This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Samkeppnismál

 

Sanngirni fyrir alla


Þegar fyrirtæki keppast um að bjóða upp á varning og þjónustu lækkar verð, gæði aukast og viðskiptavinum býðst meira úrval. Samkeppni býr líka í haginn fyrir nýsköpun í tæknigreinum. Framkvæmdastjórn ESB tryggir að fyrirtæki og ríkisstjórnir fylgi reglum ESB um sanngjarna samkeppni ásamt því að veita svigrúm fyrir nýsköpun, samræmda staðla og þróun smárra fyrirtækja.

Samkeppni verður að vera sanngjörn


Samkvæmt reglum ESB leyfist fyrirtækjum ekki:

  • að fastsetja verð eða skipta með sér mörkuðum
  • að misnota ráðandi stöðu til að þröngva smærri samkeppnisaðilum út af markaði
  • að renna saman í eitt ef leiðir til markaðsráðandi stöðu. Í reynd kemur þessi regla aðeins í veg fyrir lítinn hluta samrunaferla. Stærri fyrirtæki sem eiga í miklum viðskiptum innan ESB geta ekki runnið saman án leyfis frá framkvæmdastjórn ESB - jafnvel þótt þau séu skráð utan ESB.


Framkvæmdastjórnin getur leyft einokunarstöðu fyrirtækis undir ákveðnum kringumstæðum - til dæmis þar sem kostnaðarsöm grunnvirki eru til staðar (‚náttúruleg einokun’) eða þar sem mikilvægt er að tryggja almannaþjónustu. Aftur á móti:

  • verða einokunarfyrirtæki að geta sýnt fram á að þau komi fram við önnur fyrirtæki af sanngirni
  • verða náttúruleg einokunarfyrirtæki að tryggja að grunnvirki þeirra séu aðgengileg öllum notendum
  • má ekki nota hagnað af almannaþjónustu til að styrkja markaðsaðgerðir sem hugsanlega gætu orsakað undirboð á verði samkeppnisaðila.

 

Hinir stóru mega ekki misnota þá litlu


Í viðskiptum við minni fyrirtæki mega stór fyrirtæki ekki nota sterka samningsstöðu sína til að krefjast skilmála sem gera birgjum eða viðskiptavinum erfitt fyrir að stunda viðskipti við minni samkeppnisaðila. Framkvæmdastjórnin getur sektað (og hefur sektað) fyrirtæki fyrir slíkt athæfi.

Rannsóknir ESB á samkeppnishamlandi athæfi eru ekki einskorðaðar við varning. Þær taka líka til opinberrar þjónustu og annarra þjónustugreina, þar með talið fjármálaþjónustu eins og rekstur viðskiptabanka og greiðslukortaþjónustu.

Takmarkanir á ríkisstyrkjum


Framkvæmdastjórnin mælir einnig hversu mikla aðstoð ríkisstjórnir ESB veita fyrirtækjum (þ.e. ríkisstyrkir), svo sem:

  • lán og styrki
  • vaxta ívilnanir
  • betri kjör fyrir varning
  • ríkisábyrgðir sem hækka lánshæfiseinkunnir fyrirtækja í samanburði við samkeppnisaðila


Ríkisaðstoð, í hvaða mynd sem er, má ekki veita veikum fyrirtækjum sem engar vonir standa til um að geti staðið á eigin fótum.

Undantekningarnar sem sanna regluna


Í nokkrum undantekningartilvikum má víkja frá þessum reglum. Framkvæmdastjórnin getur leyft fyrirtækjum að vinna saman að þróun tæknilegra staðla fyrir markaðinn í heild. Hún getur leyft smærri fyrirtækjum að vinna saman ef það styrkir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart stærri fyrirtækjum. Hægt er að gefa grænt ljós á ríkisaðstoð ef raunverulegar líkur eru á því að fyrirtæki í erfiðleikum - eða ný fyrirtæki - eigi möguleika á að skila hagnaði og ef það eru hagsmunir ESB að aðstoða þau (t.d. ef þau vernda eða skapa störf).

Það er sem skiptir mestu máli er hvort neytendur muni hagnast eða hvort önnur fyrirtæki muni bera skaða af. Framkvæmdastjórnin leyfir oft aðstoð til rannsókna og nýsköpunar, byggðaþróunar og fyrirtækja vegna þess að það þjónar heildarmarkmiðum ESB.

Ávinningur í verki


Eitt af þeim verkefnum framkvæmdastjórnar ESB á sviði samkeppnismála sem hlaut hvað mesta athygli tengdist bandaríska tölvurisanum Microsoft. Framkvæmdastjórnin sektaði Microsoft fyrir að binda saman ólíkar gerðir forrita í einn pakka. Framkvæmdastjórnin ákvað að Microsoft sýndi neytendum ósanngirni með því að svipta þá valinu, halda uppi óeðlilega háu verði og hamla nýsköpun í hugbúnaðariðnaðinum.

Inngrip framkvæmdastjórnarinnar varð líka til þess að bílverð lækkaði hjá mörgum. Viðleitni framkvæmdastjórnarinnar til að koma á meira gagnsæi í verðlagningu þýddi að munurinn á verði fyrir skattlagningu minnkaði til muna um alla Evrópu. Enn er verðmunur á milli landa vegna ólíkra skattkerfa en hann er samt sem áður mun minni en áður.

Auk þess má þakka framkvæmdastjórninni það að sá háttur sem hafður er á bílasölu og þjónustu hefur bætt úrval fyrir neytendur. Nú er hægt að versla með margar bílategundir hjá sama söluaðila, söluaðilar geta rekið starfsemi sína í fleiri en einu ESB ríki og nú er ekki lengur nauðsynlegt að vera löggiltur söluaðili til að mega versla með varahluti og stunda viðurkenndar bílaviðgerðir.

Stöðumat og eftirlit


Hjá Evrópudómstólnum er haft eftirlit með því mikla valdi sem framkvæmdastjórnin hefur til að rannsaka og koma í veg fyrir brot á samkeppnisreglum ESB. Fyrirtæki og ríkisstjórnir aðildarríkja ESB skjóta reglulega málum til dómstólsins og stundum hafa þau betur gegn ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar.

Meira

* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu.


Til baka