This site has been archived on (2015/08/19)
19/08/2015

Efnahags- og peningamál


Stöðugleiki og vöxtur

Innan sameiginlegs markaðssvæðis og mikilvægrar viðskiptaheildar eins og ESB er skynsamlegt að samræma efnahagsstefnu ríkjanna. Þannig getur sambandið brugðist skjótt við áskorunum líkt og þeirri efnahags- og fjármálakreppu sem nú geisar. Með því að taka upp evru sem sameiginlegan gjaldmiðil, hafa sautján aðildarríki nú þegar ákveðið að ganga lengra í samhæfingu á þessu sviði. 


Samstarfsrammi efnahagsmála Evrópussambandsins gengur undir heitinu Efnahags- og myntbandalagið (e. Economic and Monetary Union - EMU). Innan þessa samstarfsramma koma ríkin sér saman um áætlanir um málefni sem snerta efnahag landanna. Afrakstur samstarfsins er aukinn vöxtur, fleiri störf og meiri lífsgæði. Þar að auki gerir samstarfið ríkjum ESB kleift að bregðast skipulega við alþjóðlegum áskorunum í efnahags- og fjármálum sem styrkir sambandið gagnvart utanaðkomandi áföllum. 


Tekist á við kreppuna í sameiningu


Aðildarríki ESB hafa brugðist á samhæfðan hátt við yfirstandandi fjármála- og efnahagskreppu síðan hún hófst í október 2008. Ríkisstjórnir aðildarríkjanna, Seðlabanki Evrópu og framkvæmdastjórn ESB hafa unnið saman að því að verja sparnað, viðhalda flæði á lánsfjármagni til handa fyrirtækjum og heimilum og að setja á fót betra hagstjórnarkerfi. Þá er markmiðið ekki aðeins að koma aftur á stöðugleika, heldur á einnig að skapa aðstæður fyrir hagvöxt og atvinnusköpun.  

Fram til þessa hafa ríkisstjórnir aðildarríkjanna veitt meira en tveimur trilljónum evra inn í björgunarsjóði sambandins. Leiðtogar ríkjanna hafa auk þess skipulagt ríkjaráðstefnur, veitt stuðning til banka og heimilað ábyrgðir á lán. Auk þess hefur Evrópusambandið hækkað lágmarksábyrgðir á innistæður einstaklinga í 100 þúsund evrur að lágmarki. 


Í maí 2010 var búinn til björgunarpakki fyrir aðildarríki sem þurftu á fjárhagsaðstoð að halda. Þar með hélst fjármálastöðugleiki innan ESB þrátt fyrir mikla spennu á hinum sameiginlega fjármagnsmarkaði ESB. Það öryggisnet byggir annars vegar  á Evrópska fjármálastöðugleikakerfinu (e. European Financial Stabilisation Mechanism) og hins vegar á Björgunarsjóði ESB (e. European Financial Stability Facility). Ásamt stuðningi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nemur heildarfjármagnið sem ætlað er að tryggja stöðugleika 750 milljörðum evra. Auk þess er nú unnið að því að setja á laggirnar varanlegt fjármálastöðugleikakerfi (e. European Stability Mechanism) fyrir evrusvæðið. Það á að taka í gagnið um mitt ár 2013.


Hagur í evru


Sameiginlegur gjaldmiðill fyrir stóran hluta Evrópu hefur auðveldað ESB að bregðast skipulega við alþjóðlegri lánsfjárþurrð og gert því kleift að viðhalda meiri stöðugleika en annars hefði verið mögulegt. Evrópski seðlabankinn getur til að mynda lækkað vexti fyrir allt evrusvæðið (í stað þess að hvert aðildarríki setji sína eigin vexti), og evrópskir bankar geta í dag, allir á sömu forsendum, lánað og fengið lánað fjármagn frá öðrum bönkum innan ESB. 

Ríflega 60% íbúa ESB nota evruna daglega en sameiginlegur gjaldmiðill er til hagræðis fyrir alla þar sem kostnaður við gjaldeyriskaup á ferðalögum eða í milliríkjaviðskipta er ekki lengur til staðar. Þá er kostnaður við greiðslur milli ríkja í flestum tilfellum horfinn eða hefur lækkað mjög og að endingu geta neytendur og fyrirtæki nú gert verðsamanburð fyrirstöðulaust sem aftur eykur samkeppni.

Að vera með sameiginlegan gjaldmiðil tryggir verðstöðugleika. Evrópski seðlabankinn ákvarðar vaxtastig með það fyrir augum að halda verðbólgu á evrusvæðinu innan við 2% til meðallangs tíma. Auk þess heldur hann utan um gjaldeyrisforða ESB og getur gripið inn í gjaldeyrismarkaði til að hafa áhrif á gengi evrunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
Evran fyrir alla Evrópubúa

Ætlast er til þess að öll aðildarríki ESB taki upp evru, en aðeins þegar hagkerfi þeirra eru tilbúin til þess. Þess vegna taka þau ríki sem gengu í sambandið á árunum 2004 og 2007 upp evruna hvert á sínum hraða. Danmörk og Bretland eru á hinn bóginn hvorugt með evru enda gerðu þau á sínum tíma sérstakt pólitískt samkomulag þess eðlis. Til þess að ríki geti tekið upp evru verður gengi á upprunalegri mynt þeirra að hafa verið stöðugt í tvö ár. Auk þess verða þau að uppfylla skilyrði er varða vexti, fjárlagahalla, verðbólgu og skuldir ríkissjóðs. 


Ódýrari greiðslur yfir landamæri


Evrópski seðlabankinn er ekki aðeins til þess gerður að halda verðlagi á svæðinu stöðugu, heldur á hann líka að halda niðri kostnaði við evrugreiðslur yfir landamæri fyrir banka og viðskiptavini þeirra.

Evrópski seðlabankinn og seðlabankar evruríkjanna hafa komið á fót rauntíma greiðslukerfi fyrir háar fjárhæðir, TARGET2. Þetta kerfi mun síðar bjóða upp á sama hagræði fyrir verðbréfaviðskipti.

Framkvæmdastjórn ESB og Evrópski seðlabankinn vinna nú í sameiningu að því að koma á laggirnar Innra greiðslusvæði fyrir evruna (e. Single Euro Payments Area) sem á að skila auknu hagræði með markvissari og ódýrar greiðslum. Á endanum munu allar greiðslur í evrum vera höndlaðar á sama hátt, hvort sem um ræðir millifærslur í gegnum í banka eða beingreiðslur á debit eða kreditkort. Þá mun ekki skipta máli hvort greiðslurnar fara fram innanlands eða milli ríkja. Að lokum má nefna að Evrópusambandið er sem stendur að útfæra þetta fyrir debit beingreiðslur.


Hér má nálgast bækling á íslensku um efnahags- og peningamál ESBMeira hér

 

* Þessi texti er þýðing á efni sem fengið er af vefsíðu Evrópusambandsins: europa.eu


Til baka