Hvað gerum við ?

ESB viðheldur stjórnmálatengslum við næstum öll lönd í heiminum. Sambandið á í samstarfi við ríki og alþjóðastofnanir um allan heim og hefur gert fjölda tvíhliða samstarfssamninga við mörg nágrannaríki. Utan Evrópu starfa 141 sendinefndir undir fána sambandsins og gegna þær svipuðu hlutverki og sendiráð.

Hér að neðan eru 10 dæmi um það sem sambandið gerir í því skyni að verja hagsmuni ESB og halda á lofti gildum þess á alþjóðavettvangi.

  1. Sambandið stuðlar að stöðugleika á Balkanskaga. Sjö ríki á Balkanskaga njóta fjárhagsstuðnings frá ESB í gegnum sérstök samstarfsverkefni. Í Kosovo (1) veitir ESB aðstoð á sviði dóms- og lögreglumála til að tryggja lög og reglu. Löndin á vestanverðum Balkanskaga hafa ýmist stöðu umsóknarlands um aðild að ESB eða stöðu mögulegs umsóknarlands.
  2. Sambandið er hluti af Kvartettnum svonefnda, ásamt Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum og Rússlandi, sem beitir sér fyrir friði í Miðausturlöndum. Lausn á deilu Araba og Ísraela er forgangsmál fyrir ESB. Markmið sambandsins er tveggja-ríkja lausn sem gerir ráð fyrir sjálfstæðu, lýðræðislegu og lífvænlegu palestínsku ríki sem lifir í friði við Ísrael og aðra nágranna sína.
  3. Sambandið býður nágrönnum sínum hagstæð samskipti í gegnum Evrópsku nágrannastefnuna. Markmiðið er að auka velmegun, öryggi og stöðugleika í nágrannalöndum ESB og forðast að skarpari skil myndist milli stækkaðs ESB og landa suður af Miðjarðarhafi, í Austur-Evrópu og syðri hluta Kákasus-fjalla.
  4. Sambandið gegndi lykilhlutverki við gerð Kyoto-bókunarinnar um loftslagsbreytingar og teflir fram nýrri stefnu um litla losun kolefnis, sem er líklega sú þróaðasta og metnaðarfyllsta í heiminum. ESB er lykilþátttakandi í þessum málaflokki og ómissandi í þeirri viðleitni að knýja fram breytingar. Sambandið einbeitir sér að því að byggja upp bandalag um lagalega bindandi samkomulag um loftslagsbreytingar.
  5. Sambandið vinnur náið með Sameinuðu þjóðunum í fjölda mála. Sambandið leggur áherslu á fjölþjóðlegt samstarf og vægi þess að semja um bindandi reglur í alþjóðlegum samskiptum. Þessi áhersla birtist með skýrum hætti í Lissabon-sáttmálanum. Hvar sem þess er kostur leitast sambandið við að láta reglur og gildi leysa af hólmi valdastjórnmál og gera alþjóðleg samskipti líkari samskiptum innan ríkja, þ.e. friðsamlegri og fyrirsjáanlegri.
  6. Sambandið stýrir hernaðarlegum, pólitískum og borgaralegum verkefnum sem hafa það að markmiði að skapa og tryggja frið í löndum í Evrópu, Afríku og víðar, t.d. í Afghanistan.
  7. Sambandið leggur mikla áherslu á mannréttindi og stuðlar að því að þau séu virt um allan heim. ESB hefur gert mannréttindi að hornsteini í utanríkisstefnu sinni: í pólitískum viðræðum sem það á við þriðju ríki; í gegnum þróunarstefnu og aðstoð; og með aðgerðum sínum í gegnum fjölþjóðlegt samstarf, eins og t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
  8. Sambandið kemur fram sem ein heild í utanríkisverslun og styður grunnreglur frjálsra og sanngjarnra alþjóðaviðskipta. Með því að semja um mál sem ein heild getur ESB haft mikil áhrif. Saman standa 28 aðildarríki ESB fyrir 19% af innflutningi og útflutningi í heiminum. Tæknistaðlar ESB eru notaðir víða um heim.
  9. Sambandið styður félagslega og efnahagslega þróun samstarfsaðila sinna og er reiðubúið til hjálpar ef þeir verða fyrir áföllum. Saman eru ESB og aðildarríki þess stærsti veitandi þróunar- og mannúðaraðstoðar í heiminum. Þau standa fyrir 60% af opinberri þróunaraðstoð í heiminum.
  10. Sambandið stendur frammi fyrir erfiðum viðfangsefnum í tengslum við alþjóðleg efnahagsmál, t.d. á vettvangi helstu iðnríkja heims, G-20. Sambandið tekur virkan þátt í endurskipulagningu alþjóðlegra fjármálastofnana, eins og Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og í setningu nýrra alþjóðlegra reglna fyrir fjármálageirann. Sameiginlegi gjaldmiðillinn, evran, gefur evrusvæðinu og Seðlabanka Evrópu aukið vægi.

(1) Undir UNSC ályktun 1244