendur kaupi þeir gallaða vöru eða vörur sem eru öðruvísi en þær voru auglýstar. Tveggja ára ábyrgð gildir á öllum vörum. 

 • Hvernig tryggir ESB vöruöryggi?

  Samkvæmt reglum ESB má aðeins setja vörur á innri markaðinn sem eru öruggar. ESB krefst þess að flestar vörutegundir séu merktar CE merkinu. Notkun þess felur í sér að framleiðandi lýsir því yfir að vara uppfylli alla öryggisstaðla ESB og að hún uppfylli allar viðeigandi kröfur. Leikföng, rafmagnsvörur og snyrtivörur eru dæmi um vörutegundir sem strangt eftirlit er haft með.

  Ef vöru, sem neytendum stafar af heilsu- eða öryggisógn, verður vart í einhverju aðildarríkjanna er framkvæmdastjórnin látin vita í gegnum hraðviðvörunarkerfið (RAPEX). Þetta gerir það að verkum að upplýsingar dreifast hratt til allrar Evrópu og hægt er að grípa til viðeigandi ráðstafana. Um matvæli gilda aðrar reglur.

  ESB stendur reglulega fyrir upplýsingaherferðum og kannar sjónarmið og vandamál neytenda.

 • Hvernig eru lög um neytendamál sett innan ESB?

  Neytendastefna ESB er samstarf á milli stofnana ESB, aðildarríkja þess og íbúanna. Hún byggir á tveim meginreglum sem koma fram í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins;
              -Ákvarðanir um að standa vörð um heilsu, öryggi og efnahagslega hagsmuni neytenda skal taka á evrópskum vettvangi. Auk þess skal tryggja réttindi neytenda til upplýsinga og fræðslu.
              -Taka þarf mið af neytendavernd þegar önnur löggjöf ESB er mótuð eða er sett í framkvæmd.


  Neytendastefna ESB er uppfærð reglulega með hliðsjón af félagslegum og efnahagslegum aðstæðum auk umhverfisbreytinga en einnig er ávallt horft til ráðgjafar og nýrrar vísindaþekkingar.

  Það er breytilegt milli landa hvernig neytendavernd birtist neytendum þar sem sum lönd kjósa að ganga lengra en ESB löggjöf segir til um til að verja neytendur. ESB starfar með yfirvöldum aðildarríkjanna til að tryggja að lög um neytendavernd séu innleidd og þeim framfylgt.

 • Hver eru helstu grundvallaratriðin í neytendastefnu ESB?

  Neytendastefna ESB tryggir neytendum ákveðin réttindi og veitir þeim vernd og stuðning innan evrópska efnahagssvæðisins.

  Helstu atriði neytendastefnu ESB eru:
   - Að setja reglur sem eiga við um allar vörur og þjónustu sem seldar eru í Evrópu
  - Jöfn samkeppnisskilyrði fyrir fyrirtæki og bann við óheiðarlegum viðskiptaháttum
  - Aðgangur að ódýrum, fljótlegum og auðveldum leiðum til að leysa ágreining
  - Skilvirkt markaðseftirlit og samstarf sem dregur úr áhættu er tengist heilsu og öryggi fólks
  - Gott aðgengi að upplýsingum, ráðgjöf og stuðningi við neytendamál
   - Aukin vernd gegn mögulegri misnotkun á berskjaldaðri neytendum – svo sem börnum og öldruðum
   - Neytendur aðstoðaðir við að taka ákvarðanir sem byggjast á skýrum, réttum og samræmdum upplýsingum

  ESB leitar stöðugt leiða til að bæta rétt neytenda, ekki einungis með lagasetningu, heldur einnig með því að styðja við bakið á neytendasamtökum og neytendastofnunum í aðildarríkjunum.

 • Hvers vegna eru málefni neytenda mikilvæg innan ESB?

