This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Mannréttindi, lýðræði og réttarríkið

 

Algild og óaðskiljanleg


Mannleg reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkið og virðing fyrir mannréttindum eru þau gildi sem Evrópusambandið byggir á. Þau eru greipt í sáttmálann um Evrópusambandið og voru efld með sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Ríki sem sækja um aðild að ESB verða að virða mannréttindi auk þess sem ESB fer fram á að þau ríki sem ESB stundar viðskipti við eða hefur gert aðra samninga við geri það líka.

Evrópusambandið skuldbindur sig til að verja algilt og óaðskiljanlegt eðli mannréttinda. Það talar fyrir og verndar þau bæði innan sinna eigin landamæra sem og í samskiptum sambandsins við önnur ríki. Sambandið gerir þetta í virku samstarfi við aðildarríkin, samstarfsríki, alþjóðastofnanir, svæðisbundnar stofnanir og félagasamtök.

Að byrja heima hjá sér


Þó svo ESB standi sig yfirleitt vel þegar kemur að verndun mannréttinda þá er svigrúm til umbóta. ESB styður við aðgerðir gegn kynþáttafordómum, útlendingahatri og annars konar misrétti byggðu á trú, kyni, aldri, fötlun eða kynhneigð auk þess sem það lætur mannréttindi á sviðum sem tengjast hælisleitendum og innflytjendum sig sérstaklega varða. Það er löng hefð fyrir því hjá ESB að taka vel á móti fólki frá öðrum ríkjum - þeim sem koma til að vinna og þeim sem flýja heimili sín vegna  - þeim sem koma til að vinna og þeim sem flýja heimili sín vegna stríða eða ofsókna.

Barist gegn misrétti


Evrópusambandið styður margskonar aðgerðir gegn kynþáttafordómum og útlendingahatri innan eigin landamæra í gegnum PROGRESS áætlunina (e. Programme for Employment and Social Solidarity). Nær fjórðungur þeirra 743 milljóna evra sem renna til PROGRESS er varið til baráttunnar gegn misrétti. Þá hefur ESB einnig sett á fót skrifstofu grundvallarmannréttinda (Fundamental Rights Agency - FRA).

Það er pólitískt forgangsmál ESB að berjast gegn mansali, sérstaklega á konum og börnum. Sambandið hefur rekið fjölda fjölþjóðlegra áætlana í baráttu sinni gegn mansali, sérstaklega í samstarfi við umsóknarríki og nágrannaríki í suð-austur Evrópu.

Alþjóðlegt afl fyrir mannréttindum


ESB hefur sett mannréttindi á oddinn í samskiptum við önnur ríki og svæði. Allir viðskiptasamningar eða samstarfssamningar við ríki utan ESB innihalda ákvæði um að mannréttindi séu lykilatriði í samskiptunum. Í dag eru 120 slíkir samningar í gildi.

Sá samningur sem tekur heildstæðast á þessu er Cotonou samningurinn - viðskipta- og aðstoðarsamningur um samskipti ESB við 79 Afríkuríki, í Karabíahafinu og Kyrrahafinu (svokallaður ACP hópur). Ef eitthvert ACP-ríkjanna bregst skyldu sinni að virða mannréttindi getur ESB stöðvað viðskiptaívilnanir og skert þróunaraðstoð til ríkjanna. ESB álítur lýðræðislega stjórnsýslu forsendu fyrir því að draga megi úr fátækt - enda er hún meginmarkmið stefnu sambandsins í þátttöku þess í þróunarmálum utan ESB. ESB beitir sömu grundvallarreglum í samskiptum við önnur samstarfsríki.

Mannúðaraðstoð ESB í neyðartilfellum - hvort sem það felst í peningaaðstoð, mataraðstoð, þjónustu eða tækniaðstoð - er veitt með það eitt að markmiði að lina þjáningar fólks, burtséð frá því hvort ástæðan eru náttúruhamfarir eða misbeiting valds af höndum ógnarstjórna.

Síðastliðin ár hefur ESB átt í viðræðum um mannréttindamál við ríki eins og Rússland, Kína og Íran. Það hefur beitt þvingunum vegna mannréttindabrota í Búrma (Míanmar) og Simbabve.

Að hafa frumkvæðið


Evrópusambandið hefur sett á laggirnar sérstakan evrópskan framtakssjóð til stuðnings lýðræði og mannréttindum (en. European Initiative for Democracy and Human Rights) til að stuðla að mannréttindum um allan heim. Á tímabilinu 2007-2013 veitir ESB 1,1 milljarði evra til sjóðsins en hann setur virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði í alþjóðlegt samhengi og einblínir sérstaklega á fjögur svið:

  • styrkja lýðræði, bætta stjórnsýslu og réttarríkið (stuðningur við pólitíska fjölhyggju, frjálsa fjölmiðla og gott réttarkerfi)
  • útrýma dauðarefsingum þar sem þær eru enn viðhafðar
  • berjast gegn pyndingum með fyrirbyggjandi aðgerðum (þjálfun löggæslufólks og menntun)
  • berjast gegn kynþáttafordómum og misrétti með því að tryggja virðingu fyrir pólitískum og borgaralegum réttindum.


Framtakssjóðurinn styrkir einnig verkefni sem stuðla að kynjajafnrétti og barnavernd. Þá styrkir hann sameiginlegar aðgerðir ESB og annarra samtaka sem tengjast baráttunni fyrir mannréttindum eins og Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðanefndar rauða krossins, Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Rammaáætlun um mannréttindi og lýðræði


Í júní 2012 samþykkti Utanríkismálaráð ESB rammaáætlun um mannréttindi og lýðræði (e. Strategic Framework on Human Rights and Democracy) ásamt aðgerðaáætlun til að hrinda henni í framkvæmd. Þetta er fyrsta sameiginlega rammaáætlun ESB um þennan mikilvæga málaflokk ásamt svo víðtækri aðgerðaáætlun til að tryggja framkvæmd hennar.

Rammaáætlunin setur fram grundvallarreglur, markmið og forgangsatriði sem ætlað er að bæta árangur og samhæfingu í allri stefnu ESB næstu tíu árin. Þá skapa þau samþykktan grundvöll raunverulegrar samvinnu milli aðildarríkja ESB og stofnana þess. Rammaáætlunin festir einnig í sessi samstarf við félagasamtök - og er skrifuð á læsilegan hátt svo að hún sé aðgengileg öllum.

Aðgerðaáætlun ESB um mannréttindi og lýðræði leiðir saman 97 aðgerðir í 36 liðum, sem undirbúnar eru á grundvelli samráðs utanríkisþjónustu ESB við framkvæmdastjórn ESB og aðildarríki ESB, sem bera sameiginlega ábyrgð á framkvæmdinni. Óformlegt samráð hefur einnig átt sér stað við þingmenn Evrópuþingsins og frjáls félagasamtök. Aðgerðaáætlunin nær fram til 31. desember 2014.

Eitt af því sem aðgerðaráætlunin kveður á um er að ESB skuli gera grein fyrir frammistöðu sinni við að ná fram settum markmiðum í ársskýrslu um mannréttindi og lýðræði í heiminum. Þetta á að gera hagsmunaaðilum í stefnumálum ESB, að félagasamtökum meðtöldum, kleift að meta áhrif aðgerða ESB og leggja fram tillögur um frekari áherslur.

 

Meira

 

 

* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu.
Til baka