This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Matvælaöryggi

 

Frá býli til bragðlauka

 

Stefna ESB í matvælaöryggismálum:

 

  • nær yfir matvælaöryggi, velferð dýra sem og dýra- og plöntuheilbrigði
  • sambandið tryggir að hægt sé að rekja vöruna frá býli til neytenda, jafnvel þótt hún ferðist yfir landamæri ríkja ESB, sem verður til þess að viðskipti tefjast ekki og neytendur hafa aukið val og fjölbreytni
  • setur háa staðla fyrir matvæli sem framleidd eru innan ESB sem og þær matvörur sem fluttar eru inn til sambandsins. 


Þrjú meginatriði einkenna stefnu ESB í fæðuöryggismálum

 

  • alhliðalöggjöf um matvælaöryggi og fóðurvörur, sem og hreinlæti
  • ákvarðanataka byggir á traustri ráðgjöf sem byggir á vísindalegum grunni
  • framkvæmd og eftirlit

 

Auk þess ræðst sambandið í sértækar aðgerðir til að tryggja neytendavernd hvað varðar:

 

  • notkun skordýraeiturs, bætiefna í mat, litarefna, sýklalyfja eða hormóna
  • viðbætt vítamín, steinefni og annars konar bætiefni í mat
  • vörur sem komast í snertingu við mat eins og plastpakkningar
  • merkingar á innihaldi sem við gætum verið með ofnæmi fyrir og merkingar eins og „fitusnautt“ og „trefjaríkt“

 

Fögnum fjölbreytileika


Evrópusambandið passar vel upp á að hefðbundnum mat sé ekki ýtt út af markaðnum vegna gæðastaðlanna sem það setur, að nýsköpun sé ekki bæld niður og að gæðum sé ekki fórnað.

Þegar ný ríki ganga í ESB (og um leið innri markaðinn) getur verið að ríkin þurfi að taka til ákveðinna aðgerða til að laga sig að háum gæðastöðlum ESB. Í millitíðinni geta þau ekki flutt út matvæli sem ekki standast þessa staðla.

Hvað varðar notkun erfðabreyttra lífvera, einræktun og nanótækni - betur þekkt sem nýfæði - þá hefur framkvæmdastjórn ESB ábyrga nýsköpun að leiðarljósi.

Dýravernd


Þrátt fyrir að innan ESB séu engin höft á dýraflutningum skal unnið eftir þeim stöðlum sem gilda um heilsu og velferð dýra og á það einnig við meðan á flutningi stendur. Þegar dýrasjúkdómar breiðast út grípur ESB fljótt inn í ef nauðsynlegt reynist að stöðva viðskipti.

Gæludýravegabréf ESB gera Evrópubúum kleift að ferðast með gæludýrin sín. Aftur á móti gilda varúðarráðstafanir um þau líkt og um önnur dýr til að varna gegn útbreiðslu sjúkdóma.

Plöntuheilbrigði


Svo fremi sem plöntur séu lausar við meindýr er heimilt að færa þær um allt Evrópusambandið. Skimanir á innfluttu plöntuefni og eftirlit innan landamæra ESB eru liðir í að greina ný meindýr snemma. Þannig er hægt að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir sem hjálpa til við að halda notkun meindýraeiturs í lágmarki.

Plöntuvegabréf sem fest er við ungt tré gefur til kynna að tréð hafi vaxið við heilbrigðar aðstæður.

Skjót viðbrögð


Viðvörunarkerfi ESB er mjög fljótvirkt en því er ætlað að koma í veg fyrir að neytendur fái matareitrun. Þetta kerfi hefur eftirlit með því hvort matvæli innihaldi bönnuð efni eða óhóflega mikið af áhættumiklum efnum eins og t.d. leyfar af dýralyfjum í kjöti eða krabbameinsvaldandi litarefnum í mat.

Þegar vart verður við yfirvofandi hættu fer hraðvirkt viðvörunarkall af stað til allra ríkja ESB. Það getur verið nóg að stöðva einn skammt af vörunni en, ef nauðsyn krefur, eru allar vörusendingar á þessari tilteknu vöru frá býli, verksmiðju eða höfn stöðvaðar. Vörur sem eru þegar komnar í verslanir gætu verið innkallaðar.

Ákvarðanir byggðar á vísindum


Ákvarðanir ESB um matvæli eru byggðar á vísindum. Evrópska matvælaöryggisstofnun (e. European Food Safety Authority - EFSA) er ráðgefandi við mótun löggjafar og í þeim tilfellum þar sem stefnumótendur þurfa að takast á við matvælaöryggiskrísur.

Framkvæmdastjórnin þá grundvallarreglu hvað varúð varðar að ráðast í tafarlausar aðgerðir ef vísindamenn telja að möguleg hætta sé til staðar.

Framkvæmd og eftirlit


Framkvæmdastjórnin framkvæmir lög sambandsins um fæðu og matvæli með því að fylgjast með því hvort að löggjöf ESB sé innleidd á réttan hátt inn í landslög aðildarríkjanna og að henni sé fylgt. Einnig eru viðhöfð skyndieftirlit innan og utan ESB.

Matvæla- og dýraheilbrigðisskrifstofa framkvæmdastjórnarinnar (e. Food & Veterinary Office - FVO) fylgist með matvælaverksmiðjum en meginhlutverk hennar er að tryggja að ESB og ríkisstjórnir ríkja utan ESB búi yfir fullnægjandi tækjabúnaði til að tryggja að matvælaframleiðendur standist háa öryggisstaðla ESB.

Meira


* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu.


Til baka