  Innri markaður Evrópusambandsins (ESB) er einn af grundvallarþáttum ESB samstarfsins og er einn stærsti markaður heimsins með um 500 milljónir neytenda sem geta verslað vörur og þjónustu þvert á landamæri allra ESB landanna auk Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein. Innri markaðurinn býður hverjum neytenda innan ESB upp á val, sveigjanleika, gæði og hagstæðasta kostinn hverju sinni.

  Með vali sínu taka neytendur þátt í að drífa áfram nýsköpun, hagkvæmni og hagvöxt.
 • Af hverju hefur framkvæmdastjórn ESB beðið um að taka þátt í málaferlum ESA gegn Íslendingum í Icesave málinu?

  Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nýverið lagt fram umsókn til EFTA dómstólsins um að hafa meðalgöngu, með skriflegum stuðningi við afstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), hvað varðar skyldur stjórnvalda í kjölfar tilskipunar 94/19/EC um innistæðutryggingar.

  Framkvæmdastjórnin vonar að með þessu verði skyldur Íslands skýrðar hvað varðar fjármálaþjónustu. Einnig vill hún að lög ESB og EES um lagalegar skyldur gagnvart EFTA ríkjunum og aðildarríkjum ESB séu skýrar og þar gæti samkvæmni.

  Slíkur skýrleiki er mikilvægur til að viðhalda trausti á lögum og reglum Evrópusambandsins um innistæðutryggingar,  hinn sameiginlega markað og síðast en ekki síst fjármálastöðugleika í Evrópu. 

  Málsóknin sem liggur nú fyrir EFTA dómstólnum hefur enga beina tengingu við umsóknarferli Íslands í Evrópusambandið heldur tengist aðskildum lagalegum ferlum. En almennt séð, verður geta Íslands til að taka upp réttarreglur ESB um fjármálaþjónustu, þar á meðal tilskipunina um innistæðutryggingar, metin vandlega á meðan samningaferli við ESB stendur.
 • Hvað segja lög Evrópusambandsins um samkeppnisrekstur orkufyrirtækja?

  Samkeppni á orkumarkaði hefur lengi verið í forgrunni hjá ESB, en frá því á níunda áratugnum hefur framkvæmdastjórnin ásamt aðildaríkjum þess að einsett sér að koma á fót virkum innri orkumarkaði. Á tíunda áratugnum voru orkumarkaðir á rafmagni og jarðgasi opnaðir í þeirri viðleitni að koma á samkeppni á orkumarkaði. Helstu aðgerðir ESB voru eftirfarandi;

  • að greina á milli samkeppnishluta orkuiðnaðarins (framboð á orku til neytenda) frá þeim hluta sem ekki er samkeppnishæfur (rekstur dreifikerfa á orku).
  • að skuldbinda rekstraraðila á ósamkeppnishæfum hluta orkuiðnaðarins (dreifikerfin og aðrir innviðar) til að heimila þriðja aðila að hafa aðgang að dreifikerfi þess.
  • að opna fyrir framboðshluta orkuiðnaðarins með því m.a. að afnema hindranir fyrir þá aðila sem vilja byrja að framleiða eða flytja orku.
  • að fjarlægja smán saman allar þær hindranir sem neytendur verða fyrir þegar þeir vilja breyta um orkusala.
  • að setja á fót sjálfstæðar eftirlitsstofnanir til að hafa eftirlit með að þessar ávarðanir séu virtar.

  Árin 1996 og 1998 voru fyrstu tilskipanir ESB settar sem kváðu á um aukna frelsisvæðingu á orkumarkaði og áttu þær að vera innleiddar af aðildarríkjum ESB árin 1998 hvað rafmagn varðar og 2000 hvað jarðgas varðar. Önnur lagasetningaumferð ESB var árið 2003 og átti afrakstur hennar að vera innleiddur af aðildarríkjum ESB fyrir árslok 2004, en nokkur ákvæði áttu ekki að taka gildi fyrr en árið 2007. 

