This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Réttindi ESB borgara og hvernig á að nota þau

 

Yfirlit yfir stefnur ESB er varða evrópskan borgararétt


Allir þeir sem eiga ríkisborgararétt í einu af 28 aðildarríkjum ESB eru sjálfkrafa ESB borgarar. Borgararéttur ESB er viðbót við ríkisborgararétt aðildarríkjanna og veitir fólki mikilvæg réttindi.

Evrópskur borgararéttur


ESB vill að allir borgarar ESB séu meðvitaðir um réttindi sín og geti notið góðs af þeim. Þessi réttindi eru útlistuð í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins.

Flutningar og heimili


Borgarar ESB hafa rétt á að ferðast til allra 28 ríkja sambandsins og setjast þar að. Þetta er háð nokkrum skilyrðum. Til dæmis gæti þurft að sýna skilríki við landamæri annars ESB ríkis, og til að búa í öðru ESB ríki í meira en þrjá mánuði þarf að uppfylla ákveðin skilyrði eftir því hvort tilgangur dvalarinnar er starf, nám o.s.frv.

Stjórnmál


Sérhver borgari ESB á rétt á því að kjósa og bjóða sig fram í kosningum til Evrópuþingsins eða í sveitarstjórnarkosningum í hverju því ESB ríki sem hann er búsettur í, samkvæmt sömu skilyrðum og aðrir ríkisborgarar þess ríkis.

Kvartanir


Rétturinn til að leggja fram bænaskrá gerir borgurum ESB kleift að koma málum að eða leggja fram kvörtun til Evrópuþingsins. Hægt er að biðja Evrópuþingið um að taka fyrir annað hvort einstaklingsbundnar þarfir eða kvörtunarmál, eða mál sem varða almannahag. Efni málsins verður að falla innan þeirra málaflokka sem ESB vinnur að og verður að eiga beint við um einstaklinginn.

Kvörtunum er varða slæma stjórnsýslulega meðferð mála innan stofnana ESB skal beint til umboðsmanns ESB.

Borgurum ESB stendur líka til boða að hafa samband beint við stofnanir ESB og ráðgefandi aðila þess og fá svar á hvaða opinbera tungumáli aðildarríkjanna sem er.

Ræðisvernd


Borgarar ESB njóta ræðisverndar hjá sendiráðum eða ræðismannaskrifstofum hvaða ESB ríkis sem er þegar þeir lenda í vandræðum í löndum utan ESB. Fólk getur notið aðstoðar í tilvikum þegar dauðsfall á sér stað, slys eða veikindi, vegnar fangelsunar eða farbanns, ofbeldisglæps eða heimsendingu til upprunalands.

Borgaralegt frumkvæði


Hið evrópska borgarafrumkvæði (en. European Citizens' Initiative) gerir fólki kleift að biðja framkvæmdastjórn ESB um að undirbúa lagafrumvarp. Að minnsta kosti ein milljón borgarar verða að skrifa undir beiðnina og verða þau að koma frá a.m.k. fjórðungi aðildarríkja ESB.

Virk borgararéttindi


ESB hvetur borgara og samtök til virkrar þátttöku í þróun ESB. Evrópa fyrir borgara áætlunin styrkir frumkvöðlastarf á sviðum virkrar þátttöku og lýðræðis hjá ESB, samræðna á milli menningarheima, atvinnumála, félagslegrar samheldni og sjálfbærrar þróunar og samfélagslegra áhrifa stefna Evrópusambandsins.
Áætlunin um grundvallar- og borgararéttindi styður við borgaraleg réttindi innan ESB.

Meira hér


* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu.


Til baka