This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

9. Samskipti Íslands og ESB

Yfirlit yfir tengsl Íslands og ESB

 

1970Ísland gerist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).
1972Fríverslunarsamningur milli EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu (EB) undirritaður.
1992 (maí)EES-samningurinn undirritaður.
1994 (jan.)EES-samningurinn tekur gildi.
1996 (des.)Ísland undirritar Schengen-sáttmálann.
2001 (mars)Schengen-sáttmálinn tekur gildi á Íslandi.
2004EES-svæðið stækkar þegar 10 ný aðildarlönd fá inngöngu í ESB.
2007EES-svæðið stækkar þegar 2 ný aðildarlönd fá inngöngu í ESB.
2009 (júlí)Ísland sækir um aðild að ESB.
2010 (27. júlí)Aðildarviðræður Íslands og ESB hefjast formlega.
2013 (júní)Íslensk stjórnvöld gera hlé á aðildarviðræðum Íslands og ESB um óákveðinn tíma


EES-samningurinn


EES-samningurinn nær til 28 aðildarríkja ESB og þriggja EFTA-ríkja (Noregs, Íslands og Liechtenstein). Samningnum var komið á eftir samningaviðræður milli EB og þáverandi EFTA-landanna sjö: Sviss, Austurríkis, Svíþjóðar, Finnlands, Noregs, Íslands og Liechtenstein. Samningurinn var undirritaður í maí 1992 og tók gildi 1. janúar 1994. Svisslendingar höfnuðu EES-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og þrjú önnur EFTA-lönd (Austurríki, Svíþjóð og Finnland) gerðust aðilar að ESB 1. janúar 1995. Fjögur lönd stóðu því eftir í EFTA en eitt þeirra (Sviss) er ekki aðili að EES samningnum.

EES-samningurinn stækkar innri markað ESB þannig að auk aðildarríkja ESB, nær hann einnig til Noregs, Íslands og Liechtenstein. Í reynd þýðir þetta að vörur, fólk, þjónusta og fjármagn flæðir frjálst milli þessara landa. Til að tryggja að sömu leikreglur gildi á innri markaðnum, nær EES-samningurinn einnig til sameiginlegra reglna um samkeppni og ríkisstuðning við fyrirtæki. Samningurinn felur þar að auki í sér samstarf á sviði rannsókna og tækniþróunar, menntunar, upplýsinga- og samskiptatækni, félagsréttar, neytendamála, frumkvöðlastarfs og almannavarna. Með EES-samningnum taka EES/EFTA-ríkin þátt í fjölmörgum samstarfsáætlunum ESB, sem og að taka þátt í fjármögnun þeirra.

Samningurinn nær ekki til sjávarútvegs, landbúnaðar, utanríkis- og öryggismála, dómstólasamstarfs, samræmingar viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum og myntsamstarfs.

Ný ESB-lög á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær til eru jafnharðan tekin upp í samninginn og lögleidd á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein á sama hátt og í aðildarríkjum ESB. Sameiginlega EES-nefndin er helsti samstarfsvettvangur ESB og EES/EFTA landanna og þar eru teknar formlegar ákvarðanir um innleiðingu nýrra gerða í samninginn. Ákvarðanir í sameiginlegu EES-nefndinni eru teknar samhljóða. Eftir að ákvörðun liggur fyrir um að taka ESB-lög inn í EES-samninginn ber EES/EFTA-löndunum að innleiða hana í sinn landsrétt. Reglugerðir eru venjulega teknar upp óbreyttar í landsrétt, en ef um tilskipun er að ræða hafa stjórnvöld val um form og aðferð.

EES-samningurinn veitir EES/EFTA-ríkjunum þremur ekki aðgang að töku ákvarðana innan stofnana ESB, jafnvel ekki þegar um er að ræða löggjöf sem líklegt er að EES/EFTA-löndin muni þurfa að taka upp í sinn landsrétt. Löndin þrjú hafa aftur á móti rétt til að taka þátt í mótun lög- gjafar á upphafsstigum hennar.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur eftirlit með framkvæmd reglna EES-samningsins í EES/EFTA-löndunum þremur. ESA hefur sambærilegt vald við framkvæmdastjórn ESB hvað varðar eftirlit og eftirfylgni. ESA getur rannsakað brot á reglum EES í EES/EFTA-löndunum að eigin frumkvæði eða á grundvelli kvartana og getur lagt sektir á fyrirtæki og höfðað mál gegn ríki fyrir EFTA-dómstólnum.

Schengen-samstarfið


Tuttugu og fimm ríki taka þátt í Schengen samstarfinu; 22 ESB-ríki auk Íslands, Noregs og Sviss. Schengen-samstarfið felur í sér afnám eftirlits með sameiginlegum landamærum Schengen-ríkjanna og eflingu á eftirliti með ytri landamærum. Almenningur þarf ekki lengur að sýna vegabréf við innri landamæri, en þarf eftir sem áður að hafa með sér löggild skilríki til að geta gert grein fyrir sér.

Afnám innra vegabréfaeftirlits í Schengen-samstarfinu gildir einnig fyrir borgara þriðja lands. Til dæmis þarf bandarískur ríkisborgari á leið til ESB í gegnum Ísland, að fara í gegnum vegabréfaeftirlit í Keflavík en að því loknu getur hann ferðast að vild um öll Schengen-ríkin án þess að sýna vegabréf.

Við komu til ytri landamæra, eiga innlend yfirvöld að skoða persónuskilríki allra sem fara þar í gegn. Borgarar ríkja sem ekki eru aðilar að Schengen fara í gegnum nákvæmara eftirlit. Þeir einstaklingar sem uppfylla öll skilyrði og hafa fengið Schengen-vegabréfsáritun hafa rétt til að dvelja á Schengen-svæðinu í allt að þrjá mánuði.

Schengen er annað og meira en eingöngu vegabréfaeftirlit. Ríkin sem taka þátt, starfa einnig saman gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og í málum er varða vegabréfsáritanir. Samstarfið nær einnig til lögreglumála og upp að vissu marki til yfirvalda sem fara með mál útlendinga. Aðildarríki ESB starfa ennfremur saman að hælis- og innflytjendamálum.

Bretland og Írland hafa ákveðið að standa utan þess hluta samstarfsins sem nær til afnáms á eftirliti á sameiginlegum landamærum Schengen-landanna. Búlgaría og Rúmenía taka enn ekki fullan þátt í Schengen-samstarfinu.

Til baka: Hvað er ESB?