  Þrátt fyrir að töluverður árangur hafi náðst var samkeppni á orkumarkaði sein að taka við sér, m.a. vegna þess að orkumarkaðir voru að mestu leyti innan landanna sjálfra en ekki á milli landa. Árið 2005 ákvað framkvæmdastjórn ESB að rannsaka stöðu mála á orkuiðnaðinum í Evrópu til að koma auga á þær hindranir sem komu í veg fyrir að samkeppni á þessum markaði myndast. Árið 2007 kynnti framkvæmdastjórnin umferð af lagasetnignu í þeirri viðleitni að koma á fót virkri samkeppni á orkumarkaði. Ásamt því að koma á lagasetningu sem kveður á um samkeppni á orkumarkaði hefur framkvæmdastjórnin beitt sér gegn samrua orkufyrirtækja ef hún hefur talið slíka samruna ganga gegn samkeppni á orkumarkaði. Einnig hefur hún beitt sér þegar aðildarríki hafa hindrað samruna milli orkufyrirtækja sem ekki hefur þótt brjóta í bága við samkeppnislög. Þá hefur framkvæmdastjórnin sett skýrar reglur um í hvaða tilfellum aðildarríki geta veitt orkufyrirtækjum ríkisstyrki. 

  Hér má sjá upplýsingar um samkeppni á orkumarkaði í gegnum Samkeppnismálaskrifstofu ESB

  Hér má sjá yfirlit frá Orkumálaskrifstofu ESB um löggjöf sambandsins í orkumálum


 • Hverjir eru kostir og gallar við inngöngu í ESB fyrir kynjajafnrétti?

  Því miður getur Evrópustofa hvorki tjáð sig um kosti né galla Evrópusambandsaðildar fyrir Ísland þar eð slíkar upplýsingar eru matskenndar og best settar fram af innlendum hagsmunahópum og sérfræðingum. Við getum hins vegar svarað því hver stefna ESB er í jafnréttismálum og til hvaða aðgerða sambandið hefur tekið til að jafna hlut kynjanna.

  Jafnrétti kynjanna er eitt af grundvallargildum Evrópusambandsins og nær aftur til 1957 þegar meginreglan um sömu laun fyrir sömu vinnu varð hluti af Rómarsáttmálanum. Þrátt fyrir að ójafnrétti sé enn til staðar hefur töluverður árangur náðst í jafnréttis-málum innan ESB á undanförnum áratugum. Þessu má helst þakka:

  • Löggjöf um jafnan rétt (e. equal treatment);
  • Samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða;
  • Sérstökum aðgerðum til að stuðla að framgöngu kvenna.
  Jákvæðar breytingar eru meðal annars þær að konum fjölgar á vinnumarkaði og þeim gengur betur að öðlast góða menntun og starfsþjálfun. 

  Þrátt fyrir það er enn kynjamunur. Á vinnumarkaðinum eru konur enn hlutfallslega mun fleiri í láglaunastörfum og mun færri í valdastöðum. Meðaltal atvinnuþátttöku kvenna í ESB ríkjum er nú tæp 60% en var 52% árið 1998. Framkvæmdastjórnin stefnir á að ná 75% atvinnuþátttöku hjá bæði körlum og konum fyrir 2020. 
  Skoðanakönnun Eurobarometer frá 2009 leiddi í ljós að meirihluti (61%) aðspurðra taldi að ákvarðanir um jafnrétti kynjanna ætti að taka á vettvangi ESB. Meirihluti (64%) taldi einnig að árangur hefði náðst á síðastliðnum áratug og rúmur helmingur þekkti til aðgerða ESB gegn kynjamisrétti.

  Átak er nú í gangi til að draga úr launamun kynjanna, sem mælist að meðaltali 16,4% innan sambandsins. Framkvæmdastjórnin starfar að þessu markmiði í samstarfi við aðildarríkin. Hér má sjá myndband sem framleitt var fyrir átakið.

  Framkvæmdaáætlun til að koma á kynjajafnrétti (e. Strategy for equality between women and men) sem gildir fyrir tímabilið 2010-2015 skuldbindur framkvæmdastjórnina til að koma kynjafnrétti að í öllum stefnumálum til að ná ná árangri í eftirfarandi forgangsmálum:

  • Jafnrétti hvað varðar efnahagslegt sjálfstæði karla og kvenna;
  • Sömu laun fyrir jafn verðmæt störf;
  • Jafnrétti í ákvarðanatöku;
  • Reisn, ráðvendni og afnám kynbundins ofbeldis;
  • Hvetja til kynjajafnréttis utan ESB;
  • Þvert á málaflokka (kynjahlutverk, lagasetning og stjórnunarhættir).

  Með áætluninni er lögð áhersla á þátt kynjajafnréttis í efnahagslegum vexti og sjálfbærri þróun, og styður við framkvæmd áætlunarinnar Evrópa 2020 (en. Europe 2020 Strategy) hvað varðar jafnrétti kynjanna. Framkvæmdaáætlunin byggir á forgangsatriðum Kvennasáttmála framkvæmdastjórarinnar sem samþykktur var í mars 2010 og reynslunni af vinnuáætlun ESB í jafnréttismálum fyrir árin 2006-2010 (en. Roadmap for Equality between women and men).

  Árangursskýrslur eru gefnar út á hverju ári og birtar í Skýrslu um jafnrétti kvenna og karla (en. Report on Equality between women and men).

  Vefsíða framkvæmdastjórnarinnar um jafnrétti kynjanna

  Bæklingur um kynjajafnrétti innan ESB á ensku
 • Hversu mörg opinber tungumál eru í ESB?

  Í Evrópusambandinu eru 24 opinber tungumál. Þau eru búlgarska, danska, enska, eistneska, finnska, franska, gríska, hollenska, írska, ítalska, króatíska, lettneska, litháenska, maltneska, pólska, portúgalska, rúmenska, slóvenska, slóvakíska, spænska, sænska, tékknenska, ungverska og þýska.

  Auk hinna 24 opinberu tungumála eru meira en 60 tungumál innan ESB sem eru svæðisbundin eða tilheyra þjóðarbrotum og sem um 40 milljónir manna tala. Meðal þeirra eru baskneska, frísneska, jiddíska, katalónska, samíska og velska.

  Hlustaðu á og lestu sýnishorn af opinberum tungumálum ESB:


  Nánari upplýsingar hér 
 • Hverjir eru framkvæmdastjórar hjá ESB og hvernig eru þeir valdir?

  Hjá Evrópusambandinu eru 28 framkvæmdastjórar, einn frá hverju aðildarlandi, og eru þeir skipaðir til fimm ára í senn. Leiðtogaráðið tilnefnir frambjóðanda til þess að vera forseti framkvæmdastjórnarinnar og verður tilnefningin að vera samþykkt af meirihluta Evrópuþingsins. Ef Evrópuþingið hafnar frambjóðandanum fær leiðtogaráðið einn mánuð til að tilnefna nýjan. Forseti framkvæmdastjórnarinnar velur framkvæmdastjóra (og málefnasvið þeirra) eftir tillögum frá aðildarríkjunum. Listi með framkvæmdastjórunum er þá lagður fram og verður að vera samþykktur með auknum meirihluta, fyrst í leiðtogaráðinu og því næst á Evrópuþinginu. Ef Evrópuþingið samþykkir listann, er nýja framkvæmdastjórnin opinberlega skipuð í embætti af leiðtogaráðinu. 

  Skipunartímabil núverandi framkvæmdastjórnar rennur út árið 2019. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er Jean-Claude Juncker frá Lúxemborg.

  Nánari upplýsingar um framkvæmdastjóra ESB


  Nánari upplýsingar hér